Djúpivogur – Borun eftir heitu vatni

Grein/Linkur: Hefja borun eftir heitu vatni við Djúpavog

Höfundur:  RUV

Heimild: 

.

Jarðborinn Trölli frá Ræktunarsambandi Skeiða og Flóa þegar borun tilraunavinnsluholunnar við Djúpavog hófst í dag. Aðsend – Glúmur Björnsson

.

Febrúar 2024

Hefja borun eftir heitu vatni við Djúpavog

Bora á stóra tilraunavinnsluholu til að leita að heitu vatni fyrir Djúpavog. Bjartsýni er um að hægt verði að koma upp hitaveitu fyrir þorpið

Í hádeginu í dag var byrjað að bora tilraunavinnsluholu vegna heitavatnsleitar við Djúpavog. Forsvarsmaður HEF veitna er bjartsýnn á að nægt vatn finnist til að hita hús í þorpinu.

HEF veitur eru í eigu Múlaþings og sjá um veitustarfsemi í öllum byggðakjörnum sveitarfélagsins. Hitaveita er á Héraði en ekki í þéttbýli annars staðar í sveitarfélaginu; Djúpavogi, Seyðisfirði og Borgarfirði.

Glúmur Björnsson, jarðfræðingur hjá HEF veitum, var á Djúpavogi að undirbúa vinnu við borun þegar fréttastofa talaði við hann.

„Við erum að byrja að bora núna í dag. Það er jarðborinn Trölli frá Ræktunarsambandi Skeiða og Flóa sem kom til okkar í gær.“

Bjartsýnn á að finna nóg fyrir hitaveitu

Á Djúpavogi hefur lengi verið vitað af jarðhita skammt frá bænum þar sem heimamenn og gestir hafa stundum baðað sig í körum. Þar hafa áður verið boraðar könnunarholur en nú er að hefjast vinna við að bora stóra tilraunavinnsluholu.

„Flestallar holurnar sem eru hérna á svæðinu eru grunnar rannsóknarholur og einhverjar örfáar aðeins dýpri en núna stefnum við enn þá dýpra því að við teljum að hér megi ná í 70 til 80 gráðu heitt vatn og það myndi gera okkur kleift að stofna hitaveitu hérna á Djúpavogi,“ segir Glúmur.

Hann er bjartsýnn á að nógu mikið finnist af nógu heitu vatni fyrir hitaveitu. „Hér hafa í rauninni staðið yfir rannsóknir svona af og á í 30 ár, það er sem sagt 30 ára rannsóknarsaga og jarðefnafræðin bendir til þess að hér megi finna 70 til 80 gráðu heitt vatn. Við bara sjáum hvernig þessi borun tekst og í framhaldinu förum við í hönnun á næstu skrefum. En það má alveg vera bjartsýnn og við erum það.“

.

Mynd – Goggle.com 15.03.2024

Fleira áhugavert: