Utanáliggjandi lagnir – Sýnilegar lagnir

Heimild:

.

September 1996

Sýnilegar lagnir ekki svo skelfilegar

Staðreyndir um vatnsskaða af völdum skemmdra lagna höfðu náð eyrum ágætra byggingameistara. Tóku þeir að kanna nýjar leiðir í lögnum og komu viðtökur íbúðarkaupenda á óvart.

Sú hefur verið trú manna á undanförnum áratugum að hérlendis mættu ekki sjást lagnir í híbýlum eða vinnustöðum. Eftir þessari trú hafa hönnuðir farið þegar þeir ákveða lagnaleiðir og eftir þeirra teikningum og hönnun hafa pípulagningamenn unnið, allar lagnir huldar í veggjum og einangrun.

Á tímabili þótti það mikil framför að leggja í gólfraufar í neðstu plötu og eru það einhverjar dýrustu villigötur sem húseigendur hafa verið teymdir inn á, kannske til lítils að fara að tyggja upp einu sinni enn að sannanlegur árlegur kostnaður af vatnssköðum hérlendis er yfir einn milljarður. Þessi mikli fórnarkostnaður stafar að minnstum hluta af gölluðu lagnaefni, að langmestu leyti tærast rör að utan en ekki að innan. Það segir okkur að það er utanaðkomandi raki sem tærir þau, raki sem þrengir sér inn um sprungur í veggjum, steypuskil og neðstu plötu.

Kom skemmtilega á óvart

Margir vandaðir byggingamenn, sem byggja íbúðarhúsnæði til sölu á almennum markaði, eru opnir fyrir því að reyna nýjar leiðir í lagnamálum til að tryggja hag sinna viðskiptavina í framtíðinni. Því miður eru þeir þó of margir í þeirra hópi, og ekki síður í hópi pípulagningamanna og hönnuða, sem halda fast við „hefðina“, gera allt eins og hefur verið gert undanfarna áratugi enda einfaldast og áreynsluminnst a.m.k. fyrir hugann. Skjóta má því inn að það var ömurlegt að koma inn í nýtt atvinnuhúsnæði í höfuðborginni, hús á einni hæð með stórum suðurgluggum, þar sem var retúrloki á öllum ofnum. Fyrirmæli um val lokanna var á teikningu valinkunnra hönnuða, en skyldu þeir ekki hafa mátt vera að því að fylgjast með framþróun sjálfvirkra ofnventla sl. áratug? En þetta var svolítill útúrdúr, ætlunin var að segja frá ágætum byggingameisturum sem byggja og selja íbúðarhúsnæði. Staðreyndirnar um vatnsskaða af völdum skemmdra lagna höfðu náð eyrum þeirra og þeir voru opnir fyrir að kanna nýjar leiðir ef það gæti orðið til þess að koma í veg fyrir að kaupendur íbúðanna lentu í ónauðsynlegum hremmingum og fjárútlátum síðar.

Í samráði við hönnuð og pípulagningameistara voru lagnaefni og lagnaleiðir valin. Heitt og kalt neysluvatn var lagt úr Wirsbo rör-í- rör kerfi, einnig stofnar ofnhitakerfa frá tengiklefa að tveimur tengiskápum í hverri íbúð. Að öðru leyti var ofnhitakerfið lagt utanáliggjandi úr Mannesmann plasthúðuðum stálrörum og þrýstitengjum.

Þegar nær dró því að íbúðirnar væru fullbyggðar fóru húsbyggjendur að fá eftirþanka: hvað munu væntanlegir kaupendur segja þegar þeir sjá utanáliggjandi lagnir og heyra að hluti af lögnum er úr plasti? Svarið liggur nú fyrir, margir hafa skoðað þessar íbúðir og sumar eru seldar. Það kom skemmtilega á óvart að kaupendur höfðu ekkert á móti utanáliggjandi lögnum né plaströrum. Þótt þarna sé ekki um ýkja stóran hóp að ræða er ekki óeðlilegt þó spurningu skjóti upp: Er það þjóðsaga að hérlendis megi ekki sjást utanáliggjandi lagnir? Hefur þessi þjóðsaga nærst á sjálfri sér, hönnuðir, pípulagningamenn og byggjendur farið eftir henni í blindni án þess að vita nokkuð um vilja almennings?

Það kann hinsvegar að vega þungt í afstöðu hins almenna borgara að á undanförnum árum hefur umræða um lagnamál og vatnsskaða stóraukist og það hefur efalaust fengið fjölmarga til að hugsa meira um sín lagnakerfi og skilningur á lagnamálum tvímælalaust aukist.

Þessi saga sem hér var sögð um nýjar leiðir í lagnamálum gerðist á höfuðborgarsvæðinu en að sjálfsögðu ekki í Reykjavík.

Fleira áhugavert: