Asbest – Af hverju hættulegt?

Heimild:

.

Október 2006

Asbest er samheiti yfir nokkrar steintegundir sem allar eiga það sameiginlegt að mynda þráðkennda kristalla (sjá mynd til vinstri). Þessir kristallar eru oft mjög fíngerðir, ekki ósvipaðir englahárinu sem sumir nota til að skreyta jólatrén sín.Asbestþræðir eru til margra hluta nytsamlegir, til dæmis sem hljóð- eða hitaeinangrun. Nú er samt notkun asbests til einangrunar í húsum bönnuð á flestum stöðum í heiminum en enn er nokkuð algengt að nýta það í bremsuborða bíla. Einnig má finna asbest í lími, leir og gólfdúkum, svo dæmi séu tekin.Asbest brotnar mjög auðveldlega niður og myndar fínsallað asbestryk.

Rykið líkist helst litlum nálum, frekar en kornum, sem gerir að verkum að það festist í lungum við innöndun. Loftið sem við öndum að okkur inniheldur yfirleitt örlítið af asbesti, en ekki þó í því magni að það valdi okkur skaða.Ef maður andar hins vegar að sér miklu magni af asbestryki geta þræðirnir orðið svo margir að þeir valdi tjóni. Skaðinn kemur oft ekki fram fyrr en 20-40 árum seinna og þá sem steinlunga (e. asbestosis, myndun örvefs í lunga, sjá mynd til hægri), lungnakrabbamein eða fleiðrukrabbamein (e. mesothelioma, krabbamein í himnu sem umlykur lungun).

Allir þessir sjúkdómar eru alvarlegir. Steinlunga er óafturkræfur sjúkdómur þar sem aragrúi öra myndast í lunganu sem koma í veg fyrir að lungað starfi eðlilega. Ekki er mögulegt að laga örin þegar þau eru komin heldur er einungis hægt að reyna að fyrirbyggja að viðkomandi verði fyrir meiri skaða. Þessi sjúkdómur leiðir í besta falli til örorku og venjan er að hann versni með aldrinum.Þeir sem greinast með steinlunga eru í aukinni hættu að greinast einnig með annað af áðurnefndum krabbameinum.

Bæði krabbameinin eru erfið í meðferð og há dánartíðni af þeim báðum. Stundum er hægt að halda aftur af þeim um tíma, en algengt er að fólk deyi innan fárra ára eða jafnvel innan árs frá því að krabbameinið greinist.Sökum þess hve sjúkdómarnir eru alvarlegir, og af því að þeir gera ekki vart við sig fyrr en löngu eftir að skaðinn er skeður, hafa flest heilbrigðisyfirvöld tekið þá ákvörðun að banna notkun asbests þegar líklegt þykir að það valdi auknu asbestryki í andrúmslofti. Notkun í bremsuborðum í bílum er hins vegar ennþá leyfð og eru bifvélavirkjar því í áhættuhópi. Áhættuþættir sem hafa mikil áhrif eru reykingar, en talið er að þær geti nánast tvöfaldað hættuna á lungnakrabbameini af völdum asbestmengunar.

Myndir

Fleira áhugavert: