Viðhald, nýbyggingar – Lambakjöt, steinsteypa

Grein/Linkur: Lambakjöt úr steinsteypu

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

September 1995

Lambakjöt úr steinsteypu

Eigum við að heimta fleiri lóðum úthlutað til að byggja fleiri íbúðir, sem enginn getur keypt eða enginn hefur þörf fyrir og auka þannig skuldasúpu sveitarfélaganna? spyr Sigurður Grétar Guðmundsson í þætti sínum.

Bölsýni gætir meðal bygg ingamanna þessa lands, at vinnuhorfur á næsta vetri og næstu misserum eru dapurlegar, stjórnarmenn hjá ríki og bæjum eru gagnrýndir fyrir að draga úr framkvæmdum, nýjar íbúðir standa auðar og seljast ekki.

Á gagnrýni á ríkisstjórn og sveitastjórnir rétt á sér, eigum við að halda áfram að reisa opinberar byggingar þó vitað sé að afkomendur okkar verði að greiða kostnaðinn af þeim framkvæmdum? Eigum við að heimta fleiri lóðum úthlutað til að byggja fleiri íbúðir, sem enginn getur keypt eða enginn hefur þörf fyrir og auka þannig skuldasúpu sveitarfélaganna?

Þeir eru margir sem vilja fara þessar leiðir, framleiða „lambakjöt úr steinsteypu“, sem enginn hefur lyst á eða enginn hefur efni á að kaupa og þeir sem þar eru fremstir í flokki eru forystumenn byggingariðnaðarins, bæði atvinnurekendur og launþegar.

Þetta er dapurlegt viðhorf, það eru löngu sannaðar staðreyndir að óarðbærar framkvæmdir, að framleiða vöru sem enginn vill kaupa til að bjarga atvinnuástandi augnabliksins, er eins og að pissa í skó sinn, framtíðin og afkomendurnir verða borga reikninginn.

Það verður að gera þá kröfu til ábyrgra forystumanna byggingariðnaðarins að þeir skilji þetta, það verður líka að gera þá kröfu til þeirra að þeir hafi þá víðsýni að þeir leiti annarra leiða til að finna ný og arðbær verkefni, að þeir geri heilbrigðar og framsæknar kröfur til kjörinna valdsmanna.

Ekki bara að byggja eitthvað til þess að við höfum eitthvað að gera.

Gífurlegt verkefni framundan

Beint fyrir framan nefið á okkur er gífurlegt verkefni, en til þess að í það verði ráðist þarf að opna augu margra og koma mörgum til að hugsa á nýjum nótum.

Þetta verkefni er endurbygging alls húsrýmis á Íslandi, sem er þrjátíu ára og eldra.

Þetta á við um allt húsrými, hvort sem það er í einkaeign eða sameign okkar allra, svokallaðar opinberar byggingar.

En kallar þetta ekki á fjármagn?

.

.

Jú, vissulega, mikið fjármagn og það fjármagn er fyrir hendi. Fjölmargir eigendur eldra íbúðarhúsnæðis eru einnig komnir vel yfir miðjan aldur, margir eiga þeir íbúðir sínar skuldlausar og jafnvel vænan sjóð á bók eða í bréfum. Því fjármagni yrði ekki betur varið en til viðhalds fasteignarinnar og þó enginn sé sjóðurinn er nú svo komið að bankar og verðbréfasjóðir leita að ávöxtunarleiðum. Það er síður en svo verið að velta óarðbærum fjárfestingum yfir á næstu kynslóðir þó lán séu tekin til að endurbyggja eldra húsnæði, það er verið að bjarga verðmætum frá grotnun og eyðileggingu, bjarga því að arfurinn sé í fullu verðgildi.

Forysta og samhæfing

Hvað þarf að gerast til að ráðist sé í þetta verkefni?

Það þarf margt að gerast, það þarf samhæft átak allra þeirra sem þetta mál varðar og lykilmaðurinn að þessari samhæfingu er æðsti maður byggingarmála á Íslandi, umhverfisráðherra.

Í því embætti situr sá maður, sem vel er treystandi til þeirrar forystu, en það þarf ekki síður hugarfarsbreytingu hjá öllum þeim sem lifibrauð hafa af byggingariðnaði hérlendis. Það verður að gera þá kröfu til þeirra að þeir hætti að einblína á verkefni, úrræði og aðferðir gærdagsins og fari að horfa til framtíðar.

Það þarf að vekja byggingariðnaðarmenn, bankamenn, sveitarstjórnarmenn, þingmenn, ráðherra, fasteignaeigendur, skólamenn, verslunarmenn, framleiðendur o.m.fl.

Það þarf að skóla byggingariðnaðarmenn upp á nýtt; ef við tökum lagnamenn sem dæmi þarf að kenna þeim nýja efnisþekkingu, kenna þeim ný vinnubrögð og ekki síst; fágaðri og þjónustliprari framkomu. Á þetta kannske við um alla byggingariðnaðarmenn?

Það er ekki ólíklegt að það þurfi að breyta lögum, einkum skattalögum, þannig að það myndist hvati hjá fasteignaeigendum til að ráðast í endurbyggingu eldra húsnæðis og veita þeim ávinning af því að öll viðskipti fari fram löglega og „svartri“ starfsemi útrýmt. Það má gera með því að vinnuliður framkvæmdanna sé að einhverju leyti gerður frádráttarbær frá skattstofni.

Það þarf að hefjast handa strax í dag.

ALLAR eldri byggingar þarfnast endurnýjunar, að utan sem innan.

Fleira áhugavert: