Ofnlokar – Túr og retúrlokar
Grein/Linkur: Misvísandi leiðbeiningar í ókeypis blaði
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Maí 2006
Misvísandi leiðbeiningar í ókeypis blaði
Veturinn hélt okkur í sínum heljargreipum miklu lengur en við erum vön. Hann sveik okkur nánast um vorið því það skall skyndilega á sumar og sól með óvenjulegum hita miðað við árstíma. Það breytist margt þegar þessi einstöku veðrabrigði verða. Laufið á trjánum springur skyndilega út, bletturinn grænkar og garðvinnan, þessi holla hreyfing, byrjar. Það er að segja hjá þeim sem eru svo heppnir að eiga garð. Sumir kæra sig ekki hætis hót um svoleiðis puð, vilja heldur láta hægindastólinn bera áfram þunga sinn.
En það er einnig ýmislegt sem breytist innanhúss, svo sem eins og það að við þurfum ekki að kaupa jafn mikið af heitu vatni til upphitunar, sólin hefur tekið við að talsverðu leyti og það meira að segja hvort sem sést til hennar eða ekki.
Þurfum við að gera einhverjar ráðstafanir á hitakerfum vegna þessara tímamóta?
Í blaði, sem borið er ókeypis í hús, var lítill dálkur þar sem þetta var útlistað. Þar stóð að nú þyrfti að ganga á alla sjálfvirka ofnloka og lækka allar stillingar, það væri komið vor, eða sumar, og þá þyrfti ekki að hita eins mikið og um veturinn. Þetta er að sumu leyti rétt en þó ákaflega misvísandi. Þess vegna verður hér endurtekin vísa sem virðist aldrei of oft kveðin.
Fyrir það fyrsta skulum við rifja það upp að sjálfvirkir ofnlokar eru af tvenns konar gerð, leyfum okkur að nota píparamálið og tala um túr- eða retúrloka. Lokar af þessum tveimur gerðum eru með sitt hvora náttúruna, vonandi tekur enginn þetta orðalag illa upp.
En lítum á hver er munurinn á þessum tveimur gerðum af sjálfvirkum ofnlokum og skoðum fyrst ofnlokann sem var allsráðandi á árum áður, það er retúrlokinn. Þessi loki er í flestum byggingum sem voru byggðar frá 1960 og fram yfir 1980. Þetta er loki sem er ætíð að neðanverðu á ofninum, á rörinu þar sem vatnið fer út úr ofninum eftir að hafa skilað frá sér varmanum sem það flutti inn í ofninn. Retúrlokinn stýrist eftir hita vatnsins og flestir eru þeir af gerðinni Danfoss með tölum á hausnum frá 1 upp í 8.
En hvað þýða þessar tölur?
Ef lokinn er stilltur á 1 má búast við að hann hleypi vatni út úr ofninum þegar það hefur náð að falla niður í 20°, stilltur á 2 fer vatnið út 30° og stilltur á 3 missum við vatnið út 40° heitt. Þarna er viljandi sagt að „missa“ vatnið út svo heitt, þá er verið að sóa varma. Það má líta á vatnið eins og vörubíl með hlass þar sem varminn er hlassið. Þegar vörubíllinn sturtar er auðvitað keppikefli að sem minnst verði eftir af hlassinu á pallinum, þannig mundu allir bregðast við væru þeir að kaupa mold í garðinn. En því miður er ekki öllum ljóst að þeir eru að sóa keyptu vatni með varma með því að hleypa því of heitu út úr ofninum, það verður talsvert eftir af hlassinu og fer burt þó við séum búin að kaupa það.
En á hvað á að stilla retúrloka?
Stilla hann sem lægst, þannig þó að hiti í hýbýlum sé nægur og þægindi íbúanna eins og þeir vilja. Og þarna er ábendingin í ókeypis blaðinu rétt, þessir lokar eiga að vera lægra stilltir á sumrin en á veturna. Margir láta sér nægja að stilla þá á 1-1,5 á sumrin en á 2-2,5 á veturna. Auðvitað miðast þetta við að ofnar séu nægilega stórir, tvöfalt gler í gluggum og húsið vel einangrað.
En hvað þá um allar hinar tölurnar frá 4 upp í 8, á aldrei að stilla á þær?
Svarið er nei, stillið aldrei á þær og ef rétt er frá lokanum gengið ætti ekki að vera hægt að stilla hann á hærri tölu en 3. Sem viðvörun má benda á að ef lokinn er stilltur á 8 hleypir hann vatninu út 70° heitu, eða nánast jafnheitu og það er þegar það streymir inn í ofninn.
En þá að túrlokanum.
Þetta er loki sem er allt annarrar gerðar en retúrlokinn og hefur verið meir og meir notaður á síðari árum. Túrlokar eru nokkurra gerða, frá mismunandi framleiðendum en allir sömu náttúru, þeir stilla ekki eftir hita vatnsins heldur hita loftsins sem er í því rými sem ofninn er í. Þeir eru sem sagt hitastillar eða „termóstöt“ eins og sagt var á slæmu máli áður fyrr. Þessir ventlar eru einnig með innri búnaði sem fagmaður á að stilla. Magnstillingarbúnaði sem skammtar hverjum ofni vatnsmagn eftir stærð.
En nú gildir ekki alfarið ráðleggingin í ókeypis blaðinu, því ef lokinn hefur verið stilltur á 3 í vetur, svo tekið sé dæmi, má hann vera það áfram í sumar. Það er vegna þess að þessi loki er hitastillir. Ef sólin hitar stofuna þá tekur hann tillit til þess, honum er alveg sama hvaðan varminn kemur, hann hagar sér ætíð eftir hitastiginu, hitinn getur einnig hækkað inni vegna mannfjölda eða að mikið er steikt, soðið eða bakað í eldhúsinu, ofnlokinn nemur það og hagar sér samkvæmt því.
Ætíð að muna að túrlokinn er hitastillir, ekki loki til að opna og loka fyrir hitann. Ekki setja hann í botn á lægstu stillingu eða á þá hæstu. Finnið meðalveginn og auðvitað getur það verið sálfræðilegt að við getum og viljum hafa hitastigið innanhúss lægra yfir sumar en vetur þegar vindar og hríðar geysa.
En aldrei stórar eða grófar breytingar á stillingum, alltaf litlar breytingar þangað til jafnvægið er fundið.