Vatnslögn Vestmannaeyja – Lögreglurannsókn, refsivert gáleysi

Grein/Linkur: Tíu mánaða langri lögreglurannsókn á áhöfn Hugins VE lokið

Höfundur: Georg Gylfason, Heimildinni

Heimild:

.

Vandasamt verkefni – Vatnslögnin varð fyrir miklum skemmdum og forstjóri HS Veitna hefur sagt að viðgerðin muni bæði verða tímafrek og kostnaðarsöm. Mynd: HS-veitur

.

September 2024

Tíu mánaða langri lögreglurannsókn á áhöfn Hugins VE lokið

Karl Gauti Hjalta­son, lög­reglu­stjóri í Vest­manna­eyj­um, seg­ir að rann­sókn á því hvort skemmd­ir á vatns­lögn til Vest­manna­eyja megi rekja til refsi­verðs gá­leys­is sé lok­ið. Rann­sókn­in hef­ur stað­ið yf­ir síð­an í nóv­em­ber í fyrra og hef­ur ver­ið lögð fyr­ir ákæru­svið lög­reglu sem mun taka end­an­lega ákvörð­un um það hvort grun­að­ir í mál­inu verði sótt­ir til saka eð­ur ei.

Rannsókn lögreglu á tjóni sem varð á neysluvatnslögn til Vestmannaeyja er lokið. Málið hefur verið lagt fyrir ákærusvið lögreglunnar í Vestmannaeyjum sem ákveður hvort ákæra verði gefin út. Þetta staðfestir Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, í samtali við Heimildina.

Í nóvember í fyrra féll akkeri skipsins Hugins VE útbyrðis og dróst eftir hafsbotninum og olli miklu tjóni á lögn sem sér Vestmannaeyingum fyrir öllu sínu neysluvatni.

Skömmu eftir að atvikið átti sér stað hóf lögreglan í Vestmannaeyjum rannsókn til þess að skera úr um það hvort skemmdirnar mætti rekja til refsiverðs gáleysis. Rannsóknin hefur því staðið yfir í um tíu mánuði.

Þrír áhafnarmeðlimir eru með réttarstöðu sakbornings í rannsókninni, skipstjóri, stýrimaður og vélstjóri Hugins VE. Tveimur dögum eftir að atvikið átti sér stað voru skipstjóri og yfirstýrimaður Hugins reknir.

Hver á sök? Kostnaður við viðgerðir á vatnslögninni er talinn vera um 1,5 til tveir milljarðar króna. Lögreglan í Vestmanneyjum hóf snemma að rannsaka hvort tjónið hafi mátt rekja til refsiverðs gáleysis af hálfu skipstjórnarmanna og vélstjóra Hugins VE. Mynd: Shutterstock

Lögregla fékk greiðan aðgang að öryggisupptökum

Sjómannafélag Vestmannaeyja og fleiri brugðust illa við uppsögnunum á sínum tíma og gagnrýndu forstjóra Vinnslustöðvarinnar, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, fyrir að varpa allri ábyrgð á undirmenn sína án þess að kanna hvort útgerðin sjálf bæri einhverja ábyrgð á því hvernig fór.

Sigurgeir Brynjar sagði það þó vera ljóst hverjir bæru ábyrgð á tjóninu og vísaði þar í myndbandsupptökur frá skipinu. Þóttu upptökurnar sýna að skipstjórnarmenn Hugins hefðu ekki rækt skyldur sínar með viðunandi hætti með því að ganga úr skugga um að búnaður skipsins væri í lagi.

 sjóprófum sem haldin voru eftir atvikið kom í ljós að akkeri Hugins hafði áður farið í sjóinn án þess að neinn úr áhöfninni hafi orðið var við það. Þetta endaði með því að akkeriskeðja skipsins slitnaði.

Skipstjórnarmennirnir og fyrrum yfirvélstjóri Hugins bentu á að útgerðinni hafi verið gert viðvart um fyrra atvikið og það hefði verið upplýst um galla á akkerinu sem var sett upp í staðinn.

Þá viðurkenndi forstjóri útgerðarinnar að akkerisbúnaðurinn væri ekki í lagi í fyrrnefndum sjóprófum. Til að mynda lá fyrir að keðjan á akkerinu væri 90 til 120 metrum of stutt. Töldu áhafnarmeðlimirnir að ef keðjan hefði verið bæði lengri og þyngri þá hefði áhöfnin orðið fyrr vör við að akkerið hafi losnað og það hefði þá sennilega ekki dregist jafnlengi eftir hafsbotninum með tilheyrandi afleiðingum.

Spurður hvort lögregla hafi haft fullan aðgang að öllum myndbandsupptökum um borð í Hugin VE í rannsókn sinni segist Karl Gauti geta staðfest það.

„Við höfum bara fengið allar þær myndir sem við höfum viljað fá og ég man ekki eftir að hafa heyrt að það væri eitthvert vandamál.“

Þá staðfestir Karl Gauti einnig í samtali við Heimildina að lögregla hafi haft greiðan aðgang að myndefni sem tekið var upp um borð í Hugin VE áður en atvikið átti sér stað.

Vestmannaeyjabær í hart við útgerðina

Kostnaður vegna viðgerða á vatnslögninni er talinn vera um 1,5 til tveir milljarðar króna. Í frétt Heimildarinnar sem birt var síðastliðinn júlí var haft eftir Páli Erland, forstjóra HS Veitna, að nokkurrar óvissu gætti um hversu kostnaðarsamt tjónið yrði á endanum. Þá væri viðgerðin á lögninni flókið og vandasamt verkefni sem krefðist mikils undirbúnings og gæti í heildina tekið allt að tvö ár.

Eins er óljóst hver muni greiða fyrir viðgerðina. Vinnslustöðin hefur hafnað því að greiða fyrir tjónið, umfram þá upphæð sem útgerðin er tryggð fyrir. Sú upphæð hljóðar upp á 370 milljónir króna.

Í sumar tilkynnti bæjarráð Vestmannaeyja að það hygðist, ásamt HS Veitum, stefna Vinnslustöðinni og tryggingafélagi þess til greiðslu tjóns. Þann 11. júlí síðastliðinn samþykkti bæjarstjórn sameiginlega bókun um að höfða dómsmál til að heimta fullar bætur fyrir tjónið.

Í bókuninni kemur fram að Vinnslustöðin og tryggingafélag hennar freisti þess að takmarka bæturnar við 360 milljónir króna með vísan í heimildarákvæði í siglingalögum.

„Þrátt fyrir umrætt heimildarákvæði er ekkert sem bannar Vinnslustöðinni að bæta að fullu það tjón sem fyrirtækið hefur valdið bæjarbúum. Það væri viðskiptaleg ákvörðun sem félaginu er fyllilega heimilt að taka. Tjónið er gríðarlegt og nemur a.m.k. 300 þúsund krónum á hvern bæjarbúa. Það er siðferðilega óásættanlegt að þessu tjóni verði eingöngu velt yfir á íbúa í Vestmannaeyjum með hækkun skatta og gjalda á meðan tjónvaldurinn sjálfur, Vinnslustöðin, sé eini málsaðilinn sem komi skaðlaus frá því tjóni sem hún olli.“

Fleira áhugavert: