Neikvæðar hefðir – Framþróun, þröngsýni, leti

Grein/Linkur:  Neikvæðar hefðir

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Mars 1997

Neikvæðar hefðir

Þeir eru margir, sem ríghalda í tregðuna. Hvað veldur því, að við erum föst í óhagkvæmum lagnaleiðum, vinnubrögðum og óhagkvæmu lagnaefni?

Það er oft sagt að við Íslendingar eigum fáar hefðir og talsvert hefur verið gert af því síðari ár að efla þær sem finnast og ætti að vera nærtækt að benda á það að að margir leggjast í át á súrmeti og hákarli á þorranum og nýyrðið „þorramatur“ er orðið samheiti yfir allt sem lagt er á borð við blótin. Það þarf ekki að fara nema til fyrri hluta þessarar aldar en þá var flest af því sem kallast nú þorramatur hvunndagsfæða, ef menn áttu mat á annað borð.

Hefðir geta verið bæði jákvæðar og neikvæðar, þorramatur tvímælalaust jákvæð hefð fyrir þá sem á annað borð kunna hann að meta.

En á seinni tímum koma fram ýmiskonar hefðir í daglegu lífi og atvinnulífi og þær ekki allar jákvæðar.

Í ýmsum greinum atvinnulífsins eru hefðir ekki mikils metnar nema þær séu af hinu góða og annað betra finnist ekki.

Mönnum verður tíðrætt um þá byltingu sem orðið hefur í húsakosti landsmanna á þessari öld og vissulega er það satt og rétt að við höfum orðið að vinna upp þróun sem orðið hefur hjá öðrum þjóðum á árhundruðum. Af þessu leiðir að fáar þjóðir eru eins fátækar af sögulegum byggingum frá fyrri tíð, gamli torfbærinn var í flestum tilfellum af vanefnum gerður og stóðst ekki tímans tönn.

Hefðir verða til

Í byggingum verða margar hefðir til þó enginn sé að smíða þær beinlínis, það verður ákveðin þróun sem enginn stýrir eða réttara sagt; það er eins og ósýnileg hönd stjórni eða einhver máttur sem enginn ræður við.

Þetta á tvímælalaust við í frágangi lagna, sérdeilis í íbúðarhúsum. Þar festir ákveðið lagnaefni sig í sessi og ekki síður ákveðnar lagnaleiðir.

Rangt val á lagnaefni, rangar lagnaleiðir og rangur frágangur verður lögmál sem nánast engin leið er að hrófla við.

Svona stórar fullyrðingar krefjast rökstuðnings, að sjálfsögðu.

Eitt af mörgum lagnavandamálum á síðustu árum er ryðmyndun í galvaniseruðum stálrörum í kaldavatnsleiðslum víðsvegar um land, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, þetta er búið að vera þekkt vandamál í mörg ár.

En þrátt fyrir það eru menn enn að hanna og leggja kaldavatnsleiðslur úr þessu efni. Á sama tíma og rifin er niður sex ára gömul lögn að tannlæknastofu úr galvaniseruðum stálrörum, ónothæf vegna innra ryðs og endurnýjuð með plaströrum, er verið að leggja kaldavatnsleiðslur úr galvaniseruðum stálrörum þegar stækkað er eitt elsta og virðulegasta hótel landsins.

Það er sama hvort farið er inn í nýbyggingar í Kópavogi eða Grafarvogi eða hvar sem er; allsstaðar eru menn að múra inn baðker, allstaðar eru múrarar að hlaða veggi fyrir framan leiðslur, aðallega galvaniseruð stálrör, þó vitað sé að þessa veggi verður að brjóta fyrr eða síðar. Ennþá er verið að leggja lagnir úr eirrörum á svæði Hitaveitu Reykjavíkur þó vitað sé að það efni á alls ekki að nota.

Hvað veldur?

Hver segir að við eigum ekki hefðir, við höfum búið okkur til hefðir á tiltölulega skömmum tíma sem illmögulegt virðist vera að koma fyrir kattarnef.

En spyrjum aftur; hvað veldur því að við erum föst í óhagkvæmum lagnaleiðum, óhagkvæmum vinnubrögðum og óhagkvæmu vali á lagnaefni?

Það er margt og það eru margir sem ríghalda í tregðuna og halda að þar séu þeir að tryggja hag sinn. Að sumu leyti er það skiljanlegt, í þau fáu skipti sem reyndar hafa verið nýjar leiðir hefur stundum verið farið óvarlega, þar má nefna eitt dæmi.

Skömmu eftir miðja öld fundu einhverjir spekingar upp á því að leggja hita- og neysluvatnslagnir í gólfraufar í kjallara eða neðstu hæð. Þegar þar við bættist að notaður var vikur eða rauðamöl til einangrunar á ber rörin var fjandinn laus, utanaðkomandi raki fullkomnaði verkið og sumstaðar tærðust rörin í sundur á örfáum árum.

En tregðulögmálið er til í öllum sem að lagnamálum koma, fyrir hönnuðinn er einfaldast að hanna eins og alltaf hefur verið gert, í það fer minnstur tími. Verklýsingar hafa nánast verið sami textinn undanfarin ár, hlutirnir skulu gerast á „venjulegan hátt“ Eitt sinn spurði iðnaðarmaður hönnuð um ákveðið atriði í verklýsingu og sá síðarnefndi gat enga skýringu gefið og þegar hann var spurður að því hvers vegna þetta stæði þá þarna svaraði hönnuður: „Við sáum þetta einhversstaðar“

Fyrir pípulagningamanninn er það sama uppi á teningnum, það er einfaldast og áreynsluminnst að gera hlutina eins og þeir voru gerðir síðast, ef unnið er í uppmælingu er það tvímælalaust hagkvæmast, það er „töf“ að læra nýja hluti.

Innflytjandinn og seljandi lagnaefnis halda sig við það hefðbundna ­ „það spyr enginn eftir baðkeri með svuntu“ sagði einn þeirra og á það svar hans við flest lagnaefni; einfaldast að versla með það sem verslað hefur verið með áður.

Húsbyggjandinn dansar eðlilega með, ef sérfræðingarnir sigla á tregðulögmálinu, hvaða stöðu hefur hann til að hafna því?

ÞAÐ er jafnfáránlegt að kasta burt gömlum gildum af nýjungagirni eins og að loka á framþróun vegna þröngsýni og leti í hugsun.

Fleira áhugavert: