Karl Marx – 202 ára, sagan

Heimild:

.

Karl Marx

Karl Marx 202 ára og enn að

Sigurður Már Jónsson

Í dag eru 202 ár síðan Karl Marx fæddist og þó margir hafi viljað kasta hugmyndakerfi hans á öskuhauga sögunnar rís það alltaf upp aftur og hertekur umræðuna með einum eða öðrum hætti. Eðlilega er því vinsælt að velta fyrir sér hvar áhrifa hans gætir helst og á 200 ára afmæli hans reyndi pistlahöfundur að setja hann í samhengi við söguna. Jú, vissulega er ekki hægt að fjalla um hugmyndasöguna án þess að ræða kenningar hans sem hafa haft mikil áhrif í sagnfræði, hagfræði og ýmsar greinar félagsfræðinnar.

Það er hins vegar vandasamara að meta bein áhrif hans á þjóðfélög heimsins í dag. Ef við tökum land eins og Víetnam þá telja stjórnvöld þar sig byggja á kommúnisma sem meðal annars á rætur sínar að rekja til hugmynda Kars Marx. Undir stjórnvöldum iðar hins vegar eitthvert kapítalískasta kerfi sem hægt er að finna og þeir sem heimsækja landið segja landsmenn nánast tilbúna til að selja ömmu sína. Ekkert velferðakerfi er í landinu og allt er einkarekið, ef útaf bregður verður fólk að treysta á fjölskylduna eins og landsmenn hafa gert frá aldaöðli. Eins flokks kerfi Kína er einnig byggt utan um hugmyndafræði kommúnistaflokksins sem öllu ræður og þar er fyrirtækjunum skipað að sjá um starfsmenn sína, hýsa þá og klæða. Velferðarkerfi eins og við ástundum hér er ekki til.

Heimaeldaður marxismi

En hvar er þá þjóðfélag sem byggir á kenningum Marx? Auk þeirra tveggja sem hér hafa verið nefnd þá getum við litið til Venesúela og Kúbu, hvoru tveggja lönd sem hafa átt í vandræðum með að brauðfæða íbúa sína og þannig skorið sig frá nágrönum sínum. Sömuleiðis er sláandi að lífskjör hafa stöðugt versnað í þessum löndum undir stjórn sósíalista sem skipta um valdhafa með forskrift ættarveldis, rétt eins og í þeim skrítna afkima sósíalismans sem hægt er að finna í Norður-Kóreu. Þeir sem ekki sætta sig við sultinn heimafyrir í hafa reynt að flýja, meðal annars til Íslands. Í tilfelli Venesúela hefur sósíalistastjórnin þannig skapað stærsta flóttamannavanda sögunnar þar sem stríðsrekstur er ekki orsakavaldurinn. Aðrir heimshlutar hafa ekki farið varhluta af misheppnuðum leiðtogum sem hafa stuðst við sína heimaútgáfu af marxisma. Þar er Zimbabwe undir stjórn Róberts Mugabe nærtækt dæmi.

Á sínum tíma lofaði Vladimír Lenín því að „bændur fengju land, þjóðin fengi frið og hungraðir brauð“. Allt var þetta svikið eftir byltinguna sem átti að færa þjóðina frá einveldi keisarans til lýðræðis. Breski sagnfræðingurinn og blaðamaðurinn Paul Johnson sagði að bolsévikarnir hefðu í raun hagað sér eins og glæpaklíka. Til að skilja framferði þeirra væri betra að skoða mafíuna en hefðbundna stjórnmálaflokka. Hér heima á Íslandi hafa sagnfræðingar gjarnan undirgengist að vera marxistar og viljugir kynnt kenningar hans sem lifandi hugmyndafræði.

Segja má að alla tuttugustu öldina hafi verið barist um arfleið Marx, hvar kommúnismi eða eftir atvikum sósíalismi væri rekinn í takt við kenningasmíði hans. Þetta dró fylgjendur hans inn í pólitískt öngstræti sem klauf heiminn í fylkingar, annars vegar þar sem fólk naut frelsis, markaðskerfis og lýðræðis og hinn ófrjálsa heim sem studdist við mismunandi útgáfur af marxisma. Að lokum hrundi austurblokkin og að sumu leyti finnast ekki sannfærðari fylgjendur hins kapítalíska kerfis en í þessum fyrrum löndum kommúnismans. Hér á Íslandi eru pólskir innflytjendur dyggustu kosningasmalar Sjálfstæðisflokksins. Þeir vita hvað er í húfi. En uppbrot kenningaheimsins birtist hugsanlega í því að á sama tíma hafa Bandaríkjamenn aldrei verið nærri því að viðurkenna sósíalisma sem lögmæta pólitíska stefnu. Um leið tala ráðvilltir pólitískir greinendur um að Kína sé hugsanlega tekið við sem verndari frjálsra viðskipta í heiminum! Aðrir velta því eðlilega fyrir sér hvort það gangi upp að hengja slíkan titil á einræðisríki?

