Vatnsskortur – Vatn flutt um langar leiðslur, eins og olía

Grein/Linkur: Suður-Spánn gæti orðið ein eyðimörk

Höfundur: Kári Gylfason

Heimild:

.

Skortur kann að verða á vatni

Hér má heyra umfjöllun í Speglinum á RÚV

.

Setember 2015

Suður-Spánn gæti orðið ein eyðimörk

Skortur kann að verða á vatni víða um heim á næstu árum. Um miðja þessa öld gæti Suður-Spánn verið orðinn ein eyðimörk, haldi áfram sem horfir. Fjárfestingarsjóðir sem gera ráð fyrir vatnsskorti í framtíðinni, hafa skilað gríðarlegri ávöxtun.
Jarðarbúar eru þrefalt fleiri nú en um miðja síðustu öld og nota sexfalt meira vatn. Stærstu grunnvatnsból jarðarinnar eru nú að þorna upp með ógnarhraða. 21 af 37 stærstu vatnsbólum jarðar nær ekki að endurnýja birgðir sínar. Meira vatni er dælt úr þeim en kemur í þau.

Þýska tímaritið Spiegel birti nýlega viðamikla úttekt á því hvað gerist í heiminum þegar þrengja tekur að vatnsbúskap.

Vatnsfrekur landbúnaður

Á Spáni horfir til að mynda illa til lengri tíma litið. Mikið er framleitt af ávöxtum og grænmeti í landinu, að stórum hluta til útflutnings. Þetta er vatnsfrekur iðnaður og í raun verið að flytja út vatn, eins og sagt er frá í Spiegel. Oft frá löndum þar sem lítið er af vatni, eins og Spáni, til landa þar sem vatnsskortur er ekkert vandamál – til dæmis Þýskalands eða Íslands. Til að rækta eina appelsínu þarf um 80 lítra af vatni. Mjólkurlítri kostar rúma 1.000 lítra, og eitt kíló af nautakjöti um 15.500 lítra af vatni.

Á plantekrum í nágrenni Huelva, eru um 20 milljarðar lítra af vatni notaðir á ári hverju. Það eru um 8.000 ólympíusundlaugar. Vatn á tvær af hverjum þremur bújörðum er fengið með ólöglegum hætti – úr brunnum sem gerðir hafa verið án leyfis. Landbúnaðarráðuneyti Spánar telur að í landinu öllu hafi verið boruð um hálf milljón ólöglegra brunna. Vatnið sem úr þeim er ausið, myndi duga til að fullnægja daglegum þörfum um sextíu milljóna, að sögn Spiegel.

Haft er eftir vísindamanninum Jonathan Gómez að haldi þróunin áfram eins og verið hefur, verði Suður-Spánn orðinn ein eyðimörk fyrir miðja þessa öld.

Verður vatn flutt um langar leiðslur eins og olía

Í Kaliforníuríki hafa einnig verið miklir þurrkar, en um helmingur ávaxta, grænmetis og hneta sem ræktuð eru í Bandaríkjunum, er ræktaður í Kaliforníu. Vegna vatnsskorts hefur verið mikil ásókn í vatnsból neðanjarðar. Nú um stundir eru um tveir þriðju af vatni sem notað er í Kaliforníu, úr vatnsbólum neðanjarðar. Borað er eftir vatninu með stórum jarðborum. Margir þeirra eru fluttir til Kaliforníu frá Texas, þar sem þeir voru áður notaðir til að leita að olíu. Það kann að koma að því að vatn verði líka flutt eins og olía, með löngum leiðslum – jafnvel frá Alaska og suður á bóginn, segir í Spiegel. Jarðolía er nú þegar flutt á þann hátt. Íslenskt fyrirtæki, Brúarfoss, hyggur á vatnsflutninga í tankskipum um langar vegalengdir.

Góðar lausnir Ísraela

Heitt loftslag og mikill landbúnaður leiða þó ekki endilega til ósjálfbærrar nýtingar á vatni.

Spiegel bendir á að Ísraelar hafi þróað aðferðir sem geti gagnast öðrum þjóðum, þegar enn frekar fer að bera á vatnsskorti. Þróuð hefur verið tækni til að vinna ferskvatn úr sjó. Í einu ferskvatnsvinnsluverinu eru unnar 26 milljónir lítra á hverri klukkustund, nóg fyrir allt þéttbýlissvæðið við Tel Aviv. Vinnslan krefst hins vegar gríðarmikillar orku. Um 10% af raforkuframleiðslu Ísraels fer í ferskvatnsvinnslu úr sjó.

Þá gilda strangar reglur um vatnsnotkun í Ísrael. Landsmenn þurfa að greiða vatn dýru verði, sé notkun þeirra umfram ákveðin viðmið. Og Ísraelar endurnýta um 86% af því vatni sem notað er í landinu. Til samanburðar endurvinna Spánverjar 17% og Bandaríkjamenn 1%.

Hagnaður og tækninýjungar

Fyrirtæki og fjárfestar virðast gera ráð fyrir auknum vatnsskorti í náinni framtíð. Verið er að þróa margs konar tækni til að bregðast við þeim vatnsskorti sem allar líkur eru á að verði í framtíðinni. Klósett sem nota lítið eða ekkert vatn; vindmyllur sem vinna vatn úr loftinu; þvottavélar sem eru sparar á vatn; tæki sem vinna ferskvatn úr sjó og áfram mætti telja.

Spiegel bendir á miklar hækkanir hlutafjár í fyrirtækjum sem þessum, sem gera ráð fyrir vaxandi verðmæti vatns. Bréf í franska fyrirtækinu Veolia hafi hækkað um 64% í verði á síðustu tólf mánuðum. 15 fjárfestingarsjóðir, sem einbeita sér að fjárfestingum tengdum vatni, skiluðu allt að tuttugu og tveggja prósenta ávöxtun, síðustu þrjú ár.

Deilt um einkavæðingu vatns

Valdamiklir menn í viðskiptalífi heimsins, eins og stjórnarformaður Nestlé, hafa talað fyrir auknum eignarrétti á vatni. Þá bendir Spiegel á að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi gert það að skilyrði fyrir lánveitingum að fyrirtæki í ríkiseigu – þar á meðal vatnsveitufyrirtæki – verði einkavædd. Í sumar var þess krafist að Grikkir einkavæddu mikið af eignum ríkisins. Þar á meðal vatnsveitur.

Einkavæðing vatnsveitna er þó afar umdeild. Í mörgum þýskum borgum hafa yfirvöld verið að hverfa frá samningum sem gerðir voru um einkarekstur á vatnsveitum. Hvergi hefur harkan þó verið jafn mikil og í Bólivíu, vorið 2000. Stjórnvöld einkavæddu vatnsveitur landsins að kröfu Alþjóðabankans. Í kjölfarið hækkaði verð á neysluvatni margfalt, auk þess sem fólk var krafið um greiðslu, ef það safnaði regnvatni til eigin nota. Óeirðir brutust út, herinn var sendur á vettvang. Fimm mótmælendur féllu fyrir skotum hersins. Hundruð særðust. Loks var einkavæðingin látin ganga til baka.

Fleira áhugavert: