Gólfhiti – Eru til einhver óyggjandi svör
Grein/Linkur: Spurningar og svör um gólfhita
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Júní 1999
Spurningar og svör um gólfhita
Í Vestur-Evrópu er gólfhiti það hitakerfi, sem er í mestri sókn, sérstaklega í íbúðarhúsnæði.
Eftir að þessi stórkostlega uppgötvun , að leiða heitt vatn um hús til upphitunar, varð að veruleika, þekktist vart annað en að vatnið væri leitt eftir pípum inn í ofna sem gáfu frá sér varma öllum til þæginda og ánægju sem áttu á því kost. Það var ekki fyrr en um miðja öldina sem farið er að steypa rör inn í loftplötur sem varmagjafa. Þar með var geislahitunin komin , en hún átti sér stutt blómaskeið, er nánast horfin hérlendis en heldur enn velli sumstaðar erlendis, einkum í atvinnuhúsnæði.
Um líkt leyti fara menn að steypa rör inn í gólf og þá er gólfhitinn kominn, sem er raunar með öllu óskyldur geislahituninni nema að því leyti að hvort tveggja byggist á röraspírulum, í fyrstu úr stáli en á síðustu árum úr plasti, hinsvegar er eðli þessara tveggja hitakerfa gjörólíkt.
Þessvegna skulum við aldrei tala um „gólfgeislahita“, segjum aðeins „gólfhiti“. Í V-Evrópu er gólfhiti það hitakerfi sem er í mestri sókn, sérstaklega í íbúðarhúsnæði og þess vegna er ekki óeðlilegt að ýmsir, sem verða varir við þessa þróun erlendis, spyrji sjálfa sig og aðra hvort ekki megi nota gólfhita til að hita upp hýbýli hérlendis. Því miður verður oft fátt um svör og það verður að segjast eins og er; hönnuðir og pípulagningamenn eru hreint ekki vel að sér í gólfhitafræðum og því verður svarið oft það að í slíku hitakerfi sé ekkert vit. En er það svo?
Oft heppilegt hitakerfi
Það er þó nokkuð löng reynsla af gólfhita hérlendis, en elstu kerfin voru hönnuð fyrir ketilhitun og eru því ekki heppileg fyrir hitaveitu, þau voru einnig lögð úr stálrörum, sem kannski hafa orðið fyrir utanaðkomandi raka og tærst í sundur. Oft voru hitakerfi rangt eða ekki hönnuð, stýring þeirra röng og þarafleiðandi of mikill yfirborðshiti á gólfum.
Og þar erum við komin að kjarna málsins, þaðan eru komnir fordómarnir á gólfhita, gólfin voru of heit og það er ekki þægilegt. Í vistarverum þar sem unnið er og þar sem verið er langtímum, svo sem í stofum og eldhúsum, á yfirborðshiti gólfsins ekki að fara yfir 28 gráður á C.
Hvaða svör fást?
Ef húsbyggjandi hefur áhuga á að setja gólfhita í hús sitt fer hann eðlilega til fagmanna, hönnuða og pípulagningamanna til að fá upplýsingar og hvort það sé yfirleitt eitthvert vit í því að nota gólfhita. Það má búast við að sá hinn sami fái misvísandi svör og geta þau verið jafn mörg og ólík og þeir sem spurðir eru.
Eru til einhver óyggjandi svör?
Um það má lengi deila en það má reyna að gefa nokkur. Í íbúðarhúsnæði koma tvenns konar gólfhitakerfi til greina. Í fyrsta lagi eingöngu gólfhiti og í öðru lagi ofnakerfi og gólfhiti, sem samt sem áður er eitt og sama kerfið. Það sem þar gerist er að ofnarnir eru minnkaðir, segjum um helming, og afrennslið frá ofnunum látið renna um rör í gólfinu, á ofni og viðkomandi gólfi er ein og sama stýringin.
Þetta getur verið hið besta hitakerfi, sem hefur kosti beggja tvíburanna, ofnakerfis og gólfhitakerfis. Spurt er; er hægt að hita upp hús með gólfhita eingöngu? Já, það er vissulega hægt, það geta verið bæði þægileg hitakerfi að búa við og ódýr í rekstri.
Í hvernig gólfum er heppilegast að hafa gólfhita? Tvímælalaust í steingólfum vegna þess hve vel steypan leiðir varmann frá rörunum, en umfram allt að hafa rörin ekki of djúpt, ekki meira en 36 sm niður á rör.
Er hægt að nota gólfhita þótt teppi eða parkett sé á gólfum? Það er hægt, þótt efalaust hafi margir heyrt fullyrðingar um hið gagnstæða; það verður hins vegar að liggja ljóst fyrir áður en kerfin eru hönnuð og lögð hvernig frá gólfum verður gengið. Ef gólfhitakerfið er hannað af færum manni sem þekkir forsendur gólfhitakerfa er hægt að ná góðum árangri þótt teppi eða parkett sé á gólfum.
Verður ekki að setja millihitara á gólfhitakerfi á hitaveitusvæðum? Það er ein leiðin til að stýra kerfunum en það er ekki nein nauðsyn, með þeim stýritækjum sem við eigum völ á í dag má segja að millihitari sé fyrst og fremst kostnaðarauki.
En með parkettið, heyrst hefur að það hafi losnað þar sem gólfhiti var undir? Sé svo er eitthvað að, oftast það að alltof heitt vatn fer inn á gólfhitarörin, þar hafa um vélað menn sem ekki vissu hvað þeir voru að gera.
Hve heitt vatn á að fara inn á gólfhitakerfi? Það er mismunandi en í flestum tilfellum þarf það ekki að vera heitara en 40 gráður á C, getur þó þurft að vera hærra við viss skilyrði.
Á yfirborðshiti gólfsins aldrei að fara yfir 28 gráður á C? Ekki þar sem dvalið er til langframa, en á vissum svæðum svo sem í böðum, forstofum og þvottahúsum gerir ekkert til þótt yfirborðshitinn fari upp í 35 gráður á C.
Verður að leggja gólfhitakerfi úr pex-plaströrum með súrefnisvörn? Að leggja gólfhitakerfi úr pex-plaströrum með súrefnisvörn (súrefni getur komist í vatnið inn í gegnum rörvegginn) er hið besta mál og flest kerfi eru hönnuð þannig, en hinsvegar er þar verið að fleygja peningum í alltof dýr rör. Það eru til plaströr sem eru fyllilega jafngóð í gólfhitakerfi og pex-plaströr og súrefnisvörn á rörin hefur ekkert að segja.
Hversvegna eru þá nær öll gólfhitakerfi hönnuð og lögð úr pex- plaströrum? Vegna þess að stærstu framleiðendur pex-plaströra Evrópu eru þeir sem hafa kostað alla þróun í tækninni sem hefur fleygt þessum kerfum áfram og þaðan eru komnar allar hönnunarforsendur og þær nota hönnuðir að sjálfsögðu. Þetta hafa framleiðendurnir gert til að auka sölu á sinni framleiðsluvöru, pex-plaströrunum, og svo gleypa fagmenn þetta hrátt að þau rör verði að nota. Enn eitt dæmið um ósjálfstæði í hugsun.
HÉR má sjá gólfhitarör lögð í sérframleiddar skífur úr frauðplasti, álþynnur utan um rörin til að dreifa hitanum og gólfborð úr viði yfir.