Vestmannaeyjar, orkumál – Í ólestri

Grein/Linkur:  Segir orkumálin í ólestri

Höfundur: Eyjar.net

Heimild: 

.

.

Janúar 2024

Segir orkumálin í ólestri

Jóhann Friðrik Friðriksson

Þingmaður okkar Eyjamanna, Framsóknarmaðurinn Jóhann Friðrik Friðriksson stendur í stafni orkufyrirtækisins HS Veitna, sem ítrekað hefur hækkað gjaldskránna á Vestmannaeyinga. Þar er Jóhann stjórnarformaður.

Eigið fé HS Veitna var samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2022 rúmir 15 milljarðar. Ritstjóri Eyjar.net ræddi við Jóhann Friðrik um fyrirtækið og þær hækkanir á verðskrá fyrirtækisns á íbúa í Eyjum.

Keypt eigin bréf af eigendum sínum

Hver var hagnaður HS Veitna í fyrra?

Ársreikningur 2023 liggur ekki fyrir en hagnaður HS Veitna 2022 var 860 m.kr. Þess má geta að á sama tíma var tap af hitaveiturekstri í Vestmannaeyjum 133 m.kr.

Hvað hefur fyrirtækið greitt út mikinn arð sl. 5 ár til eigenda sinna?

Fyrirtækið hefur ekki greitt út arð sl. 5 ár til eigenda sinna hins vegar hefur fyrirtækið keypt eigin bréf af eigendum sínum, sem keypt eru á innra virði fyrirtækisins hverju sinni fyrir 3.8 mil.kr. á tímabilinu.

Aðeins fækkað um 1 stöðugildi í Eyjum

Hvað eru mörg stöðugildi hjá HS Veitum í Eyjum í dag?

Í dag eru stöðugildin hjá fyrirtækinu 94 og þar af 10 stöðugildi í Vestmannaeyjum.

Hversu mörg voru þau fyrir 5 árum?

Árið 2019 voru stöðugildin í Vestmannaeyjum 11 samkvæmt mínum upplýsingum.

Almenn afgreiðsla og þjónusta færst yfir í netþjónustu og miðlægt símaver

Nú er búið að loka skrifstofunum í Eyjum, stendur til að skerða þjónustuna enn frekar?

Ég veit ekki til þess að skrifstofu HS Veitna í Eyjum hafi verið lokað og er enn full starfsemi að Tangagötu 1 og geta þeir viðskiptavinir sem þurfa á sértækri þjónustu leitað þangað í samráði við starfsfólk í Eyjum. Almenn afgreiðsla og þjónusta við viðskiptavini hefur hins vegar færst yfir í netþjónustu og miðlægt símaver, enda þróunin sú að flestir kjósa að fá þjónustu frá sínu heimili eða vinnustað í stað þess að gera sér ferð á skrifstofur HS Veitna.

Rekstur vatnsveitunnar og hitaveitunnar í Eyjum mun hærri en á öðrum veitusvæðum

Nú er gríðarlegur verðmunur á milli svæða HS Veitna – finnst þér það eðlilegt? Af hverju hækkar taxtinn ekki jafnt á öll svæði fyrirtækisins?

Taxtinn á hverju svæði þarf að endurspegla kostnaðinn við að veita þjónustuna.

Kostnaður við rekstur vatnsveitunnar og hitaveitunnar í Vestmannaeyjum er mun hærri en á öðrum veitusvæðum HS Veitna.  Neysluvatn kemur frá landi til Vestmannaeyja um neðansjávarlögn sem er í eigu Vestmannaeyjabæjar og HS Veitur hafa greitt afnot fyrir. Á síðasta ári varð lögnin fyrir skemmdum og hafa HS Veitur lagt tugi milljónum króna í að treysta lögnina til þess að vatn flæði áfram til Eyja. Í tilfelli hitaveitunnar er kalt vatn hitað upp með rafmagni, eða olíu þegar rafmagn berst ekki eins og íbúar Vestmanneyja þekkja. Slíkt er mun dýrara en að kynda hús með jarðvarma eins og gert er á öðrum svæðum.  Auk þess varð bilun í rafstreng Landsnets um 6 mánaða skeið til þess að knýja þurfti hitaveituna með olíu, sem orsakaði mikinn halla á rekstri hitaveitunnar á síðasta ári.

Á sama tíma og dregið er úr þjónustu í Eyjum – þá er gjaldskráin hækkuð um tugi prósenta. Finnst þér það eðlilegt, í umhverfi þar sem kúnnarnir geta ekki snúið sér annað í viðskipti?

HS Veitur hafa haldið uppi eins góðu þjónustustigi í Vestmannaeyjum eins og kostur er í ljósi aðstæðna og þessar nauðsynlegur aðgerðir hafa miðað af því tryggja rekstrargrundvöll hitaveitunnar. Samkvæmt lögum er HS Veitum óheimilt að niðurgreiða vatn til notenda úr annarri starfsemi fyrirtækisins.

Varmadælustöðin var þróunarverkefni

Er ekki eðlilegra að mæla orkuna í kcal í stað m3?

HS Veitur stefna að því að byggja gjaldskrá í Vestmannaeyjum á orkumælingu í stað rúmmetramælingar.  Sú gjaldskrá er í þróun og er stefnt að því hún verði innleidd fyrir lok árs.

Hver er ástæða þess að varmadælustöðin skilar ekki þeim árangri sem kynnt var í upphafi ?

Varmadælustöðin var þróunarverkefni en hún hefur sannað gildi sitt hvað varðar  orkusparnað.  Það hefur verið mikill árangur af því enda án hennar þyrfti að kaupa mun meiri orku, rafmagn eða olíu, til að framleiða heitt vatn í Vestmannaeyjum.  Fjárfestingin var hins vegar mikil og því miður hefur varmadælustöðin ekki enn skilað þeim afköstum sem seljandi búnaðarins hafði lofað. Enn er þó unnið að úrbótum.

Tíðar bilanir valdið auknum kostnaði

Er hún dýrari í rekstri en vonir stóðu til?

Það er rétt að varmadælustöðin hefur reynst dýrari í rekstri en vonir stóðu til.  Um var að ræða dýra fjárfestingu sem varð til þess að afskriftir og fjármagnsliðir vegna hitaveitu í Vestmannaeyjum hækkuðu með tilkomu hennar. Einnig hefur raforkuverð hækkað umtalsvert frá því að varmadælustöðin var gangsett sem aftur íþyngir rekstri varmadælustöðvarinnar, þó orkusparnaðurinn sem stöðin skilar vegi þar talsvert upp á móti. Þá hafa tíðar bilanir valdið auknum kostnaði og aukinni raforkunotkun meðan á þeim stendur.

Var hún kannski mistök þegar öllu er á botninn hvolft ?

HS Veitur hefðu vissulega viljað sjá rekstur hennar ganga betur en vonir eru bundnar við að búið sé að greina alla helstu veikleika í stöðinni og betur muni ganga að reka hana í komandi framtíð ,með tilheyrandi orkusparnaði fyrir hitaveituna í Vestmannaeyjum. Miðað við ört hækkandi orkuverð og orkuskort í landinu ætti sá orkusparnaður sem varmadælustöðin skilar á endanum að skila sér í lægra verði til notenda en ef hennar nyti ekki við.

Er á þeirri skoðun að Alþingi þurfi að bæta lagaumgjörð um fjarvarmaveitur

Hver er ávöxtunarkrafa fyrirtækis eins og HS Veitna?

Ekki er til einhlítt svar við þeirri spurningu en stjórnvöld hafa eftirlit með rekstri veitufyrirtækja til að gæta þess að hann sé í samræmi við þau lög og reglur sem um hann gilda.

Hvað getur þú sem þingmaður Vestmannaeyinga gert til þess að Eyjamenn búi við sömu eða svipuð kjör og aðrir viðskiptavinir HS veitna?

Orkukostnaður íbúa er misjafn um landið og skera köld svæði sig úr hvað það varðar. Mikilvægast í mínum huga er að tryggja það að rekstrargrundvöllur sé til staðar og hann verður það einvörðungu með aðkoma bæjaryfirvalda og stjórnvalda. Að öðrum kosti rofnar viðskipasambandið á milli veitufyrirtækisins og íbúa ef kostnaðurinn er kominn langt yfir það sem eðlilegt getur talist. Ég mun beita mér í þeirri vinnu eftir fremsta megni.

Hvað viltu gera sem þingmaður til að jafna kyndingarkostnað á svokölluðum köldum svæðum (eins og Vestmannaeyjum)?

Ég er á þeirri skoðun að Alþingi þurfi að bæta lagaumgjörð um fjarvarmaveitur á Íslandi sem allra fyrst. Orkumálin eru í ólestri og úr því verður að bæta.

Er þingmaðurinn sammála því að fyrirtæki eins og HS veitur eigi að vera í eigu fjárfesta sem hugsa fyrst og fremst um eigin hag – en ekki almenna hagsmuni eins og gert væri ef HS veitur væru í opinberri eigu?

Ég sé ekki augljósa vankanta á því að fjárfestar eins og lífeyrissjóðir eigi hlut í veitufyrirtækjum. Í lögum segir að veitufyrirtæki skuli vera í meirihluta eigu opinberra aðila og þannig er því fyrir komið hjá HS veitum þar sem Reykjanesbær á yfir 50% hlut, segir Jóhann Friðrik Friðriksson.

Fleira áhugavert: