Heitt vatn – Erfitt að anna eftirspurn
Grein/Linkur: Verður erfitt að anna eftirspurn eftir heitu vatni
Höfundur: Elsa María Guðlaugs Drífudóttir RUV
.
.
Maí 2023
Verður erfitt að anna eftirspurn eftir heitu vatni
Meirihluti íslenskra hitaveitna sjá fram á að erfitt verði að anna aukinni eftirspurn eftir heitu vatni í komandi framtíð. Þegar hefur borið á vandræðum vegna álags á veitukerfi þegar kalt er í veðri. Umhverfisráðherra segir verk að vinna
Meirihluti hitaveitna í landinu sjá fram á að erfitt verði að anna aukinni eftirspurn í komandi framtíð. Þörf er á að stjórnvöld styðji við að efla hitaveitur landsins að mati sérfræðings íslenskra orkurannsókna.
Skýrslan var unnin að beiðni umhverfisráðherra og málar dökka mynd af stöðu hitaveitu í landinu. Vandamál hafa komið upp síðustu tvo vetur vegna álags á veitukerfin.
„Selfossveitur hafa kannski verið svona einna skýrastar, eða komið kannski mest fram, og þeir hafa þurft bæði í vetur og fyrravetur að loka sundlaugum og jafnvel draga niður hita í skólum þegar jólafrí eru í gangi og slíkt,“ rifjar Auður Agla Óladóttir upp. Hún er jarðfræðingur hjá ÍSOR og einn skýrsluhöfunda.
Meirihluti hitaveitna sjá fram á vandræði
63 hitaveitur voru skoðaðar í úttektinni.Tveir þriðju þeirra sjá fram á aukna eftirspurn og að það verði vandamál að mæta henni. Að minnsta kosti átta hitaveitur sjá fram á að eftirspurn aukist um fimmtíu til hundrað prósent. Fimmtán sjá fram á að eftirspurn tvöfaldist. Það er meðal annars rakið til íbúaþróunar, en líka aukinnar ferðaþjónustu og uppbyggingar í iðnaði.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, segir að gripið verði til aðgerða.
„Það er verk að vinna og það er mjög gott að fá þessa skýrslu sem grunn að ákvörðunum sem við munum taka á næstu mánuðum og misserum.“
Helstu hindranirnar sem hitaveitur kljást við eru aðgengi að fjármagni, sérfræðiþekkingu og tækjum.
„Það er ekki eins og veiturnar hafa ekki verið að gera neitt síðustu tvo áratugi, þær hafa verið að stuðla að rannsóknum og borunum og slíku. En þær hafa ekki bolmagn og þar þurfa stjórnvöld að stíga inn og styðja við.“