Hvað er afkolun?
Grein/Linkur: Afkolun
Höfundur: Nýorka
.
.
Júlí 2006
Afkolun
Orðið afkolun (carbon sequestration) er notað yfir ferli sem fjarlægja kolefni úr andrúmsloftinu. Ljóstillífun er náttúrulegt dæmi um slíkt ferli sem fangar kolefni bæði á landi sem og sjó. Í dag er hins vegar svo komið að mun meiri koltvísýringur (CO2) er framleiddur í heiminum en unnt er að fanga og vinna, og veldur þetta auknum gróðurhúsaáhrifum. Með urðun koltvísýrings er ætlunin að draga úr loftslagsbreytingum með því að fanga koltvísýring frá t.d. orkuverum og eldsneytisiðnaði og geyma hann á öruggan hátt í stað þess að hleypa honum beint út í andrúmsloftið.
Þetta getur haft mikil áhrif á vetnisvæðingu í heiminum, því á flestum stöðum er einfaldast og ódýrast að framleiða vetni úr gasi og kolum með aðstoð vatnsgufu (steam reforming), en það hefur í för með sér töluverða koltvísýringslosun. (Mynd (c) ECN, www.ecn.nl)
Meðal leiða sem talið er að nota megi til að geyma koltvísýringinn er að dæla honum niður í olíu- og gaslindir, þar sem hann hefði þá aukaverkun að þrýsta olíunni eða gasinu upp á við og gera þar með vinnslu þess auðveldari. Á sama hátt hafa verið gerðar tilraunir með að binda hann í kolalögum, þar sem hann losar um leið um metangas sem þar er bundið fyrir og mætti þá vinna.
Önnur leið, sem hefur þó engar virðisaukandi hliðarverkanir, er að binda koltvísýringinn í saltmyndunum djúpt í jörðu. Slíkar myndanir hafa þann kost að vera mjög algengar og geta tekið við miklum koltvísýringi. Annarskonar jarðlög eru auk þess í skoðun hvað þetta varðar. Einnig eru uppi hugmyndir um að dæla koltvísýringi út í hafið á miklu dýpi þar sem það gæti leysts upp eða, ef dýpið er nógu mikið, sokkið til botns og myndað efnasambönd þar.