Ryðmyndun – Galvaníseruðum kaldavatnsleiðslum

Grein/Linkur:  Er sökudólgur inn fundinn?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Mars 1996

 Er sökudólgur inn fundinn?

Engin óyggjandi ástæða er fundin fyrir ryðmyndun í galvaníseruðum kaldavatnsleiðslum á höfuðborgarsvæðinu. Langlíklegast er, að orsökin sé samspil fjölmargra þátta.

ÞAÐ er ekki langt síðan fjallað var um ryðmyndun í galvan iseruðum kaldavatnsleiðslum á höfuðborgarsvæðinu hér í pistli. Síðan hafa færari menn bætt um betur og á síðum Morgunblaðsins hafa birst viðtöl við sérfræðinga frá Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins og Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Eitt er þó víst að engin óyggjandi ástæða er fundin og allir eru með vangaveltur og getgátur og kannske eru settar fram of miklar fullyrðingar um orsökina.

Hins vegar hefur ekkert eða lítið heyrst frá öðrum landshlutum, en sumstaðar hefur ryðlitur á vatni og tæring í köldum galvaniseruðum stálrörum verið þekkt lengi og orsökin augljós, t.d. þar sem notað er yfirborðsvatn.

Það er nú einu sinni svo að kalda vatnið á Íslandi, sem alltaf er verið að mæra, er ekki allt eins eða allt eins saman sett.

Það sem er einkennilegast við þennan vanda er að þetta gerist í nýjum kerfum og nýjum lögnum. Það eru til kaldavatnskerfi, margra áratuga gömul, lögð úr galvaniseruðum stálrörum og þegar þó eru tekin í sundur sést ekki á rörunum innanverðum.

Annað athyglisvert er að nákvæmlega það sama er að gerast erlendis t.d. í Danmörku, nýjar lagnir skemmast að innanverðu vegna ryðmyndunar þegar ekki sér á afgömlum lögnum, þó rennur sama vatn um lagnirnar.

Hvað er að gerast?

Dönsk tilgáta um orsök

Það er ekki óeðlilegt að láta sér detta í hug að zinkhúðin innan á rörunum sé svona miklu lélegri en áður fyrr en ekki hefur það sannast.

Danskur lagnamaður hefur sett fram tilgátu um hver orsökin að þessum lagnaskemmdum sé og það er vissulega ástæða fyrir okkur hérlendis að veita henni athygli.

Það eru gömul sannindi, sem lagnamenn hafa þekkt um áratugi, að ekki á að láta vatn renna eftir koparrörum (sem við hérlendis köllum eirrör) áður en það rennur eftir galvaniseruðum (zinkhúðuðum) stálrörum. Vatnið tekur í sig kopar í litlu magni sem síðan eyðileggur zinkhúðina á innveggjum stálröranna, ryðmyndun og tæring hefst þegar verndarhúðin hverfur.

Á öllum kaldavatnslögnum, sem og öðrum lögnum, eru margir lokar, það geta verið rennilokar eða einstreymislokar, það eru settar á leiðslurnar þrýstimælar og fleiri mælar. Þetta er gert í hvers konar húsnæði, þetta er gert á heimæðum, þetta er gert í götuæðum og dælustöðvum.

Oftast eru þessir lokar úr málmblöndunni messing, sem er hérlendis ranglega kölluð kopar. Messing er blanda af fleiri en einni tegund málma og ein tegundin er kopar, málmurinn sem er hættulegur zinkhúðuðum stálrörum.

Innbyrðishlutföll málma í messing eru mismunandi eftir framleiðanda og gerð en eitt er þessari málmblöndu sameiginlegt í dag; hlutfall kopars er miklu hærra nú en var fyrir svo sem einum áratug. Koparinnihaldið er frá 58% og allt upp í 85% og þegar koparinnihaldið er svo mikið er afleiðingin sú sama og um hreinan kopar sé að ræða.

En þó, langlíklegast er að orsök tæringar á galvaniseruðum stálrörunm í kaldavatnskerfum sé samspil fjölmargra þátta. Hver veit hvað er að gerast í þessu rafsegulmagnaða umhverfi okkar, það er einmitt á síðustu árum sem við höfum yfirfyllt heimilin af hverskonar tækjum, sjónvörpum, útvörpum, þvottavélum, hljómflutningstækjum, klukkum og þannig mætti lengi telja.

Er þessi ofhleðsla að eyðileggja sálarró okkar og kaldvatnleiðslurnar um leið?

ER hann bölvaldurinn?

Fleira áhugavert: