Baðherbergi – Handklæðaofn, gólfhiti eða hvorugt
Grein/Linkur: Er hægt að sleppa upphitun í baðherbergi?
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Maí 2007
Er hægt að sleppa upphitun í baðherbergi?
Í fjölbýlishúsum er skipulag íbúða stundum þannig að baðherbergin eru gluggalaus inni í miðri íbúð. Að sjálfsögðu getur þetta vel gengið en þá þarf að vanda útloftun frá innilokuðu baðherbergjum. Útloftun baðherbergja á ætíð að vera þannig að loft sé sogað frá þeim, loft frá böðum og salernum á aldrei að berast inn í aðrar vistarverur. Ef baðherbergin eru gluggalaus þarf að setja ristar á hurðir eða veggi til þess að það verði útsog.
Að sjálfsögðu reyna byggjendur að halda byggingarkostnaði niðri. En stundum er gengið svo langt í sparnaði að það kemur niður á gæðum. Úr stórbyggingum í Kópavogi berast þær fregnir að nýjasta sparnaðarráðið hjá einum byggjanda sé að sleppa því að hafa nokkurn hitagjafa í baðherbergjum sem eru gluggalaus inni í miðjum íbúðum.
Hér er ótvírætt farið yfir strikið í sparnaði. Baðherbergið er sá staður þar sem íbúar vilja hafa hvað heitast og þægilegast. Það má heldur ekki gleyma því að baðherbergi er það sem við fagmenn köllum votrými, þetta er staður þar sem mikill raki fellur til. Það gerist þegar farið er í bað hvort sem lagst er í baðker eða farið í sturtu og raunar í hvert sinn sem vatn er látið renna. Því er rík nauðsyn að hafa hitagjafa í hverju baðherbergi, annað hvort gólfhita eða ofn.
Niðurstaðan er þessi: hitagjafi er ætíð nauðsyn í baðherbergi , ekkert síður þó þar sé enginn gluggi og enginn útveggur.
Það er misskilningur að ekki sé hægt að hafa handklæðaofn í baðherbergi þar sem gólfhiti er. Stundum er brugðið á það ráð að leggja sérstaka lögn frá hitaveitugrind til þess að tengja og setja upp handklæðaofn. Slík aukalögn er óþörf, þetta er hægt að leysa á einfaldari hátt. Handklæðaofn er hægt að tengja beint inn á gólfhitalögnina, tengja heitu framrásarlögnina inn á handklæðaofninn og síðan áfram í gólfið. Hanklæðaofninn er 30 – 35°C heitur og það er fyllilega nægur hiti til að þurrka handklæði, það er engin þörf á heitari ofni.
Það er góðra gjalda vert þegar fjölmiðlar leiðbeina fólki í innanhússvandamálum. Verra er þegar gefin ráð eru byggð á vanþekkingu og ýmis konar hindurvitnum. Þannig hrasaði Fréttablaðið illilega þegar það birti eftirfarandi klausu:
Mikið vatnsmagn þarf til að hita upp handklæðaofn og einnig til að hann þurrki handklæðin almennilega. Sé hann í botni alla daga og skrúfaður hátt upp getur hitareikningur heimilisins margfaldast. Áður en fólk fjárfestir í handklæðaofnum ætti það að fá upplýsingar hjá pípulagningamanni eða fulltrúa frá Orkuveitu Reykjavíkur um tilvonandi eyðslu. Kílóastund af rafmagni er níu sinnum dýrari en í heitu vatni en handklæðaofnar eru ýmist hitaðir með rafmagni eða heitu vatni.
Við þessa klausu er ýmislegt að athuga svo sem eins og það að handklæðaofnar séu stundum rafhitaðir, það er nær óþekkt hérlendis. Ef handklæðaofn er rétt tengdur og hitakerfið jafnvægisstillt, eins og skylda er, getur handklæðaofn aldrei margfaldað hitareikninginn. Slíkur ofn á aldrei að fá meira vatnsrennsli en hann ræður við að afkæla.
Þess vegna er það furðuleg fullyrðing að handklæðaofn þurfi mikið vatnsmagn til að hann hitni og þurrki handklæði.
Vonandi að Fréttablaðið vandi sig betur framvegis þegar það gefur neytendum góð ráð.