Lögmál sögunnar og leiðrétting þeirra

Marx var sannfærður um að hann hefði uppgötvað hið óumflýjanlega „lögmál sögunnar“ sem leiddi til óhjákvæmilegs dauða kapítalisma og sigurs sósíalisma. Hann daðraði við þá hugmynd að bylting ætti alltaf rétta á sér, hvort sem hún væri blóðug eða ekki. Hann leit því á öll uppþot, uppreisnir og byltingar sem áttu sér stað í Evrópu á meðan hann lifði sem fyrsta skrefið í átt að sameiginlegri paradís. En bið varð á að úr rættist og í hvert sinn sem von hans brást leit hann á það sem sönnun þess að paradísin væri handan við hornið. Síðar urðu kennismiðir kommúnista að spinna þráðinn og frægast var innlegg Leníns um heimsvaldastefnuna sem hefði frestað hinu óumflýjanlega, byltingu öreiganna. Þannig hefðu nýlenduveldin náð að kaupa sér frest með því að flytja út stéttarandstæðunnar. Í heimi kommúnista gekk þessi hugmyndafræði upp þó hún gengi í raun út á að leiðrétta óumflýjanlega „lögmál sögunnar“.

En þegar ljóst var að stofnanauppbygging og þjóðfélagsgerð kommúnismans var feigðarflan fundu fylgjendur Marx nýjar leiðir. Hluti þess var að endurskipuleggja gagnrýni sína á hið kapítalíska hagkerfi og reyna um leið að eigna sér þau velferðarkerfi vesturlanda sem virka. Skiptir engu að hvergi hefur sósíalistum sjálfum tekist að koma á velferðarkerfi sem virkar eins og rakið var hér að framan. En það er kannski eitt af undrum hugmyndasögunnar að ríki eins og Kína hefur tekist að galdra fram kapítalisma úr sínu marxíska stjórnkerfi. Um leið hafa þeir hafnað því frelsi einstaklingsins sem flestir vesturlandabúar telja einmitt forsendu kapítalismans.

Kínversk útgáfa af hinni marx-lenínísku hefð

maxmaoKevin Rudd, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu og forseti stefnumótunarstofnunar Asíufélagsins í New York, flutti fræga ræðu í Singapúr fyrir tveimur árum. Hún var endurbirt að hluta í Morgunblaðinu en í ræðu sinni greindi hann með ágætum hvernig einræðisríkið Kína vinnur með hina marxísku hugmyndafræði. Hann segir að nálgun þeirra sé þekkt sem „Hugsun Xis Jingpings“, og einkenni hún nú alla stefnumörkun Kína í utanríkismálum. „Það á einkum við um þá skoðun Xix að það séu þekkt, óumbreytanleg „lögmál“ sögulegrar þróunar, sem bæði hafi forskriftar- og forspárgildi … Ef þetta hljómar eins og gamaldags díalektísk efnishyggja er það vegna þess að þetta er það. Xi hefur tekið hina marx-lenínísku hefð upp á sína arma og gert að þeim hugmyndafræðilega grunni, sem hann kýs öðru fremur,“ sagði Rudd.

Rudd segir að kínversk stjórnvöld leggi áherslu á óhagganleg lög pólitískrar og efnahagslegrar þróunar, díalektíska efnishyggjusýn á heiminn sem þýðir að í heiminum gerist ekkert af tilviljun. „Þannig heldur Xi því fram að sé greiningarkerfi Marx notað á okkar tíma sé ljóst að skipan heimsmála sé á tímamótum, vestrinu hnigni hlutfallslega samfara hentugum skilyrðum heima fyrir og á alþjóðavettvangi sem geri Kína kleift að rísa. Svo orð Xis séu notuð: „Kína er nú á sínu besta þróunarskeiði á seinni tímum á meðan í heiminum eiga sér stað djúpstæðustu og fordæmalausustu breytingar í heila öld.“ Auðvitað blasa óárennilegar hindran­ir við Kína. En Xi hefur komist að þeirri niðurstöðu að hindranirnar á vegi Bandaríkjanna og vestursins séu meiri.“

Að lokum er rétt að benda á að það er ekki rétt að klæða hugmyndir Marx í búning sakleysis og segja að þær hafi gengið út á endurdreifingu gæða fremur en byltingu framleiðsluhátta. Marx var tækifærissinni í sínu persónulega lífi og því miður hafa hugmyndir hans orðið að banvænni hugmyndafræði í höndum margra af ósvífnustu áróðursmönnum sögunnar.

Fleira áhugavert: