Vestmannaeyjar, neysluvatn – 468% dýrara

Grein/Linkur: Kalda vatnið 468% dýrara í Eyjum

Höfundur: Eyjar.net

Heimild: 

.

Það er margfalt dýrara að fá sér vatn úr krananum í Eyjum en á Suðurnesjum – hjá sama fyrirtæki. Ljósmynd/Heimaslóð

.

Mars 2024

Kalda vatnið 468% dýrara í Eyjum

HS Veitur neita að svara spurningum Eyjar.net : Milljarða endurmat og ógagnsæi

Illa rökstuddar hækkanir HS Veitna hafa dunið á Vestmannaeyingum undanfarna mánuði. Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa orkumálin er þingmaður okkar, Jóhann Friðrik Friðriksson. Þess ber að geta að hann var stjórnarformaður HS Veitna fram á síðasta miðvikudag og dundu því þessar hækkanir á Eyjamönnum á hans vakt.

Í lok janúar sagði hann í viðtali við Eyjar.net að hann væri á þeirri skoðun að Alþingi þurfi að bæta lagaumgjörð um fjarvarmaveitur á Íslandi sem allra fyrst. „Orkumálin eru í ólestri og úr því verður að bæta.“

Ekkert bólar þó enn á frumvarpi þess efnis frá þingmanninum, né heldur frá nokkrum þingmanni og er langt liðið á þingveturinn. Málið er brýnt þar sem fyrirtæki sem þessi hafa oftar en ekki einokunaraðstöðu. Í þessari umfjöllun verður reynt að gera því skil sem hægt er upp úr þeim gögnum sem fyrir liggja, sem eru því miður takmörkuð.

Milljarða endurmat hækkar gjaldskrá

Fjármálasvið HS Veitna framkvæmir árlega endurmat á rekstrarfjármunum fyrir ársreikning félagsins. Þannig nam endurmat rekstrarfjármuna ársins 2022 1,6 milljörðum króna, en rekstrarfjármunir er búnaður á borð við kerfi fyrir rafveitu, hitaveitu og kalda vatnið.

Samkvæmt lögum má rekstur veitufyrirtækja gefa tiltekna ávöxtun á það fjármagn sem lagt er í starfsemina og er því mjög líklegt að hækkað endurmat rekstrarfjármuna hækki jafnframt gjaldskrá félagsins. Eyjar.net spurðu HS Veitur sérstaklega hvort endurmat rekstrarfjármuna myndi leiða til breytinga á gjaldskrá en félagið neitaði að svara spurningu blaðamanns.

Var vatnslögnin hækkuð í bókum HS Veitna?

Samkvæmt heimildum Eyjar.net var vatnslögnin milli lands og eyja eignfærð hjá HS Veitum óeðlilega mikið í bókum félagsins, eða um þá fjárhæð sem nam styrk ríkisins fyrir vatnslögninni á sínum tíma. Í viðleitni Eyjar.net að sannreyna það voru forsvarsmenn HS Veitna einnig spurðir út í stofnfjárvirði lagnarinnar en félagið neitaði einnig að svara þeirri spurningu.

Hafi vatnslögnin verið hækkuð í bókum félagsins geta HS Veitur krafið bæjarbúa um hærra notkunargjald fyrir kalda vatnið.

468% hærra verð fyrir kalda vatnið í Eyjum

Eitt það sem er þó gagnsætt hjá félaginu eru gjaldskrárnar. Við samanburð á verði notkunargjalds fyrir kalt vatn kemur í ljós að 468% verðmunur er á milli Suðurnesja og Vestmannaeyja, þannig greiða heimili á Suðurnesjum 25 kr. fyrir hvern rúmmetra af köldu vatni en heimili í Vestmannaeyjum greiða 142 kr.

Umtalsverður munur er á notkunargjaldi á köldu vatni á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum. Hversu mikið endurmat vatnslagnarinnar veldur er ósvarað.

kalt_vatn_verd_24

Lítið gagnsæi og ekkert aðhald í rekstri

Á heimasíðu HS Veitna er ekki að finna rekstrar- og efnahagsreikning fyrir einstaka veitur og skortir því töluvert á gagnsæi hjá félaginu. Nauðsynlegt er að birta slík gögn þannig að bæjarbúar geti sýnt félaginu aðhald og gagnrýnt rekstur HS veitna sem byggir á einkarétti sem það hefur frá íslenska ríkinu. Mikilvægt er að Alþingi tryggi það með lögum að slík sundurliðun verði öllum ljós.

Allur aukinn rekstrarkostnaður sem fellur til í starfsemi veitukerfisins geta HS Veitur fengið til baka sjálfkrafa þar sem einkaréttur þeirra heimilar þeim að hækka gjaldskrá í framhaldinu.

„Gögn sem við munum ekki vinna eða afhenda til fréttamiðla“

Af ofan töldu má telja ljóst að brotalamir séu á regluverki og lagasetningu orkufyrirtækja í landinu og alveg ljóst að gera þarf lagabreytingar svo gagnsæið nái beint til notenda.

Ritstjórn Eyjar.net óskaði í vikunni eftir gögnum frá fyrirtækinu auk þess á fá svör við ákveðnum spurningum er varðar reksturinn.

Fá rekstrarreikning og efnahagsreikning fyrir annars vegar hitaveituna og hins vegar fyrir kalda vatnið hér í Eyjum síðustu 10 ár með skýringum.

Sérstaklega skýringu varðandi niðurbrot á bókfærðu verði rekstrarfjármuna og endurmati rekstrarfjármuna.

Hvert er endurmetið stofnmat vatnslagnarinnar í Eyjum í árslok 2022 og var vatnslögnin endurmetin fyrir ársreikning 2023.

Leiðir endurmat rekstrarfjármuna (eins og sjá má í ársreikningi HS Veitna) til breytinga á verðskrá til notenda?

Ofangreind ósk var send á lögfræðing fyrirtækisins. Í svari sem barst segir orðrétt:

„Þetta eru gögn sem við munum ekki vinna eða afhenda til fréttamiðla. Eins og kunnugt er hafa HS Veitur tilkynnt Vestmannaeyjabæ að forsendur fyrir rekstri vatnsveitunnar í Vestmannaeyjum séu brostnar og því sé nauðsynlegt að bærinn leysi veituna til sín. Þess er vænst að viðræður um yfirtökuáætlun geti hafist fljótlega.

Varðandi hitaveituna er ljóst að hún hefur verið rekin með miklu tapi í langan tíma sem hefur leitt til þess að endurskoða hefur þurft reksturinn og þar með gjaldskrá hennar. Áskorunum hér að lútandi er einmitt lýst nokkuð ítarlega í áður nefndri umsögn okkar til Alþingis. Um framangreind málefni hafa eyjar.net einmitt flutt ýtarlegar fréttir.

Hafa verður hugfast að HS Veitur eru í meirihluta eigu sveitarfélagsins Reykjanesbæjar. Það eru alvarleg tíðindi að gagnsæið sé ekki meira þegar kemur að fyrirtæki sem hefur slíka einokun.

Óásættanlegt

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri segir í samtali við Eyjar.net að hún hafi miklar áhyggjur af þessu máli enda ekki hægt fyrir íbúa í Vestmannaeyjum að búa við þennan gríðarlega háa kostnað.

„Höfum við komið því á fram færi að þetta sé óásættanlegt bæði við ríkið og við HS-veitur. Það þarf að breyta kerfinu en það þarf líka að upplýsa.  Ég hef bent forsvarsmönnum HS Veitna á að halda íbúafund í Eyjum og svara þeim spurningum sem á íbúum brenna. Því vil ég nota þennan vettvang til að ítreka þá ósk.“

Fleira áhugavert: