Úrgangur – Verðmæt næringaefni

Grein/Linkur: Verðmæt næringarefni fara inn í hringrásarhagkerfið

Höfundur:  Sigurður Már Harðarson

Heimild: 

.

Jarðgerðarstöðin GAJA í Álfsnesi sem Sorpa bs. rekur. Jóhannes gerir ráð fyrir því að stór hluti af þeim lífræna úrgangi sem hefur verið urðaður, fari í gegnum Jarðgerðarstöðina GAJA í Álfsnesi, einnig víða að frá landsbyggðinni. Miklu máli skiptir að lífúrgangi sé sérsafnað því óhreinni úrgangur getur mengað moltuna. Mynd / Sorpa

.

Janúar 2023

Verðmæt næringarefni fara inn í hringrásarhagkerfið

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Bann við urðun á niðurbrjótanlegum úrgangi tók gildi hér á landi 1. janúar síðastliðinn. Frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra þess efnis var samþykkt á vorþingi 2021.

Hin nýja löggjöf er innleiðing Evróputilskipana frá 2018 sem eiga að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis. Þær tilskipanir kveða meðal annars á um sérsöfnun á lífrænum úrgangi, til að koma í veg fyrir að verðmæti í formi næringarefna hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur og til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Í nýju lögunum er hugtakið „líf­úrgangur“ notað um þann lífræna úrgang sem flokka þarf sérstaklega til moltugerðar. Lífúrgangur er þannig fyrst og fremst matar­ og eldhúsúrgangur, sem brotnað getur niður fyrir tilstilli örvera. Hugtakið „lífrænn úrgangur“ er víðfeðmara og nær yfir úrgangsflokka eins og timbur, húsdýraáburð, sláturúrgang, pappír, pappa og ýmislegt fleira sem ekki er lífúrgangur, en er einnig óheimilt að urða.fisstofnun. 

Fá sveitarfélög innleitt löggjöfina

Jóhannes B. Urbancic Tómasson, sérfræðingur á sviði loftslagsmála og græns samfélags hjá Umhverfisstofnun. Mynd / Aðsend

á sveitarfélög hafa innleitt lög­ gjöfina í sína sorphirðu. Þó hefur almenningi og lögaðilum verið skylt að flokka lífúrgang sérstaklega frá áramótum.

„Sveitarfélög eru um þessar mundir að innleiða nýjar flokkunar­ tunnur og það er við því að búast að það taki einhvern tíma. Þangað til það gerist höldum við auðvitað áfram að flokka úrgang í þær tunnur sem bjóðast eftir bestu getu. Við erum öll í þessu saman. Einhver sveitarfélög eru nú þegar langt komin eða jafnvel búin að innleiða nýjar flokkunartunnur sem er frábært. Önnur sveitarfélög eru að detta inn á næstu mánuðum en engin sveitarfélög ættu að vera mikið seinni en það. Nú eru flest sveitarfélög bara að bíða eftir tunnum,“ segir Jóhannes B. Urbancic Tómasson, sérfræðingur á sviði loftslagsmála og græns samfélags hjá Umhverfisstofnun.

Skylda sveitarfélaganna að ákveða fyrirkomulag söfnunar

„Aðkoma Umhverfisstofnunar er fyrst og fremst að greiða fyrir innleiðingu laganna. Við höfum gefið út handbók fyrir sveitarfélög um úrgangsmál og höldum uppi fræðslu fyrir almenning og fyrirtæki.
Umhverfisstofnun fer með eftirlit með framkvæmd laga um meðhöndlun úrgangs þannig að aðkoma okkar er líka í eftirfylgni með lögunum, ekki bara innleiðingunni,“ segir Jóhannes.

Hann játar því að almenningi sé óheimilt að henda lífúrgangi í óflokkaða ruslatunnu, en hvað ef engar tunnur eru í boði fyrir þennan úrgang í sveitarfélögum?

„Það er skylda sveitarfélaganna að ákveða fyrirkomulagið á söfnun úrgangsins í sveitarfélaginu og sjá um flutning heimilisúrgangs. Sveitarfélögin hafa sömuleiðis skyldu til að ná tölulegum markmiðum í úrgangsmálum, til dæmis hvað varðar að lágmarka urðun lífræns úrgangs og urðun heimilisúrgangs.

