Rennslisstilling – Hitakerfið þarf að stilla

Grein/Linkur:  Stilla þarf hitakerfið eins og vélina í bílnum

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Nóvember 1994

Stilla þarf hitakerfið eins og vélina í bílnum

Það er ekki nóg að stilla hitakerfi íbúðar í upphafi, því ýmislegt fer úrskeiðis í tímanna rás. Fólk þarf að huga að endurstillingu ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti til að spara hitakostnað.

EGAR vetur gengur í garð kemur margt í ljós sem betur mætti fara. Ýmislegt sem betur hefði verið kippt í liðinn fyrr. Hálkan komin og vetrardekkin inni í geymslu. Bíllinn tregur í gang á morgnana. Hvað veldur?

Þegar þú kaupir nýjan bíl er vélin að sjálfsögðu hárfínt stillt. Þarf þá nokkuð að stilla hana framar? Já, nákvæmnin minnkar eftir því sem kílómetrunum fjölgar. Engin stilling varir að eilífu.

Hitakerfið þarf líka að stilla

Flestir gera sér ljóst að vanstillt vél í bíl eykur bensíneyðslu. En það eru því miður allt of margir sem gera sér ekki grein fyrir að nákvæmlega sama gildir um hitakerfi; vanstillt kerfi nýtir heita vatnið verr en vel stillt kerfi. Oft er um umtalsverða umframeyðslu að ræða og þó heita vatnið á höfuðborgarsvæðinu teljist ódýr orka, er engin ástæða til að kaupa meira af því en nauðsyn krefur.

Við kaup á nýjum bíl geturðu treyst því að vélin er stillt, vinnur eins og hún á að gera og eyðir ekki meira bensíni en nauðsynlegt er.

Gildir ekki það sama um nýtt hitakerfi? Geturðu ekki treyst því að það sé eins vel stillt og hægt er og notkun heita vatnsins sé í lágmarki?

Betur að svo væri. En því miður; þetta er einn ljótasti bletturinn á störfum lagnamanna, í þessu tilfelli pípulagningamanna. Allt of mörg dæmi eru um það að farið sé frá nýjum kerfum án þess að þau séu stillt. Þó má segja að ástandið fari batnandi, sem betur fer.

En þó hitakerfið sé eins vel stillt í upphafi og kostur er, gildir það sama um það og bílvélina. Við stöðugt rennsli í lengri tíma fer ýmislegt óhjákvæmilega úrskeiðis. Óhreinindi setjast helst að í ventlum með lítilli opnun en lítil opnun á sumum ventlum er óhjákvæmileg, t.d. á litlum ofnum.

Þess vegna þarf að yfirfara kerfið með vissu millibili og endurstilla, nákvæmlega eins og bílvélina.

Hversu oft? Um það gilda engar fastar reglur en segjum þriðja hvert ár, ekki sjaldnar.

Kemur ekki allt af sjálfu sér?

Einhver kann að spyrja; á mínu kerfi eru sjálfvirkir ofnlokar. Sjá þeir ekki umm þetta sjálfvirkt, þarf nokkuð að stilla?

Engin furða að spurt sé. En þitt ágæta hitakerfi með þessum ágætu sjálfvirku ofnlokum þarf einmitt það sem við köllum rennslisstillingu (eða jafnvægisstillingu). Á nákvæmlega sama hátt og vélin í bílnum, þó hún sé vissulega flóknara tæki. Vélin er hönnuð og framleidd af mikilli nákvæmni, en ef henni er síðan hrækt einhvernveginn saman gengur hún aldrei þannig að bíllinn hreyfist. Í besta falli höktir hann nokkra metra eftir götunni, spúandi úr sér kolsvörtum reykjarmekki.

Það er tvennskonar stilling nauðsynleg í sjálfvirka ofnlokanum þínum og í þessu tilfelli er átt við framrásarloka (túrloka), lokann sem er á efri leiðslunni í ofninn. Þú stillir hitanemann, sem sumir kalla hausinn, á ákveðna tölu. Síðan vinnur hann sjálfvirkt, opnar og lokar eftir þörfum. Það er lofthitinn sem stýrir hreyfingum hans, þannig getur hann haldið mjög nákvæmu hitastigi, svo nákvæmu að ekki skeikar meira en hálfri Celsíusgráðu.

En það er önnur stilling, sem er ekki síður mikilvæg. Það er rennslisstilling, stilling á því hve mikið vatn getur runnið inn í ofninn. Það liggur í augum uppi að litli ofninn á baðinu þarf miklu minna af vatni en stóri ofninn í stofunni. Allir vita að stóra hellan á eldavélinni þarf miklu meira rafmagn en sú minnsta. Við hitum ekki smálögg af mjólk í minnsta pottinum á stærstu hellunni. Hvers vegna ekki?

Vegna þess að þá erum við að sóa rafmagni. Þá þurfum við að greiða hærri rafmagnsreikning en nauðsynlegt er.

Það er eins með ofnana; það á ekki að renna meira vatn inn á ofninn en hann ræður við að kæla. Með öðrum orðum sagt; ekki meira vatn en hann getur nýtt, unnið varmann úr.

Hitaneminn eða hausinn stýrir þessu ekki, hann opnar og lokar eftir breytingu á lofthita og ef rennslisstilling hefur ekki verið gerð, fossar vatnið í gegnum ofninn og rennur allt of heitt út aftur. Rennur út af ofninum áður en við höfum fangað varmann út í herbergið.

Hvernig er rennslisstillt?

Það er gert í lokanum áður er hitaneminn er settur á hann. Það er gert eftir stærð ofnsins og stærð rýmisins sem ofninn á að hita. Það er ekki stilling að stilla einn ofn. Það verður að stilla alla ofna, sem eru á sama kerfi. Það þarf líka að stilla þrýstijafnarann í hitaklefanum. Hans hlutverk er að sjá til þess að þrýstingurinn á innrennsli hitaveitunnar sé hæfilega hærri en þrýstingurinn á útrennslinu. Ef sami þrýstingur er á báðum leiðslum rennur ekkert vatn um kerfið. Ekki frekar en um skurðinn, sem er á jafnsléttu. Þar er vatnið kyrrstætt.

Lækur í fjallshlíð ryðst niður eins og óhemja. Það viljum við ekki í hitakerfinu. Þá verður hávaði og misrennsli getur orðið.

Við viljum stilla þrýstijafnarann þannig að hann minni á ljúfan læk í litlum halla, vatnið liðast áfram áreynslulaust og öruggt.

Hver loki á einnig að vera með réttri rennslisstillingu. Lækurinn heldur áfram sinni jöfnu för í gegnum kerfið. Sama hvort ofninn er stór eða lítill; þegar vatnið hemur út úr honum er það allstaðar sem líkast og lægst, sama hitastig á afrennsli litla ofnsins sem þess stóra.

Það þýðir þægindi og sparnaður.

En rennslisstilling er nákvæmnisverk og þeir sem hana gera verða að kunna til verka.

Fleira áhugavert: