Aukin lagnaþekking – Mikilvægast árið 1996

Grein/Linkur: Hvað er mikil vægast á árinu?

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Janúar 1996

Hvað er mikil vægast á árinu?

Nýtt þróunarskeið er runnið upp í lagnamálum. Ný lagnaefni eru komin á markað, sem byggjast á nýrri hugsun og nýjum lagnaleiðum.

Áramótaávarp forsætisráðherra var að mörgu leyti fagnaðar boðskaður. Hagur landsmanna er að vænkast, hagvöxtur eykst og atvinnuleysi minnkar. Vissulega ánægjulegur boðskapur sem líklegt er að rætist í það minnsta að hluta. Hér í Morgunblaðinu lýstu forystmenn atvinnugreina áliti sínu á framtíðarhorfum og voru að mestu bjartsýnir. Má þá ekki búast við góðu „lagnaári?“ Ekki ástæða til að ætla annað, en hvað er mikilvægast fyrir lagnamenn í upphafi árs? Er það næg atvinna, næg verkefni, er það betri þjónusta, meiri þekking lagnamanna, eða betri samvinna allra þeirra sem að lagnamálum vinna?

Lagnabyltingin

Sú var tíðin að að hugvitið og handlagnin (sem er í rauninni eitt og hið sama) var það sem réði því hverjir yrðu handverksmenn og leystu vandamál náungans. Engir skólar, ekkert nám, brjóstvitið varð að duga. Iðnbyltingin breytti miklu þó ýmsar greinar, svo sem byggingariðnaður, hafi staðið með blóma um árþúsundir áður en hún gekk í garð. En í framhaldi af iðnbyltingunni verður mikil þróun í hvers konar lagnatækni, aðallega á þessari öld, og þá verður til lagnanám á öllum stigum, allt frá iðnskólum upp til háskóla.

Það er ekki fyrr en um miðja öldina að iðnnám kemst í fastar skorður hérlendis, en þá kemur sveinsprófið og meistarabréfið til sögunnar sem skilyrði til að starfa við löggiltar iðngreinar. Lengst af hafa lagnir í hús verið næsta einhæfar og sá sem lokið hafði tilskildum prófum og fengið meistarbréf í pípulögnum og blikksmíði lét það nægja og gat látið það nægja. Eftirmenntun var ekki á dagskrá, þær litlu breytingar sem urðu á efnisvali síuðust hægt og rólega inn í kollinn á lagnamönnum, stundum allt of hægt með tilheyrandi lagnaslysum. Lagnaleiðir í byggingum breyttust nánast ekkert, menn héldu áfram að fara sömu röngu leiðirnar ár eftir ár og áratug eftir áratug. Þær breytingar sem þar voru gerðar voru yfirleitt þær að fara úr öskunni í eldinn. Við þetta hafa allir unað glaðir, iðnaðarmenn, hönnuðir, arkitektar og það sem furðulegast er; einnig húsbyggjendur og tryggingafélög sem borga verða brúsann af þessu ráðslagi.

Húsbyggjandinn hefur afsökun, því allir hinir eiga að vita hvað þeir eru að gera, hann hefur eðlilega ekki þekkingu né kraft til að breyta þróuninni. Tími sérhæfingar runninn upp Það er mikil gerjun í lagnamálum, nýtt þróunarskeið er runnið upp. Ný lagnaefni eru komin á markað sem byggjast á nýrri hugsun og nýjum lagnaleiðum. Þessvegna er ekki nokkur vafi á því hvað er mikilvægast fyrir lagnamenn í upphafi nýs árs. Að taka sjálfan sig til gagnrýninnar endurskoðunar, skerpa sinn eigin hug, endurbæta sína þekkingu, þekkja sinn vitjunartíma. Sá tími er liðinn að sveinsprófið og meistarabréfið og sú þekking sem þau réttindi grundvölluðust á nægi árum og áratugum saman. Lagnamenn verða að vera í stöðugri endurhæfingu, þeir verða að afla sér endurmenntunar næstum því árlega. Það er hættuleg afstaða margra lagnamanna, bæði iðnaðarmanna og hönnuða, að þeir hafi lært og fengið réttindi í eitt skipti fyrir öll og síðan sé ekkert annað en að vinna og vinna. Þennan hugsunarhátt verður hver og einn að kveða niður hjá sjálfum sér.

Hvað yrði um þann lækni sem ávísaði alltaf á sömu lyfin og voru á markaði þegar hann lauk námi og kynnti sér engar nýjungar? Að lokum stæði hann uppi og þekkti engin lyf, flest þeirra ekki framleidd lengur. Tími endurmenntunar og símenntunar í lagnamálum er runninn upp og það raunar fyrir löngu. Tími sérhæfingar í lagnamálum er einnig runninn upp, nákvæmlega eins og í læknisfræðinni. Það verður vonandi þróunin að hver og einn skerpi sína þekkingu og það verður vonandi þróunin að samvinna lagnamanna aukist; að lagnamenn leiti hver til annars, leiti þangað sem þekkingin er mest, hvort sem það er í hönnun eða handverki. Viðskiptamenn lagnamanna eiga kröfu á því að fá ætíð það besta en á því hefur verið misbrestur, því miður. Á Þessu ári lyfta lagnamenn vonandi lokinu og koma upp úr brunni einangrunar til að afla sér aukinnar þekkingar.

Fleira áhugavert: