Vatnstjón, bilanir – Kostnaður á ári, sagan

Grein/Linkur:    Svört skýrsla

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Október 1994

Svört skýrsla

Hvað kosta vatnstjón og bilaðar lagnir á ári? Er um stórar fjárhæðir að ræða?

Á grundvelli vel unninnar skýrslu, þar sem skráð eru 100 vatns- og lagnatjón, hefur þetta verið áætlað. Skýrslan var unnin af Rannsóknarstofnun byggingaiðnaðarins með tilstyrk tryggingafélaga, en hjá þeim eiga að vera mikilvægar upplýsingar um tjónabætur vegna vatnsskaða.

Árlega er talið að vatnsskaðar í byggingum nemi í krónum talið 1 milljarði eða 1.000 milljónum. Af því greiða tryggingafélögin 600 milljónir en húseigendur 400 milljónir.

Eru allir þessir vatnsskaðar óumflýjanlegt náttúrulögmál eða er hægt að koma í veg fyrir stóran hluta þeirra? Hver er orsökin?

Margt hægt að bæta

Orsakirnar eru margvíslegar og er réttast að vitna orðrétt í skýrsluna:

„Algengustu bilanirnar eru þær að lagnir tærast í sundur vegna raka í umhverfinu og fara að leka og valda þannig vatnstjóni. Hin raunverulega orsök vatnstjóns er því oftar en ekki raki í umhverfinu, sem annaðhvort er utanaðkomandi eða rekja má beint eða óbeint til lagnakerfisins t.d. lek þétting milli baðkers og veggjar eða lek þétting undir glugga.“

Lagnir tærast í langflestum tilfellum vegna utanaðkomandi raka eða vatnságangs og vegna þeirrar áráttu okkar, að allar lagnir verði að hylja inni í veggjum. Það verður ekki aðeins skaði á lögnum heldur einnig umhverfi þeirra t.d. einangrun. Vegna þess að lagnir eru huldar uppgötvast lekinn oft ekki fyrr en mikill skaði er skeður á lögnum og heilum byggingahlutum.

Baðherbergið er „veiki“ punkturinn ekki síst baðkerið. Sá íslenski ósiður, að múra inn baðker, er búinn að kosta íslenska húseigendur, tryggingafélög og þjóðarbúið í heild ómældar fjárfúlgur og er nú mál að linni.

Utanaðkomandi vatn, sem kemur gegnum sprungur í steinsteyptum veggjum, inn með gluggum og ekki síst svalahurðum, er oftar en ekki sökudólgur. Sú spurning hlýtur að verða áleitin hvort steynsteypan verður ekki í öllum tilfellum að fá hlífðarkápu til að standast íslenska veðráttu.

Lagnir í gólfraufum, sem mikið voru tíðkaðar fyrir um tveimur áratugum, hafa þegar valdið miklum skaða og eiga eftir að gera. Sá lagnamáti þekkist vart lengur og er það vel.

Í hlekkjum hugarfarsins

Það er ekki síður athyglisvert að skoða hvað í mjög fáum tilfellum veldur vatnsskaða. Innri tæring lagna er fátíð, Það er í flestum tilfellum vatn sem tærir lagnir að utan. Efnisgallar í lögnum virðast ekki heldur vera algengir, en nokkuð er um að lagnaefni sé ekki notað á réttan hátt og á það einkum við eir- og plastlagnir.

Helsti orsakavaldurinn er „hlekkir hugarfarsins“ Það á ekki síst við um hönnuði og raunar alla sem að húsbyggingum koma. Aftur og aftur eru hús og lagnakerfi hönnuð á sama hátt þó allir viti að lausnirnar duga ekki og eiga eftir að valda miklum fjárútlátum síðarmeir.

Þessa dagana er verið að gera sömu mistökin í langflestum nýbyggingum hérlendis og kostar okkur 1.000 milljónir á ári vegna fyrri verka.

Hvenær ætlar Þyrnirós að vakna?

Fleira áhugavert: