Sjálfvirk blöndunartæki – Einföld, ódýr

Grein/Linkur:  Sjálfvirk blöndunartæki eru einföldust og ódýrust

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Janúar 1999

Sjálfvirk blöndunartæki eru einföldust og ódýrust

Allt of margir vilja ekki taka afstöðu til heita kranavatnsins. Þeir vilja vara við hættunni en ekki taka af skarið og kveða upp úr með það til hvaða ráða skal taka.

Lengst af var það lenska landans að velta hlutunum ekki lengi fyrir sér heldur framkvæma með hraði það sem honum datt í hug.

Þetta hafði ótvíræða kosti en einnig ókosti, þetta varð til þess að margar nýjungar komust fyrr í gagnið en ella, en það varð einnig til þess að dottið var í margan pyttinn, sem kostaði sitt.

Menn voru ekkert að velta hlutunum fyrir sér þegar fyrstu miðstöðvarkerfin voru lögð hérlendis, á sama hátt gengu menn nokkuð hratt og ákveðið til verks þegar hafist var handa við að nota jarðvarmann, sem víða vall upp úr fósturjörðinni engum til gagns um aldir.

En vissulega hefur það kostað þegnana og þjóðarbúið miklar fúlgur að fara stundum ekki varlegar, flötu þökin, steyptu rennurnar og pípulagnir í gólfraufum og útveggjum hafa kostað skildinginn.

Nú er runnin upp ný öld í þankagangi og er þar ekki átt við nýju öldina sem er framundan samkvæmt dagatali, heldur er átt við hvernig við nálgumst vandamálin. Nú er haldnar margar, miklar og lærðar ráðstefnur um lagnamál og það er hið besta mál. En því miður virðist það ætla að verða fylgifiskur þessarar miklu umræðu að margir vísir menn eru tregir til að komast að niðurstöðu, vilja ræða málin aftur og aftur í hring og komast hjá því að taka afstöðu.

Heita kranavatnið er vandamál

Það er búin að vera mikil umræða um heita kranavatnið og eitt er víst; það eru allir sammála um að kranavatn, sem er 70-75C heitt, er hættulegt við viss tilfelli, ekki síst ef notuð eru gömul, léleg og slitin blöndunartæki.

En hver er lausnin?

Það eru allt of margir sem ekki vilja taka afstöðu,vilja vara við hættunni en ekki taka af skarið og kveða upp úr með það til hvaða ráða skal taka.

Lausnin er þessi: að setja sjálfvirk, hitastýrð blöndunartæki í allar sturtur og við öll baðker, en láta heita vatnið renna fullheitt annarsstaðar.

Það er búið að leiða rök að því í þessum pistlum að þetta sé ódýr en örugg lausn og engin ástæða til að endurtaka þau rök frekar.

Þó má bæta því við að þeir sem koma með tillögu um lausn á vandamáli sem þessu verða að fara bil beggja; tryggja boðlega slysavörn en leggja ekki óhóflegar fjárhagsbagga á húseigendur.

Ef til er lausn sem uppfyllir bæði þessi skilyrði þá er hún boðleg.

Rök með og móti

En setjum nú upp svolítinn leikþátt og hlustum aðeins á þá sem eru gagnrýnir á það að telja sjálfvirk, hitastýrð blöndunartæki vera þá slysavörn, sem svo brýn þörf er á. Það er nú einu sinni svo að gagnrýni er holl sé hún sett fram yfirveguð og rökrétt. Helstu rökin gegn notkun sjálfvirkra blöndunartækja eru þessi:

Þau eru ekki gerð fyrir svo háan hita eins og hér er á kranavatni, 70-75 C.

Þau þola ekki íslenskt hitaveituvatn, festast og eru þá hættuleg.

Þau hafa ekki vottun frá framleiðendum eða íslenskum þar til bærum yfirvöldum til notkunar hérlendis.

Skoðum þessi rök svolítið nánar.

Þó hiti á kranavatni sé víðast hvar ekki hærri en 60-65C er ekki þar með sagt að tæki eins og blöndunartæki, hvort sem þau eru handvirk eða sjálfvirk, séu framleidd nákvæmlega til að þola þennan hita og ekki gráðu meir. Enda ætti þá þetta lögmál að hafa gilt um þessi handvirku blöndunartæki, sem verið hafa í notkun hérlendis í áratugi.

Öll tæki eru framleidd með svokölluðum öryggisstuðli og þess vegna er hér fullyrt að óhætt sé að nota sjálfvirk, hitastýrð blöndunartæki fyrir kranavatn sem er allt að 85 C.

Íslenska hitaveituvatnið er mörgum tækjum erfitt, misjafnlega þó. En við þessu er hægt að bregðast einfaldlega á sama hátt og brugðist er við hrakandi bremsum í bíl.

Bremsurnar eru yfirfarnar af bifvélavirkja, skipt um borða og klossa eftir því sem við á eða eins og best er, endurnýja þá eftir ákveðinn tíma.

Á sam hátt eigum við að skapa okkur reglur varðandi sjálfvirk blöndunartæki, já raunar fleiri tæki á hitakerfum og neysluvatnskerfum t. d. þrýstijafnara; við eigum að yfirfara þau og smyrja eftir ákveðinn tíma í notkun.

Pípulagningameistarar ættu að skrá öll sjálfvirk blöndunartæki, sem þeir setja upp, og koma á tilsettum tíma, taka tækið í sundur, smyrja það og hreinsa og þá mun það verða áfram það öryggistæki sem það á að vera.

Kostnaður segir einhver.

Vissulega einhver kostnaður, en það er líka kostnaður að gera bílinn tilbúinn í skoðun.

Fleira áhugavert: