Efnisþekking lagna – Eðalmálmar, minni eðalmálmar

Grein/Linkur: Margt þarf að varast við tengingu ólíkra málma

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Apríl 2003

Margt þarf að varast við tengingu ólíkra málma

Fyrir nokkrum árum auglýsti einn gamalreyndur framleiðandi plaströra framleiðslu sína sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi. Hins vegar gaf umrædd auglýsing ákaflega villandi skilaboð til þeirra sem keyptu og notuðu plaströrin því aðalinntak hennar var að „lögn plaströranna er barnaleikur“.

Líklega hefur framleiðandinn verið með það í huga hve létt plaströr eru í samanburði við stálrör, að ekki sé talað um rör úr steypujárni, nokkuð sem við höfum kallað pottrör um langan aldur.

Þetta var á þeim árum sem plastbyltingin var í algleymingi og ýmis ný afbrigði af málmrörum og tengihlutum að flæða inn á markaðinn. Hinn einfaldi og fábrotni röraheimur sem iðnaðarmenn jafnt sem húsbyggjendur lifðu og hrærðust í var á fallandi fæti, alltaf ný og ný afbrigði af hvers konar lagnaefni flæddi inn á markaðinn.

Sá heimur sem þá varð til er sannarlega ekki neinn „barnaleikur“. Það er hins vegar staðreynd að allt efni, hvort sem það eru rör, tengi eða ofnar, hefur breyst þannig að öll þau efni sem við notum í dag eru léttari og þannig meðfærilegri.

En það segir ekki alla söguna.

Efnisþekking nauðsynleg

Við þessa byltingu fjölgaði ábyggilega þeim sem telja sér alla vegi færa, þetta sé allt svo einfalt og létt, ekki annað að gera en „henda niður plaströrum“ og tengja þau með einhverjum léttum og liprum tengjum, annaðhvort skrúfuðum eða þrykktum.

En það eru ekki aðeins plaströr í boði, ryðfrí stálrör eru í mikilli sókn og ekki má gleyma þeim málmi sem líklega hefur valdið meiri vatnsskaða en annað lagnaefni, það er koparinn, sem við Íslendingar nefnum yfirleitt alltaf eir.

Image result for corrosion pipesÞetta er dapurlegt því eir er úrvalsmálmur og eirrör eru hið besta val þegar aðstæður eru réttar, vatnið er rétt og rétt er lagt og tengt.

Vegna þessara fjölbreyttu lagnaefna þarf hver sá er notar og leggur kerfi úr þessum efnum að búa yfir miklu víðtækari efnisþekkingu en nokkru sinni fyrr.

Ekki má gleyma galvaniseruðu stálrörunum sem svo mikið voru notuð hérlendis til neysluvatnslagna, en eru nú að sýna á sér heldur varasamar hliðar. Ekki er ástæða til að ætla að gæðum þeirra hafi hrakað heldur miklu fremur að það vatn sem um þau rennur hafi breyst. Ekki að vatnið sé lakara sem drykkjarvatn heldur þvert á móti. Þetta kann að hljóma eins og þversögn og er það í sjálfu sér, en þarna eiga fleiri þættir sinn þátt, aðrar lagnaleiðir og breyttir þjóðfélagshættir koma þar einnig við sögu.

Það er ekkert nýtt að notaðir séu ólíkir málmar í lögnum. Í marga ártugi höfum við notað galvaniseruð rör og margs konar loka úr messing í sömu lögn án þess að það hafi komið að sök.

Það er mikil stéttaskipting í heimi málmanna, þeir eru með mismunandi blátt blóð, sumir eru eðalmálmar, aðrir minni eðalmálmar. Stálið er neðarlega, eirinn ofar sem og ryðfría stálið. Það er ástæða til að vara við samtengingu á galvaniseruðum rörum og ryðfríum, þar eru ýmsar hættur. Það er mjög varasamt að tengja saman ryðfrí rör og ný galvaniseruð rör, hættan er miklu minni ef galvaniseruðu rörin eru gömul og notuð, þau kunna að vera í góðu standi samt.

Þá þarf alltaf að gæta þess að eðlari málmurinn komi utanyfir þann óeðlari. Þannig ætti aldrei að skrúfa ryðfrían nippil eða skrúfbút inn í tengi úr galvaniseruðu stáli, þá er meiri hætta á að stálið tærist.

Lagnir úr mismunandi málmum sem krossast eða liggja hlið við hlið geta skaðað það óeðlara. Við skyndilegan leka var ástæðan könnuð og kom þá í ljós að eirrör lá þvert yfir galvaniserað rör. Afleiðingin varð sú að beint undir eirrörinu vantaði stykki á það galvaniseraða.

Í tengiboxum, sem nú eru orðin algeng, ætti alltaf að vera góð lofræsing, þannig að ekki geti myndast þéttiraki, sem er ryðfríum rörum hættulegur og getur valdið tæringu þannig að í þeim myndast sprungur.

Já, fjölbreytnin hefur aukist í lagnaheimi en lífið varð ekki einfaldara þess vegna.

Fleira áhugavert: