Risavaxin gasleiðsla sem ber nafnið Power of Siberia 2 eða „Kraftur Síberíu 2“ er nú á undirbúningsstigi en leiðslan mun sjá um að dreifa rússnesku jarðgasi frá Síberíu til Kína í gríðarlegu magni.
Leiðslan mun geta flutt yfir 50 milljaðra rúmmetra af gasi á hverju ári er hún verður tekin í notkun en búist er við að lagningu hennar ljúki árið 2030. Það samsvarar flutningsgetu NordStream 1 leiðslunnar sem áður sá um flutning á gasi frá Rússlandi til Evrópu. Sú leiðsla hefur verið lokuð síðan 2. september en Rússar skrúfuðu fyrir gasflutninga til Evrópu í kjölfar viðskiptaþvingana gagnvart landinu síðan innrás þeirra í Úkraínu hófst.
Áður hafði staðið til að NordStream 2 gasleiðslan yrði tekin í notkun sem myndi sjá meginlandi Evrópu fyrir samsvarandi magni af gasi og Kraftur Síberíu 2 mun geta flutt. Rússar horfa nú í auknum mæli til Kína og Asíu um sölu á gasi sínu eftir að tengsl Evrópulanda og Rússlands hafa dvínað í kjölfar stríðsins.
Gasleiðslan hefur lengi verið í hugmyndabanka Rússa og á sér fyrirmynd í leiðslu sem nú þegar flytur gas frá Síberíu til Kína og nefnist Kraftur Síberíu 1. Sú gasleiðsla var tekin í notkun árið 2019 en lagning leiðslunnar hefur staðið yfir í átta ár.
Fara í gegnum Mongólíu
Forseti Mongolíu Ukhnaagiin Khurelsukh tók þátt í sameiginlegum fundi með Vladímír Pútín Rússlandsforseta og Xi Jinping, forseta Kína, nú á fimmtudaginn en Khurelsukh hefur lýst yfir stuðningi sínum við uppbyggingu leiðslunnar. „Við styðjum við uppbyggingu olíu- og gasleiðsla sem flytja munu gas frá Rússlandi til Kína en tæknilegar og efnahagslegar aðstæður réttlæta bygginguna að okkar mati,“ sagði forseti Mongólíu á fundinum en þó hafa engar áætlanir um olíuleiðslu verið formlega lagðar fram.
Evrópa brást of seint við
Svo virðist sem efnahagsaðgerðir Evrópulanda og Bandaríkjanna hafi ekki eins mikil áhrif á Rússland og vonast var til. Samdráttur í rússneskum efnahag hefur mælst 4 prósent en Rússar hafa grætt gríðarlega á sölu jarðefnaeldsneytis eftir að verð á orku rauk upp vegna stríðsins.
Heildarverðmæti orkusölu Rússa er talið 93 milljarðar evra á fyrstu hundrað dögum stríðsins samkvæmt Orku- og umhverfisrannsóknarstofnun Finnlands. Sérfræðingar segja að líklegast muni efnahagsaðgerðir vestrænna ríkja því ekki hafa áhrif fyrr en á næsta ári. Á meðan stefni allt í að orkukrísa muni geisa í Evrópu eftir að innflutningur á rússnesku gasi stöðvast.
.