Heimsþing um salerni – Almenningssalerni Kína

Grein/Linkur: Heimsþing um salerni haldið í Kína

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Ágúst 2005

Heimsþing um salerni haldið í Kína

Árið 2004 var haldin merk ráðstefna í höfuðborg Kína, Beijing, sem hérlendis hefur lengst af gengið undir nafninu Peking og vissulega er sá ritháttur jafngildur, hvorutveggja eru nöfnin jafn langt frá þeim kínverska. Samkvæmt íslenskum framburði ættum við raunar að skrifa nafn borgarinnar Beitsjing, höldum okkur við það.

En hvað um það, ráðstefnan hét „Heimsþingið 2004 um salerni“. Þangað lögðu leið sína um 150 einstaklingar frá 19 þjóðum. Þar voru mættir skipulagsfræðingar borga, lagnamenn, sérfræðingar á sviði heilbrigðismála auk fjölmargra annarra sérfræðinga. Aðalefni ráðstefnunnar var opinber salerni, sem víða eru vandamál og ekki að ástæðulausu að ráðstefnan var haldin í Beitsjing.

Þarna var rætt um hvernig opinber salerni tengjast skipulagi borga, um staðla sem eru nauðsynlegir í þessu sem öðru, og einnig um margs konar félagslegar þarfir og vandamál viðkomandi almenningssalernum. Fjölmargir fyrirlestrar voru haldnir og var sérstaklega tekið eftir því sem einn ágætur maður að nafni Seok-Nam Gang frá „Kóreusamtökunum um hrein salerni“ sagði, en hann ræddi málin frá sjónarhóli ferðamanna, sem víða um heim lenda í margs konar hremmingum vegna lélegra opinberra salerna. Vegna þess hve Íslendingar þroskast seint af flissaldrinum þegar klósettþarfir ber á góma, skal tekið fram að þessi pistill er púrasta alvara, en auðvitað má hver og einn flíra svo sem honum sýnist ef þörfin vaknar.

Árið 2008 verða Ólympíuleikarnir haldnir í Beitsjing eins og flestum mun vera kunnugt. Kínverjar leggja gífurlega áherslu á þennan stóratburð, sem er ekki aðeins mesta íþróttahátíð heimsins, heldur eru Ólympíuleikar nútímans menningarhátíð þar sem gestgjafar hverju sinni leggja allt í sölurnar til að kynna sína menningu og þjóðlegan mátt. Ekki síst þegar þjóð eins og Kínverjar á í hlut og er að krefjast alþjóðlegrar viðurkenningar sem ein af forystuþjóðum heimsins eftir að hafa verið lengi úti á kanti sem tröðkuð nýlenda og seinna í heljargreipum pólitísks rétttrúnaðar.

Flest á víðavangi

Almenningssalerni í Beitsjing, höfuðborg Kína, eru einföld en æði frábrugðin því sem þekkist á Vesturlöndum.

Almenningssalerni í Beitsjing, höfuðborg Kína, eru einföld en æði frábrugðin því sem þekkist á Vesturlöndum.

eru til almenningssalerni í Beitsjing en þau eru talsvert öðruvísi en þau sem þekkjast hér á Vesturlöndum. Flest eru á víðavangi, ekki í húsum, og þar verða menn og konur að sitja á hækjum sínum, ekkert rennandi vatn, þaðan af síður pappír eða möguleikar á nokkurskonar þvotti. Reyndar er því haldið fram að ef Kínverjar verða svo forframaðir að fara að dæmi okkar í hinum svokallaða siðmenntaða heimi og tækju allir upp á því að nota klósettpappír, mundu skógar heimsins engan veginn bera þá byrði að framleiða það hráefni sem til þyrfti.

En undirbúningurinn fyrir Ólympíuleikana er í fullum gangi í Beitsjing og þá liggur í augum uppi að það er eins og krækiber á vondum stað þær litlu 400 milljónir króna, eða jafnvirði þeirra, sem í þeirri borg hefur verið varið í almenningssalerni síðustu fimmtán árin fyrir aldamót.

Nú á að bretta upp ermar og láta verkin tala því Kínverjar vita það vel að ekki hvað síst verða þeir dæmdir fyrir sín almenningssalerni þegar gestir flykkjast til borgarinnar á þessa stórhátíð. Það er nú einu sinni þannig að þetta er eitthvað sem enginn kemst undan að þurfa að gera daglega hvort sem menn eru kóngar eða kennimenn eða þá eitthvað allt annað; sem sagt að ganga örna sinna. Eftir að ákveðið var að Beitsjing skyldi vera vettvangur Ólympíuleikanna árið 2008 hafa borgaryfirvöld hrundið af stað áætlun um uppbyggingu almenningssalerna. Þegar hafa 700 slík verið byggð og þá eftir vestrænni fyrirmynd og ætlunin er að til viðbótar komi ekki færri en á þriðja þúsund fyrir hátíðina miklu. Þar við bætist að þrýstingur er settur á þá sem reka veitingahús að hver og einn bæti um betur í sínum ranni. Gefnar hafa verið út staðlar um búnað og verða almenningssalerni í Beitsjing flokkuð á sama hátt og bragðlaukasérfræðingar íslenskir flokka veitingahús, nýju salernin fá eina til fjórar stjörnur.

Fjórar stjörnur fá þau sem eru með steingólfi, snertingarlausum blöndunartækjum og sjálfvirkum rafhituðum handþurrkum. Enn sem komið er hafa aðeins 88 almenningssalerni í Beitsjing náð fjórum stjörnum, en samkvæmt dugnaði og framkvæmdagleði austur þar kunna þau að vera orðin umtalsvert fleiri þegar þessi tala dettur á skjáinn.

Borgaryfirvöldum er greinilega ljóst að Vesturlandabúar, hvort sem þeir eru frá Íslandi eða öðrum löndum í þeim heimshluta, láta líklega ekki bjóða sér að setjast á hækjur í röð á gangstétt jafnvel þó félagsskapurinn sé ágætur, alþjóðlegur og af báðum kynjum.

Fleira áhugavert: