Sökkulmát – Vatn, rafmagn, fjarskiptalagnir
Grein/Linkur: Stórmerk tíðindi frá Orkuveitu Reykjavíkur
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Júní 2003
Stórmerk tíðindi frá Orkuveitu Reykjavíkur
Hver þekkir ekki sögurnar um framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga þar sem allt er framkvæmt eins og vitið sé ekki reitt í þverpokum. Auðvitað voru þessar sögur skrumskældur veruleiki, en það var kannski svolítill fótur fyrir þeim, annars hefðu þær ekki orðið til.
Lengi undruðust íbúar höfuðborgarinnar endurtekinn uppgröft í gangstígum og götum, fyrst kom ein veitustofnun og lagði sínar lagnir, segjum kalt vatn, fyllti skurðinn, gekk frá yfirborði og fór. Þá kom önnur veitustofnun og gróf aftur skurð, lagði lagnir fyrir heitt vatn, fyllti skurð og gekk frá yfirborði. Þannig hélt þetta áfram og auðvitað kom Síminn næst og síðan Rafveitan.
Þetta er hin ýkta mynd sem borgarbúar höfðu af opinberum framkvæmdum, stundum æði sannferðugar, því miður. En það er margt að breytast sem betur fer.
Inn um bréfalúguna eru að detta bréf frá þessu ágæta fyrirtæki til allra viðskiptavina þess og þeir eru ekki aðeins í Reykjavík. Þeir eru vítt og breytt um suðvesturhorn landsins, geta eins verið í Hafnarfirði sem Þorlákshöfn.
Þetta bréf flytur stórmerk tíðindi, hvorki meira né minna en að allar heimtaugar, hverju nafni sem þær nefnast, eru settar í einn pakka, eina framkvæmd. Inni í þessum pakka eru heimtaugar fyrir heitt vatn, kalt vatn, rafmagn, fjarskiptalagnir hvort sem er sími eða sérstakar fjarskiptalagnir Orkuveitunnar, sem svo mikill styr hefur staðið um.
Í fljótu bragði væri hægt að álykta að þetta sé ósköp einfalt, aðeins að taka þessar heimtaugar inn í einum pakka og málið þar með afgreitt.
Þegar þetta er skoðað nánar liggur það í augum uppi að það hlýtur að liggja að baki mikil vinna, þetta er ekki eins einfalt og ætla mætti.
Til að þetta sé framkvæmanlegt þarf að vera samvinna allra stofnana, sem þurfa og vilja koma taugum og tengingum inn í hvert hús á veitusvæðinu. Aðeins það er ekkert áhlaupaverk og hefur ábyggilega þurft mikla yfirlegu. Þetta þýðir að það er ekki aðeins nauðsynlegt að hafa samvinnu um heimtaugarnar, samvinnan verður að byrja strax við lögn veitukerfanna hvort sem það er vatn, rafmagn, fjarskiptalagnir eða hvað sem það nefnist.
Þarna þarf að hugsa fyrir hverju skrefi og sem dæmi má nefna að sá sem stendur fyrir byggingunni fær frá Orkuveitunni forsmíðað mót til að setja í sökkla, í því eru göt fyrir allar þær lagnir sem eitt hús þarf á að halda.
Um leið og bornar eru fram þakkir fyrir þennan áfanga, sem er mikilvægari en liggur í augum uppi við fyrstu sýn, er sett fram áskorun.
Setjum okkur það markmið næst að þessar heimæðar fari inn í rými sem hæfir þeim búnaði sem þar á að vera. Það á ekki að þekkjast eftirleiðis að tengi- og húsveitugrindur séu í þeim grottum sem á fínu tæknimáli eru kallaðar „skriðkjallarar“ en eru í rauninni ekkert annað en dauðagildrur.
Enn hafa ekki orðið slys í þessum grottum, sem enn þann dag í dag eru samþykktar af öllum yfirvöldum, hvort sem það eru bygginganefndir og byggingafulltrúar, slökkvilið, brunamálstofnun og svo mætti lengi telja.
Setjum okkur það markvið að fleiri slíkar dauðagildrur verði ekki samþykktar. En því miður virðist það vera árátta okkar hérlendis að vakna ekki fyrr en barnið er dottið í brunninn. En aftur þakkir til Orkuveitu Reykjavíkur fyrir merkt framtak, framtak sem er stórt framfaraspor í lagnamálum.