Plastlagnir – Gott lagnaefni en hefur sín takmörk
Grein/Linkur: Plast er gott lagnaefni en hefur sín takmörk
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
Janúar 1994
Plast er gott lagnaefni en hefur sín takmörk
Plaströr eru svo sjálfsagður hlutur í dag að mörgum mun koma á óvart hve stutt er síðan notkun þeirra hófst hérlendis. Frumherjinn hér á landi er tvímælalaust Reykjalundur. Þar hófst framleiðsla plaströra á sjötta áratugnum, enda var það ekki fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld (sem lauk 1945) að notkun plaströra varð almenn.
Ekki má gleyma því að plastefni eru mörg og margvísleg. Rifjum upp í stuttu máli hver eru helstu plastefni, sem notuð eru í rör hérlendis.
Fyrst skal nefna POLYETEN. Úr því efni byrjaði Reykjalundur að framleiða kaldavatnsrör. Höfuðkosturinn við POLYETEN er hversu „seigt“ það er. Þess vegna þolir það vel högg og hægt er að vinna með það í hörkufrosti þegar mörg önnur plastefni hreinlega brotna.
POLYPROPEN hefur meira hita- og þrýstiþol; PVC er notað í rafmagnsrör og frárennslislagnir í grunnum; POLYBUDEN í hitaveitulagnir.
Þetta eru helstu tegundirnar.
PEX-rör, sem margir þekkja, er ekki sérstök efnistegund heldur POLYETEN sem hefur verið sérstaklega meðhöndlað. Það er því framleiðslumátinn sem gerir þau sérstök.
Plaströr til húsalagna
Snjóbræðslulagnir eru þar tvímælalaust efstar á blaði, en umfjöllun um þær þarf heilan pistil. Innanhúss aukast gólfhitalagnir talsvert, þó miklu minna en á meginlandi Evrópu. Gólfhitakerfi eiga við talsverða fordóma að stríða hérlendis, en það veitir ekki af sérstökum pistli um gólfhita eins og snjóbræðslu.
Fram að þessu hafa menn verið mjög tregir að fara inn á nýjar brautir í lögnum hérlendis og ekki síður að taka upp ný lagnaefni og lagnakerfi. Plaströr eru þó orðin ráðandi í frárennslislögnum, bæði í grunnum og innanhúss.
Það er athyglisvert að skoða svolítið hvar og hvernig þróun lagnaefna fer fram hérlendis. Þar er það lagndsbyggðin sem er leiðandi en höfuðborgin er þung í taumi. Þar hefur löngum ríkt sérstök íhaldssemi, sem sumir telja frekar vera varkárni. En ef landsbyggðin hefði ekki sýnt frumkvæði og áræði má telja líklegt að plaströr væru lítt þekkt í lagnakerfum bygginga.
Mikið framfaraspor var stigið þegar lagnadeild var stofnuð hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Þar er loksins kominn aðili sem getur sagt af eða á um hvað má nota og hvað ekki.
Hvað um hita- og vatnslagnir?
Á því sviði hefur nákvæmlega það sama verið að gerast og áður með frárennslisrör úr plasti. Höfuðborgin hefur bannað á meðan hröð þróun hefur átt sér stað á landsbyggðinni
Á hverskonar plaströrum er völ?
Nefnum fyrst PEX-plaströr. Hvað þýðir tegundarheitið PEX? PE þýðir að rörin eru búin til úr POLYETEN og eru því samstofna svörtu plaströrunum sem Reykjalundur hóf framleiðslu á fyrir 40 árum. En hvað þýðir X? Það þýðir að með sérstakri framleiðsluaðferð er efniseindunum raðað saman á þann hátt sem krossbinding kallast. Þetta er gert annaðhvort með geislun eða efnafræðilegum aðferðum.
Þannig verða til plaströr sem hafa meiri hita- og þrýstiþol en POLYETEN-rör áður höfðu, plaströr sem hægt er að nota fyrir hita- og neysluvatnslagnir. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hefur gefið út upplýsingabækling um PEX-rör, auk þess sem innflytjendur þeirra hafa margskonar upplýsingar.
Athyglisverðast við lagnamáta PEX-röra er að draga þau í hlífðarrör frá einum tengistað til annars. Til að þetta skiljist betur þá er ágætt að hugsa um raflögn. Fyrst eru lögð rör og síðan eru raflagnirnar dregnar í. Á sama máta eru hlífðarrörin (bylgjuð plaströr) lögð fyrst, síðan eru PEX-rörin dregin í. Þetta auðveldar alla endurnýjun.
PEX-rör er ekki hægt að sjóða (bræða) saman. Þau verður að tengja með málmtengjum og er það líklega það neikvæðasta við þessi annars ágætu plaströr.
PEX-rör eru ekki framleidd hérlendis.
Suðuhæf plaströr
Er hægt að fá plaströr og tengi úr plasti til að leggja hita- og vatnslagnir innanhúss? Já, mikil ósköp. Slík kerfi hafa verið framleidd, t.d. í Þýskalandi, árum saman. En þau hafa ekki sést hérlendis. Þau eru ekki alveg eins hita- og þrýstiþolin og PEX-rörin en eiga þó að þola þann hita sem er á hitaveituvatninu á höfuðborgarsvæðinu.
Þessi rör eru úr POLYPROPEN, plastefni sem er vel þekkt hérlendis. Hitaveitur hafa verið lagðar úr slíkum rörum á landsbyggðinni og þau hafa verið notuð sem snjóbræðslurör. POLYPROPEN-lagnakerfi til innanhússnota eru tengd með svokallaðri múffusuðu. Með litlu áhaldi, sem er ekki fyrirferðarmeira en lítil borvél, er rörendinn hitaður að utanverðu og tengið (hné, té, múffa) að innanverðu. Þegar ákveðnu hitastigi er náð, sem tekur skamman tíma, er rörendanum skotið inn í tengið; við kólnun verður þetta sem heilt.
Svolítið sérstakt
Það má aldrei gleyma því að plast er allt annað efni en málmur. Það má raunar segja að plast sé alltaf fljótandi, aðeins mismunandi mikið. Fljótandi ástand er hægt að framkalla með hita- og/eða þrýstingi. Það má einnig segja að plaströr séu ekki 100% þétt. Það á fyrst og fremst við um loft. Ef alltaf er sama vatnið í plaströrakerfi getur súrefni í andrúmslofti blandast við vatnið. Það getur aftur á móti valdið skaða á málmum, t.d. ofnum. Þessu mega lagnamenn ekki gleyma en þetta þarf engan veginn að koma í veg fyrir notkun plaströra, aðeins að nota þau rétt við hverjar aðstæður. Önnur lagnaefni hafa einnig sína veiku punkta, sem ekki má gleyma.
Nautin í Hrísey
Stundum geta þessir eiginleikar plaströra tekið á sig broslegar myndir.
Í Hrísey er fleira en menn, rjúpur og steinlagðar götur. Þar er líka jarðhiti og holdanautabú. Nú þurftu menn að leggja heitt vatn nokkurn spöl í skurði til búsins og auðvitað völdu þeir til þess hitaþolin plaströr. Til þess að tapa sem minnstum hita á leiðinni voru plaströrin einangruð. Nóg var af úrvalseinangrun á staðnum; mykjan úr holdanautunum. Þetta tókst með ágætum, mykjan þornaði með tímanum og varð prýðis einangrun.
En það er sama hvenær skrúfað er frá heitu vatni á búinu hvort sem er í eldhúsi eða baði.
Það gýs upp þessi líka indælis mykjuilmur!