Raflínunetið – Stýrikerfi, orkusala
Grein/Linkur: Raflínunetið, stýrikerfi og orkusala
Höfundur: Ari Trausti Guðmundsson
.
.
Mars 2023
Raflínunetið, stýrikerfi og orkusala
Munur er á flutningskerfi raforku og dreifikerfi, og við bætist sölukerfi. Hvað er íblöndun?
Flutningsfyrirtæki
Stórt flutningsnet tengir raforkuver landsins við notendur. Virkjanir eru samtengdar þannig að rafstraumur fer um leiðarana á háspennu- möstrum og tvöföldum tréstaurastæðum í gagnstæðar áttir eftir þörfum. Eitt opinbert fyrirtæki, Landsnet, rekur mannvirki netsins, s.s. spennistöðvar, loftlínur og jarðstrengi og flytur raforku frá vinnslustað, á spennusviði frá 66kV til 220kV, til sölu á almennum heildsölumarkaði eða beint til stórnotenda (orkufrekrar starfsemi).
Stýrikerfi
Raforkuframleiðslukerfi með mörgum tengdum virkjunum sem ýmist nota vatnsafl, jarðvarma eða vind til starfseminnar þarfnast flókinnar stýringar (reglunar) og eftirlits, mínútu fyrir mínútu.
Stafrænt, miðlægt hátæknikerfi hjá Landsneti samræmir virkni orkuvinnslustöðvanna og flutningskerfisins. Komi upp vandi í framleiðslunni, línur rofna eða spennar bila o.s.frv. er unnt að bregðast við og koma í veg fyrir, eða lágmarka, frekari vanda og tjón. Einnig er stýrikerfið notað til að láta ólíkar virkjanir „vinna saman“ vegna breytilegs álags eða ytri skilyrða, t.d. auka eða minnka orkuframleiðslu einstakra virkjana.
Dreifiveita
Fyrirtæki sem rekur mannvirki, tengivirki, loftlínur og jarðstrengi og dreifir raforku til sölufyrirtækja nefnist dreifiveita. Dreifiveitur starfa á spennubili frá 0,4kV til 132kV á almennum smásölumarkaði.
Dreifiveitur vinna samkvæmt sérleyfi og kaupa raforkuna frá flutningsfyrirtæki, þ.e. Landsneti.
Þær eru fimm talsins: HS Veitur, Norðurorka, Orkubú Vestfjarða, RARIK og Veitur.
Sölufyrirtæki
Sölufyrirtæki á sviði orku sjá um orkusölu til flestra notenda og eru valkvæð, eins og allr þekkja hvað varðar olíu- og bensínsölufyrirtæki en nú orðið gildir það einnig um sérstaka raforkuseljendur.
Þeir teljast nú vera átta og þeim ber að eiga í innbyrðis samkepnni um rafokuverð: Fallorka, HS Orka, N1rafmagn, Orka heimilanna, Orka náttúrunnar (ON), Orkubú Vestfjarða, Orkusalan og Straumlind.
Íblöndun eldsneytisala
Seljanda eldsneytis ber að tryggja (frá 2014 að telja) að ákveðið hlutfall af árlegri sölu af jarðefnaeldsneyti til notkunar í samgöngum sé endurnýjanlegt eldsneyti. Það getur numið að lágmarki 5% af orkuinnihaldi (frá 2015 að telja). Oftast er alkóhóli (etanóli eða metanóli) bætt í bensín en lífdísli í dísilolíu. Hér á landi er ljóst að íblöndun dísilolíu er viðhöfð, til að ná lágmarksblöndun í jarðefnaeldsneyti í heild. Blandað er hreinsiefni (ótilgreint) í bensín hjá tveimur seljendum a.m.k. en óljósar hvort alkóhól er notað hjá öðrum, en sú íblöndun virðist umdeild hér á landi. Flugvélaeldsneyti virðst ekki vera blandað öðrum efnum.