Svo bera sveitarfélögin ábyrgð á grettistaki í endurvinnslu heimilisúrgangs sem við ætlum að ná upp í 55 prósent árið 2025. Nú erum við á milli 25­30 prósent.“

Innleiðing á hringrásarhagkerfi

Að sögn Jóhannesar er forsendan fyrir lagabreytingunum að greiða fyrir innleiðingu hringrásarhagkerfis. „Breytingarnar hafa ýmsa aðra snertifleti eins og að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og vinna að sjálfbærni Íslands. Með því að farga úrgangi í stað þess að endurnýta hann tapast auðlindir sem annars væri hægt að nota. Þegar kemur að lífrænum úrgangi eru næringarefni og kolefni þær auðlindir sem er hægt að nýta áfram, til dæmis sem áburð, eldsneyti og moltu.

Með breytingunum færum við okkur í átt að því að úrgangsmál geti haft samverkandi áhrif með öðrum málaflokkum eins og orkumálum, loftslagsmálum, landgræðslu, skógrækt og landbúnaði.“

Farvegurinn fyrir hinn verðmæta úrgang

En hvað verður svo um allan þennan lífúrgang, sem hingað til hefur verið urðaður? Jóhannes segir að hann muni fara í endurvinnslu í gegnum jarðgerðarferli og metanvinnslu. „Ég geri ráð fyrir því að stór hluti af þessum úrgangi fari í gegnum Jarðgerðarstöðina GAJA í Álfsnesi, víða að frá landsbyggðinni líka. Svo eru fleiri stórar móttökustöðvar fyrir þennan úrgang, til dæmis á Akureyri.

Afurðirnar úr ferlinu eru yfirleitt molta og metangas. Hvað moltuna varðar þá skiptir miklu máli að lífúrgangi sé sérsafnað því óhreinni úrgangur getur mengað moltuna.

Það er strax komin fjölbreytt flóra fyrirtækja hér á Íslandi sem endurvinna úrgang í verðmætar vörur þrátt fyrir að sá vettvangur sé almennt frekar nýr á Íslandi. Metan er dæmi um það sem er unnið úr lífrænum úrgangi og mikil eftirspurn er eftir sem eldsneyti.

Við vinnum svo moltu sem er gagnlegur jarðvegsbætir og úti í hinum stóra heimi eru fyrirtæki sem ná fosfórnum úr lífrænum úrgangi til að vinna í fosfórríkan áburð. Ég held við munum sjá þennan vettvang vaxa og þroskast á næstu árum,“ segir hann og bætir við að í næsta innleiðingarpakka muni fosfór væntanlega verða skilgreindur sem þýðingarmikið hráefni sem verði bannað að sóa.

Nýjar flokkunarleiðbeiningar hafa verið gefnar út fyrir lífrænan úrgang. Hægt er að sækja þær í gegnum vefinn fenur.is. Mynd / fenur.is

Vandasamur úrgangur dýraafurða

Lagabreytingarnar sem tóku gildi 1. janúar hafa ekki í för með sér neina breytingu á því hvernig meðhöndla þarf dýrahræ og aukaafurðir úr dýrum sem eru ekki ætlaðar til manneldis. Eftir sem áður verður óheimilt að urða þennan úrgang, en Jóhannes telur að staðan í þeim málum sé ekki nógu góð.

Úrgangur sem fellur til hjá sláturleyfishöfum, kjöt­ og fisk­ vinnslum er staðbundinn, einsleitur að samsetningu og yfirleitt í miklu magni. Jóhannes segir að þess vegna sé að vissu leyti auðveldara að meðhöndla hann.

Það þurfi þó að huga sérstaklega að úrgangi frá dýraafurðum, enda séu takmörk á því hvernig megi nota hann vegna smitvarna.

„Þessum aðilum ber að flokka sinn úrgang og sjá til þess að hann komist til viðeigandi meðhöndlunar í samræmi við forgangsröðun úrgangsþríhyrningsins þannig að komið sé í veg fyrir að úrgangur sé urðaður, en hann sé frekar endurunninn og að sem allra minnst endi í förgun. Það er ekkert nýtt þótt það hafi verið skerpt á því í nýlegum lagabreytingum. Því miður er staðan í þessum málaflokki ekki nógu góð því það fer talsvert magn af nothæfum úrgangi í urðun.“

Áhættuúrgangur aldrei að enda í urðun

„Það er aðeins mismunandi hver réttur farvegur fyrir þennan úrgang er. Í flestum tilvikum er hægt að vinna nýjar afurðir úr aukaafurðum dýra hvort sem það er kjötmjöl, fóður, eldsneyti eða aðrar vörur.

Undantekningartilvikin eru áhættuúrgangur sem kemur frá dýrum, til dæmis smitandi dýr, sjálfdauð dýr, gæludýr og allur heila- og mænuvefur. Áhættuúrgangur þarf að fara í brennslu eða þrýstisæfingu, sem er sótthreinsun undir þrýstingi. Þessi úrgangur ætti aldrei að enda ómeðhöndlaður í urðun,“ segir Jóhannes.

„Búfjárskítur er ekki tekinn sérstaklega fyrir í nýju reglunum. Um hann gilda sömu lögmál og um aðrar aukaafurðir dýra, við eigum að leita leiða til að koma þeim í sem besta nýtingu þannig að ekki sé hætta á að heilsa eða umhverfi verði fyrir skaða,“ segir Jóhannes enn fremur um lífrænan úrgang frá landbúnaðinum.

Aðilar bera sjálfir mengunarkostnaðinn

Ætla má að breytingin á fyrirkomulagi sorphirðu sé kostnaðarsöm, en hverjir munu bera þann kostnað? „Það má segja að kostnaðurinn við breytingarnar sé tvískiptur. Annars vegar er það innleiðingin, eins og að skipta um tunnur, setja upp endurvinnslufarvegi og fleira í þeim dúr. Sá kostnaður fellur að miklu leyti á sveitarfélögin,“ segir Jóhannes.

„Hins vegar mun kostnaðarskipting í úrgangsmeðhöndlun breytast til frambúðar með nýju lögunum. Það má segja að kjarninn í breytingunum sé mengunarbótareglan (polluter pays principle) sem felur í sér að aðilar bera kostnað af þeirri mengun sem þeir valda.

Með breytingunum munu sveitarfélögin þurfa að aðlaga sínar gjaldskrár þannig að þau innheimti sem næst raunkostnaði fyrir meðhöndlun úrgangs.

Þannig verður sveitarfélögum ekki heimilt nema að vissu marki að niðurgreiða urðun á úrgangi eins og hefur tíðkast. En urðun er óumhverfisvæn og kostnaðarsöm, en því miður algeng. Í staðinn geta heimili og fyrirtæki sparað sér talsverða peninga með því að lágmarka þann úrgang sem fellur til hjá þeim og með því að koma endurvinnsluefnum í endurvinnslufarveg.“

Rík eftirlitsskylda Umhverfisstofnunar

Sem fyrr segir hafa lögin sem um ræðir nú þegar tekið gildi. En hvaða stofnanir bera ábyrgð á því að farið sé að lögum? „Eftirlit með framkvæmd laganna er margvíslegt og dreift.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga annast eftirlit með meðhöndlun á úrgangi og með atvinnurekstri sem sveitarfélögin gefa út starfsleyfi fyrir, en Umhverfisstofnun fer með eftirlit með rekstri þeirrar starfsemi sem stofnunin gefur út starfsleyfi fyrir. Umhverfisstofnun fer með eftirlit með því að sveitarfélög setji sér svæðisáætlanir og leggur mat á hvort áætlanirnar séu í samræmi við lög og reglugerðir. Auk þess fer stofnunin líka með eftirlit með ýmsum vöruflokkum eins og rafhlöðum og rafgeymum, raftækjum og rafeindaúrgangi sem skiptir sérstöku máli að leiti í réttan úrgangsfarveg.

Úrvinnslusjóður og Skatturinn sinna eftirliti með innflutningi og markaðssetningu plastvara. Annað tilfallandi eftirlit með lögunum er svo í höndum Umhverfisstofnunar,“ segir Jóhannes að lokum.

Fleira áhugavert: