Vatnshrútur – Dælir vatni án rafmagns

Grein/Linkur: Vatnshrútur er undratæki

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

vatnsh

.

Júlí 2008

Vatnshrútur er undratæki

Líklega eru það ekki nema einstaka gamlir geirfuglar sem átta sig á hvað vatnshrútur er. Eitt er víst; hann mundi lítið gagnast ám um fengitímann enda ekki af holdi og blóði. Þó var vatnshrútur nokkuð algengur hérlendis á fyrri hluta síðustu aldar og þá til sveita. Ólíklegt er að nokkur vatnshrútur sé enn að verkum hérlendis en vissulega væri áhugavert að komast að því ef svo er.

En þá er best að koma sér að efninu og lýsa nánar hvaða undur þetta er. Vatnshrútur er vatnsdæla sem er búin þeim eiginleika að geta dælt vatni í talsverða hæð en þurfa þó ekki til þess rafmagn eða neina utanaðkomandi orku, hvorki vélræna né mannlega. En ekkert hreyfist án orku og vissulega er það svo með vatnshrútinn. Hann notar það sem hann vinnur með og það er vatn, úr vatninu fær hann orkuna til að geta dælt vatni. Helst þarf hann að vinna þar sem landslag er nokkuð mishæðótt eða hallandi, á rennisléttu landi vinnur hann ekki.

vatnshruturEn snúum okkur að því að lýsa vatnshrút, hvernig hann er uppbyggður og hvernig hann vinnur. Í honum eru aðeins tveir hreyfanlegir hlutir, það nægir til að hann geti dælt vatni. Í fyrsta lagi þarf að vera nokkur fallhæð frá vatnslindinni, hvort sem það er uppspretta, lækur eða tjörn, niður til vatnshrútsins. Auðveldast er að skoða meðfylgjandi skýringarmynd til að átta sig á þessu einfalda en magnaða tæki. Vatnið kemur um nokkuð víða leiðslu frá lindinni inn í vatnshrútinn, stútur nr.1. Vatnið gusast út undan rauða klakknum nr. 4. En aðeins stutta stund því vatnskrafturinn drífur klakkinn upp og þar með lokuna neðan á honum. Þannig hefur vatnið lokað fyrir eigið rennsli og þá myndast það sem kallað er „vatnshamar“. Vatnið myndar högg þegar það kemst ekki lengra og ryðst þá upp í gegnum einstreymislokann nr. 5 og upp í rörið merkt nr.3. En þá fellur þrýstingurinn svo að rauði klakkurinn fellur niður og vatnið gusast út aftur. Þetta gerist á mjög stuttum tíma, skiptingin er mjög ör, gusan kemur undan klakknum í örfáar sekúndur og síðan kemur „vatnshamarinn“ í álíka langan tíma og þrýstir vatni í leiðslu nr. 3. Það vatn getur aldrei runnið til baka, um það sér einstreymislokinn nr. 5. Kúturinn nr. 6 er að mestu fullur af lofti. Kútur og loft virka eins og dempari á bíl, högg vatnshamarsins verður mýkra, meira vatn kemst inn í leiðslu nr. 3.

Svona getur vatnshrútur unnið dögum, mánuðum eða árum saman.

Af hverju voru vatnshrútar notaðir, getur ekki vatnið runnið beint inn í hús án þeirra? Ef svo hefði verið þá var það hið besta mál. En bæir stóðu oft uppi á hólum og hæðum, lindirnar eða jarðvatnið kom oft fram úr hlíðum neðar eða að lækir runnu í gilskorningum. Þá kom vatnshrúturinn til hjálpar og lyfti vatninu hátt upp af eigin afli.

vatnshrutur2Galdurinn er einmitt sá að með tiltölulega litlu falli frá lind að vatnshrúti gat hann lyft vatninu miklu hærra, hátt yfir lindina. Tökum dæmi og segjum að fallhæð frá lind að vatnshrúti sé 1 metri. Þá gat hann lyft vatninu frá sér um 40 metra en dældi þá ekki meira en 12 lítrum á sólarhring. En ef fallhæðin frá lind var 3 metrar gat hann dælt upp 65 lítrum. En ef lyftihæðin var ekki nema 10 metrar gat hann dælt 280 lítrum.

Nú er best að hætta að flækja lýsinguna á vatnshrútnum með frekara talnaflóði.

Allar líkur eru á að vatnshrútur geti komið að góðu gagni hérlendis þar sem ekki er völ á rafmagni eins og víða á hálendinu og í sumarhúsum fyrir utan skipulagðar sumarhúsabyggðir.

Flestir töldu að dagar vatnshrútsins væru taldir á síðari hluta 20. aldar en svo gekk hann í endurnýjun lífdaganna og er nú víða í notkun.

Faðir vatnshrútsins er af flestum talinn Joseph Michel Montgolfier sem gangsetti fyrsta tækið í Frakklandi árið 1796, en Joseph og bræður hans tveir eru þó þekktari fyrir að hafa verið frumkvöðlar að fleiru, svo sem að skapa opna og upphitaða loftbelginn.

Fleira áhugavert: