Sorpkvörn – Hvað um frárennsliskerfið

Grein/Linkur:  Sorpkvörn: bannvara eða þarfaþing?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:

.

Janúar 1995

Sorpkvörn: bannvara eða þarfaþing?

Meðan fjölmörg lönd hafa notað sorpkvarnir í fjölda mörg ár með góðum árangri er hún nánast fordæmd hérlendis. Þar förum við að dæmi skandinava, en hirðum ekki um langa og góða reynslu Bandaríkjamanna.

Sú var tíðin að sorpkvarnir voru notaðar hérlendis, aðallega í heldrimannahúsum. Líklegt má telja að engin sé í notkun nú, en vissulega væri fróðlegt að frétta ef einhverjar finnast.

Hvað er sorpkvörn?

Lítið rafdrifið tæki, sem sett er neðan á eldhúsvask á sama stað og vatnslás er venjulega. Hann kemur á frárennslisrörið eftir kvörnina. Hún tekur lítið rými, er um 35 cm að hæð.

En hvert er hlutverk tækisins og hvað getur það gert? Í sorpkvörnina er látinn allur matarúrgangur hvaða nafni sem hann nefnist, fugla- og fiskbein, kaffikorgur, pappír, visnuð blóm o.fl. þvílíkt. Í hana má ekki setja bein úr hóf- eða klaufdýrum, málma, gler, postulín, keramik, snæri, tau, bleiur eða dömubindi. Af þessari upptalningu má sjá að með notkun sorpkvarnar fer ósjálfrátt fram flokkun á sorpi.

En hvað verður um það sem í er látið?

Sorpkvörnin malar allt sem í hana er látið. Meðan á mölun stendur er nauðsynlegt að láta vatn renna í hana. Víða erlendis hamlar vatnsrennslið notkun hennar öðru fremur; vatnið er þar einfaldlega of dýrt eða af skornum skammti til að slíkt sé mögulegt. Eftir því sem mölunin gengur blandast efnið vatninu og rennur síðan út í frárennslið.

Þannig er í stuttu máli vinnslumáti sorpkvarnar.

Hvað um frárennsliskerfið?

Þar sem sorpkvarnir eru notaðar hefur frárennsliskerfið ekki verið vandamál, fremur hefur það verið í hreinsistöðvum. Hagkvæmast er að kvarnir séu í öllum húsum þar sem þær eru notaðar á annað borð. Hins vegar vakna ýmsar spurningar t.d. hvort ekki sé nauðsynlegt að taka almenna notkun með í reikninginn strax á hönnunarstigi frárennsliskerfis. Svo hlýtur að vera vegna aukins magns sem um kerfið fer. Við erum svo lánsöm hérlendis að á köldu vatni er ekki skortur, í það minnsta ekki vatni sem getur blandast sorpi í kvörn. Hreinleiki þess þarf ekki að vera mikill.

Engin frekari slysahætta er af sorpkvörn en öðrum raftækjum. Í henni eru engir hnífar, hún malar það sem í hana er látið með því að nýta miðflóttaaflið, sama lögmál og notað er í þvottavélinni til að vinda þvottinn. Sorpkvörnin snýst með miklum hraða og við það kastast sorpið af mölunarhausnum út til hliðanna, sem eru grófar og mala allt sem á þeim lendir.

Ný hugsun nauðsynleg

Er ekki sorpkvörnin eitthvað fyrir okkur hérlendis til að skoða nánar? Ekki nokkur vafi, en það verður tæpast gert; til þess erum við of föst í viðjum vanans.

Um allt land eru menn emjandi út af sorpvandamálum, hvergi hefur verið minnst á sorpkvörnina sem einn lið í lausninni. Stórum fjárhæðum er varið til að „farga“ sorpi, það er ýmist grafið eða brennt. Sorpbrennslustöðvar eru reistar og ekki einu sinni hirt um að nýta þá orku sem þar myndast.

Það þarf að brjótast út úr viðjum vanans, það þarf nýja hugsun.

Við verðum að hætta að hugsa um sorp sem vandamál, hugsum um sorp sem gæði.

Því það er það. Gæði sem við eigum að nýta okkur og skila aftur til náttúrunnar.

Hvers vegna ekki að hanna frárennsliskerfi í eitt lítið hverfi, þar sem sorpkvörn yrði í hverju eldhúsi. Söfnum frárennslinu í steypta tanka, ökum því á tankbílum til nærliggjandi uppgræðslusvæða. Þau eru alls staðar í grennd við þéttbýli. Er þetta ekki lausnin í þorpum á landsbyggðinni, ekki síst þeim landluktu?

Þetta verður alltof dýrt segja dragbítarnir. Hversvegna?

Hvað mun þetta spara í sorphirðu má spyrja á móti. Sorpkvörn á hvert heimili, hvað mun það kosta spyr annar.

Það er lóðið. Sorpkvörnin kostar ekki meira en vönduð sjálfvirk kaffikanna. Hún þarf ekkert sérstakt rými, hún fær rými vatnslássins.

Við losnum við illa þefjandi ruslafötuna undir vaskinum. Matarleifarnar sem lyktinni ollu fara jafnharðan niður um sorpkvörnina.

Nú má heyra glamur. Margir hrista höfuðið.

Fleira áhugavert: