Risa­vaxin gas­leiðsla sem ber nafnið Power of Si­beria 2 eða „Kraftur Síberíu 2“ er nú á undir­búnings­stigi en leiðslan mun sjá um að dreifa rúss­nesku jarð­gasi frá Síberíu til Kína í gríðar­legu magni.

Leiðslan mun geta flutt yfir 50 milljaðra rúm­metra af gasi á hverju ári er hún verður tekin í notkun en búist er við að lagningu hennar ljúki árið 2030. Það sam­svarar flutnings­getu Nord­Stream 1 leiðslunnar sem áður sá um flutning á gasi frá Rúss­landi til Evrópu. Sú leiðsla hefur verið lokuð síðan 2. septem­ber en Rússar skrúfuðu fyrir gas­flutninga til Evrópu í kjöl­far við­skipta­þvingana gagn­vart landinu síðan inn­rás þeirra í Úkraínu hófst.

Áður hafði staðið til að Nor­d­­Stream 2 gas­leiðslan yrði tekin í notkun sem myndi sjá megin­landi Evrópu fyrir sam­svarandi magni af gasi og Kraftur Síberíu 2 mun geta flutt. Rússar horfa nú í auknum mæli til Kína og Asíu um sölu á gasi sínu eftir að tengsl Evrópu­landa og Rúss­lands hafa dvínað í kjöl­far stríðsins.

Gas­leiðslan hefur lengi verið í hug­mynda­banka Rússa og á sér fyrir­mynd í leiðslu sem nú þegar flytur gas frá Síberíu til Kína og nefnist Kraftur Síberíu 1. Sú gas­leiðsla var tekin í notkun árið 2019 en lagning leiðslunnar hefur staðið yfir í átta ár.

Fara í gegnum Mongólíu

For­seti Mong­olíu Uk­hna­agi­in Khurelsukh tók þátt í sam­eigin­legum fundi með Vla­dí­mír Pútín Rúss­lands­for­seta og Xi Jin­ping, for­seta Kína, nú á fimmtu­daginn en Khurelsukh hefur lýst yfir stuðningi sínum við upp­byggingu leiðslunnar. „Við styðjum við upp­byggingu olíu- og gas­leiðsla sem flytja munu gas frá Rúss­landi til Kína en tækni­legar og efna­hags­legar að­stæður rétt­læta bygginguna að okkar mati,“ sagði for­seti Mongólíu á fundinum en þó hafa engar á­ætlanir um olíu­leiðslu verið form­lega lagðar fram.

Evrópa brást of seint við

Svo virðist sem efna­hags­að­gerðir Evrópu­landa og Banda­ríkjanna hafi ekki eins mikil á­hrif á Rúss­land og vonast var til. Sam­dráttur í rúss­neskum efna­hag hefur mælst 4 prósent en Rússar hafa grætt gríðar­lega á sölu jarð­efna­elds­neytis eftir að verð á orku rauk upp vegna stríðsins.

Heildar­verð­mæti orku­sölu Rússa er talið 93 milljarðar evra á fyrstu hundrað dögum stríðsins sam­kvæmt Orku- og um­hverfis­rann­sóknar­stofnun Finn­lands. Sér­fræðingar segja að lík­legast muni efna­hags­að­gerðir vest­rænna ríkja því ekki hafa á­hrif fyrr en á næsta ári. Á meðan stefni allt í að orku­krísa muni geisa í Evrópu eftir að inn­flutningur á rúss­nesku gasi stöðvast.

.

Mynd – thesun.co.uk 29.10.2022