Starfsheitið Pípari – Vatnsvirki bæði þjált/hljómfagurt
Grein/Linkur: Ert þú píparinn? Þvílík örlög
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Janúar 1994
Ert þú píparinn? Þvílík örlög
Líttu í eigin barm, engum er sama hvert er hans starfsheiti. Þau þróast eins og annað, ósjálfrátt eða eftir stýringu. Þróunin hefur fært mér þau örlög að bera starfsheitið „pípari“. Ég hef reynt að malda í móinn og bent á að „pípari“ hafi verið heiti manna á miðöldum, sem léku á einhvers konar flautur, hverrar náttúru var að gefa frá sér svo sérkennileg hljóð að rottur og önnur meindýr hópuðust að „píparanum“ og létu síðan leiða sig eins og lömb til slátrunar. „Píparar“ voru sem sagt meindýraeyðar síns tíma. Það er ekki mitt verksvið.
Hvernig verða starfsheiti til?
Enginn er ég málfræðingur en ætla þó að rifja upp hvernig nokkur starfsheiti iðnaðarmanna hafa myndast.
Í okkar máli, eins og eflaust víðar, er starfsheitið nafnorð dregið af sögn. Oftast tekst þetta vel, í einstaka tilfelli miður. Málari og múrari eru fyrir löngu búin að öðlast þegnrétt, enda hljóma þau vel. Starfsheitin dregin af sögnum; málarinn málar og múrarinn múrar. Smiðirnir smíða hvort sem er í tré, járn eða blikk.
Hver hefur ekki tekið þátt í umræðunni um virkjun fallvatna eða virkjun jarðvarma. En það er hægt að virkja í smærri stíl hvort sem það er rafkerfi húss eða vél í skipi. Þar af koma orðin rafvirki og vélvirki.
Nýyrðasmiðum fatast flugið
Síðan fer að halla undan fæti; þessi gullvæga regla að draga starfsheitið af sögninni virðist ekki vera nógu góð eða fín. Þá koma til sögunnar langlokurnar; starfsheiti sem enda á „maður“. þau eru orðin þó nokkuð mörg, alltof mörg.
Þá verður til orðið „pípulagningamaður“, orð sem er hvorki meira né minna en sjö atkvæði! Fleiri stéttir fara sömu leið. Þjónslund Íslendinga, þessa konungakyns, hefur alltaf verið í lágmarki. Þess vegna er ekki nógu fínt að vera þjónn (eitt atkvæði) heldur er búið til orðið „framreiðslumaður“ (sex atkvæði og verður yfirleitt á prenti „framleiðslumaður“)
Eru ekki flestir mér sammála um að hin stuttu, snjöllu starfsheiti, dregin af sögnum, séu fallegri og þjálli?
Hvað er ég þá að kvarta yfir orðinu „pípari“. Er það ekki myndað af sögn, aðeins tvö atkvæði? Vissulega rétt.
En það er forljótt og á sér ekki rætur í iðninni þó ótrúlegt sé.
Þróunin í germönskum málum
Orðið „pípa“ er komið úr ensku. En í þýsku, norrænum málum, þar með talin finnska, og fleiri Evrópumálum er það nánast ekki til. Þar tala menn um „rör“ og af því draga þeir sín starfsheiti. Hér á landi hefur þetta orð unnið sér þegnrétt. Við tölum ætíð um stálrör, plaströr eða eirrör.
Hvers vegna að velja orðið „pípulagningamaður“ að ég nú ekki tali um „pípari“ að starfsheiti?
Er það snobb eins og hjá Skandinövum þegar þeir skríða fyrir enskunni og nefna fyrirtæki sín „Pipe Trading AB“ eða eitthvað í þá áttina, þó að orðið „pípa“ sé ekki til í þeirra málum?
Stríðsyfirlýsing
Ég lýsi yfir stríði á hendur þessu orðskrípi „pípari“. Svo vel vill til að fyrir fjörutíu árum ákvað stéttin að skipta um starfsheiti og valdi, í stað orðsins „pípulagningamaður“, þjált og hljómfagurt orð sem er aðeins þrjú atkvæði: Vatnsvirki
Það er til verslun í Reykjavík sem ber þetta nafn. Það er einnig til félag sem heitir Félag vatnsvirkja og hefur eitthvað átt í brasi með að koma gömlum ágóða til sinna félaga, án þess að skatturinn hirði obbann af honum, en það er nú önnur saga.
En nafnbreytingin náði ekki fótfestu, mín kynslóð, „uppmælingakynslóðin“, mátti ekki vera að því að hugsa um slíka smámuni.
Ég skora hér með á alla mína stéttarbræður að standa að þessari nafnbreytingu svo að hún nái fótfestu. Það þarf einnig að hreinsa til í flóru hins opinbera til að þetta nái fram að ganga.
Stéttir hafa breytt um starfsheiti fyrr. Og ef við fáum fjölmiðla í lið með okkur er málið auðsótt. Ef fjölmiðlamenn taka jafnmiklu ástfóstri við orðið „vatnsvirki“ og orðið „strætisvagnabílstjóri“ þá er sigurinn vís.
Eitt hef ég þó aldrei skilið:
Hvar eru allir þessir „strætisvagnabílar“ sem mennirnir aka?
Kemur þetta lagnamálum við?
Tungan kemur okkur öllum við. Hverri einustu stétt eða starfshópi kemur hún við. Hvernig við notum hana til að tjá okkur hvert við annað um hugtök og efni.
Látum Einar Ben. eiga síðustu orðin að sinni:
Fegurra mál á ei veröldin víð,
né varðveitt betur á raunanna tíð;
og þrátt fyrir tízkur og lenzkur og lýskur
það lifa skal ómengað fyrr og síð.
Án þess týnast einkenni og þjóðerni mannsins,
án þess glatast metnaður landsins.