Lagnaleiðir, efnisval – Sagan 1995

Grein/Linkur:  Loksins, loksins

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:  

.

Stundum þarf að brjóta niður heilu veggina til að komast að einni skemmd á lögn.

.

Maí 1995

Loksins, loksins

Vonandi er sá tími að koma, að það auki verðgildi fasteigna, að lagnir séu utanáliggjandi eða aðgengilegar til endurnýjunar, segir Sigurður Grétar Guðmundsson, þar sem hann fjallar m. a. um lagnaleiðir og efnisval.

ÞAÐ ótrúlega virðist vera að gerast; fleiri og fleiri, húsbyggjendur, húseigendur, hönnuðir, iðnaðarmenn og meira að segja opinberir embættismenn virðast vera að átta sig á því að hinar vanabundnu aðferðir í vali á lagnaefnum, lagnaaðferðum og lagnaleiðum í húsum hafa kostað einstaklinga og samfélagið í heild milljarða króna vegna skemmda á lögnum og skemmda á öðrum hlutum húsa af völdum vatns.

Hún er einkennileg þessi skjaldborg, sem slegin hefur verið um hefðbundnar aðferðir og hefðbundin lagnaefni þrátt fyrir að vankantarnir hafi verið augljósir í áratugi. Meirihluti lagnamanna og húsbyggjenda hafa sameinast í einum allsherjar íhaldsflokki (sem þó aldrei hefur boðið fram, hann hefði fengið mikið fylgi); þessi flokkur hefur ríghaldið í vitleysuna eins og óvita barn í snuðið sitt. Þeir örfáu einstaklingar, sem reynt hafa að brjóta upp á nýjum leiðum, hafa verið álitnir sérvitringar og ruglukollar.

Ertu að fara að byggja þér hús eða endurnýja gamla húsið?

Eigum við þá að skoða nokkur atriði í vali á kerfum, lagnaefnum og lagnaleiðum?

Í grunni

Hefurðu séð sökklana steypta, grunninn fylltan, fyllinguna þjappaða í mörgum lögum og hvað gerist svo? Það kemur grafa, grefur upp alla vel þjöppuðu fyllinguna, rótar og tætir, síðan hefst lögn frárennslislagnar, lögð þvers og kruss undir botnplötu oft á miklu dýpi, síðan er fyllt yfir aftur og þjappað og þjappað.

Er hægt að gera þetta öðruvísi?

Já, það er hægt á fleiri en einn veg. Í fyrsta lagi; leggðu allar lagnir eins fljótt út úr grunninum eins og hægt er og sameinaðu þær í eitt kerfi utanhúss, það er skynsamlegra upp á framtíðina, eða; fylltu grunninn á gamla mátann að mestu, leggðu frárennslislögnina grunnt undir botnplötu með lágmarkshalla og síðan á einum stað lóðrétt niður á það dýpi, sem nauðsynlegt er til að koma út úr grunni í réttri hæð; síðan er lokið við fyllinguna.

En fyrri aðferðin er tvímælalaust skynsamlegri.

Hvernig hitakerfi

Ofnakerfin eru ágæt, en hvers vegna ekki að athuga hvaða kosti gólfhitinn býður? En þetta tvennt er hægt að sameina með mjög góðum árangri; ofnarnir minnkaðir um helming, allir ofnar einfaldir, frárennslið frá hverjum ofni leitt í plaströrum, sem eru innsteypt í gólfið. Á hverjum ofni er hitastýrður loki (túrloki að ofan, sem stýrist eftir lofthita) hann stýrir hitaþörfinni hvort sem hitinn kemur frá ofninum eða gólfinu. Slík kerfi krefjast nákvæmrar rennslisstillingar til að tryggja að ekki fari of heitt vatn inn á gólfið, en það þarf að rennslisstilla öll hitakerfi, undan því verður aldrei vikist.

Lagnaleiðir og efnisval

Vonandi er sá tími að koma að það auki verðgildi fasteigna að lagnir séu utanáliggjandi eða aðgengilegar til endurnýjunar. Snittuð, skrúfuð rör, einangruð með glerullarhólkum, vafin með plastfilmu, troðið inn í veggeinangrun; er ekki nóg komið af slíku? Hefurðu hugsað um það að glerullareinangrunin kostar jafnmikið og rörin, hefurðu hugsað um að það kostar jafnmikið að einangra rörin og leggja þau, hefurðu hugsað um það að hvorutveggja geturðu sparað þér með utanáliggjandi snyrtilegri lögn, sem verður með tímanum eins sjálfsagður hluti hússins eins og eldavélin, hurðarhúnninn, hreinlætistækin eða allt það sem öllum finnst sjálfsagt. Plaströr, sem er dregið inn í annað plaströr, er ein leiðin og það er kaldhæðni að plaströr í hitakerfum og þunnveggja utanáliggjandi plasthúðuð stálrör með þrykktum tengjum komu fyrst á markað hérlendis fyrir aldarfjórðungi, en íhaldsflokkurinn stóri hélt fast í vatnsskaðaleiðina og við það sat; hann réð ferðinni.

Baðið

Veldu vegghengt salerni, alls ekki fót undir handlaug né handlaugarborð sem stendur á gólfi, þetta auðveldar ræstingu, en handlaugarborð er vissulega ákjósanlegt, vegghengt. Gólflás við baðker, handlaug og sturtu; það þarf engan sturtubotn ef húsið er einnar hæðar, notaðu gólfið og sturtuklefa.

Flísaleggðu í hólf og gólf áður en nokkuð tæki er sett upp og umfram allt; ekki múra baðkerið inn á nokkurn hátt, baðkerið á að vera með svuntu og gafli. Vatnslagnir úr plasti eða utanáliggjandi úr ryðfríu stáli eða krómhúðaðar.

Notaðu hitastýrð blöndunartæki við baðker og í sturtu, það er til þæginda en umfram allt; slysavörn.

Eldhúsið

Mjög líklegt að þú verðir með uppþvottavél í eldhúsinu, uppvaskið er ekki svo skemmtilegt. Útbúðu sökkul undir vaskskápinn þannig að hann nái undir uppþvottavélina, klæddu hann í botn og innan á sökkul með vatnsheldum dúk og hafðu gólflás á lægsta punkti, gólflás sem allt frárennsli frá tækjum fer í gegnum eins og í baðinu.

Hér er komið hólf, sem tekur við talsverðu vatnsmagni og hindrar að það renni yfir parkettið í eldhúsinu og stofunni ef óhapp verður t.d. á slöngum frá uppþvottavél, (þú velur parkett, því auðvitað er þér annt um heilsuna og setur hvergi teppi á gólf) og hvernig væri að hafa sorpfötuna einhversstaðar annarsstaðar en í vaskskápnum, þar sem rakinn og hitinn magna upp hverskonar gerla- og bakteríugróður á mettíma.

Fleira áhugavert: