Áhrif frið­unar vatna­sviða – Lög­mæt skoðun fag­hópa

Grein/Linkur: Ráðuneytið tekur ekki undir með Landsvirkjun

Höfundur: Sunna Ósk Logadóttir Kjarnanum

Heimild:

.

Efsti hluti Þjórsár yrði virkjaður yrði Kjalölduveita að veruleika. SKJÁSKOT/LANDSVIRKJUN

.

Mars 2022

Ráðuneytið tekur ekki undir með Landsvirkjun

Umhverfisráðuneytið telur það rangt sem Landsvirkjun heldur fram að Kjalölduveitu hafi verið raðað „beint í verndarflokk“ rammaáætlunar án umfjöllunar. Þá telur það verndun heilla vatnasviða, sem Landsvirkjun hefur gagnrýnt, standast lög.

Umhverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðu­neytið tekur ekki undir þá afstöðu Lands­virkj­unar að ákvörðun verk­efn­is­stjórnar 3. áfanga ramma­á­ætl­unar hvað varðar virkj­un­ar­kost­inn Kjalöldu­veitu hafi verið ólög­mæt. Telur ráðu­neytið full­yrð­ingar fyr­ir­tæk­is­ins, sem fram eru settar í umsögn við þings­á­lykt­un­ar­til­lögu að ramma­á­ætl­un, um að Kjalöldu­veita hafi ekki fengið „lög­mæta skoðun fag­hópa“, ekki stand­ast skoð­un. Þar af leiði séu full­yrð­ingar Lands­virkj­unar um að stjórnin hafi ákveðið „ein­hliða að ekki skyldi fjallað um virkj­un­ar­kost­inn“ og að honum hafi verið „raðað beint í vernd­ar­flokk án umfjöll­unar fag­hópa“ einnig rang­ar. Að mati ráðu­neyt­is­ins hlaut virkj­un­ar­kost­ur­inn full­nægj­andi umfjöll­un.

Þings­á­lykt­un­ar­til­laga að þriðja áfanga ramma­á­ætl­unar er nú komin til þing­legrar með­ferðar í fjórða sinn á rúm­lega fimm árum. Núgild­andi ramma­á­ætl­un, þar sem virkj­ana­hug­myndir eru flokk­aðar í nýt­ing­ar-, bið- og vernd­ar­flokk, er frá árinu 2013 og er því orðin níu ára göm­ul. Verk­efn­is­stjórnir næstu tveggja áfanga hafa lokið störfum og stjórn þess fimmta þegar hafið störf.

Í stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórnar Vinstri grænna, Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæð­is­flokks er að finna lof­orð um að lokið verði við þriðja áfang­ann. Því er hins vegar bætt við í sömu setn­ingu að fjölga eigi kostum í bið­flokki. Hægt er að hreyfa við flokk­un­inni svo lengi sem Orku­stofnun hefur ekki gefið út virkj­ana­leyfi fyrir kosti í nýt­ing­ar­flokki eða svæði í vernd­ar­flokki hafi verið frið­lýst.

Um 80 kostir í jarð­varma, vatns­afli og vind­orku eru flokk­aðir í þrennt í til­lög­unni sem nú er til umfjöll­unar í umhverf­is- og sam­göngu­nefnd Alþing­is, og byggir hún alfarið á nið­ur­stöðu verk­efn­is­stjórnar áætl­un­ar­innar sem skil­aði af sér loka­skýrslu í ágúst árið 2016.

Lands­virkjun telur hins vegar ákvörðun verk­efn­is­stjórn­ar­innar um að raða Kjalöldu­veitu í vernd­ar­flokk ekki í sam­ræmi við lög. Stjórnin hafi tekið stjórn­valds­á­kvörðun sem hún er ekki bær að lögum til að taka með því að raða kost­inum „beint í vernd­ar­flokk án umfjöll­unar fag­hópa“. Var það gert á þeim rökum að Kjalöldu­veita væri breytt útfærsla Norð­linga­öldu­veitu sem væri þegar í vernd­ar­flokki, að sama vatna­svið, Þjórs­ár­ver, væri undir í báðum til­vik­um.

Lands­virkjun óskar eftir því að Kjalöldu verði raðað í bið­flokk í með­förum Alþing­is.

Fjallað um kost­inn sam­kvæmt vel skil­greindri aðferða­fræði

Nú um miðjan mars var óskað eftir afstöðu umhverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðu­neyt­is­ins til tveggja kafla í umsögn Lands­virkj­unar við þings­á­lykt­un­ar­til­lög­una. Ann­ars vegar um að afmörkun land­svæða væri ekki í sam­ræmi við lög og hins vegar um lög­mæti ákvörð­unar verk­efn­is­stjórnar um flokkun Kjalöldu­veitu.

Hvað varðar það síð­ar­nefnda rök­styður ráðu­neytið svar sitt, sem birt hefur verið á vef Alþingis, m.a. með vísan til bréfa for­manna fag­hópa verk­efn­is­stjórn­ar­innar frá árinu 2015. Þar kemur fram að þeir hafi tekið Kjalöldu til umfjöll­unar og metið hann sam­kvæmt við­ur­kenndri og vel skil­greindri aðferða­fræði. Rifjað er upp að fjöldi virkj­un­ar­kosta sem Orku­stofnun sendi verk­efn­is­stjórn­inni til umfjöll­unar hafi verið slíkur að hvorki tími né fjár­hagur hefðu nægt til að fjalla um þá alla.

Verk­efn­is­stjórnin óskaði hins vegar eftir því að fag­hóp­arnir legðu mat á hvort líta bæri á Kjalöldu­veitu sem nýjan kost eða hvort þar væri fyrst og fremst um að ræða nýja útfærslu á Norð­linga­öldu­veitu.

Fag­hóp­arnir fóru yfir þau gögn sem fylgdu Kjalöldu­veitu, hver út frá sinni aðferða­fræði og skil­uðu að þeirri með­ferð lok­inni nið­ur­stöðum sínum til verk­efn­is­stjórn­ar.

„Í ljósi ofan­greinds og fyr­ir­liggj­andi gagna getur ráðu­neytið ekki tekið undir þá afstöðu Lands­virkj­unar að ákvörðun verk­efn­is­stjórnar hvað varðar Kjalöldu­veitu hafi verið ólög­mæt.“

Víð­tæk áhrif frið­unar vatna­sviða

Í umsögn Lands­virkj­unar um til­lögu að ramma­á­ætlun 3 kemur einnig fram að fyr­ir­tækið telji verk­efn­is­stjórn­ina ekki hafa heim­ild til að setja heil vatna­svið í vernd­ar­flokk og þar með alla virkj­un­ar­kosti á við­kom­andi vatna­sviði eins og gert var varð­andi kosti fyr­ir­tæk­is­ins í Skjálf­anda­fljóti ann­ars vegar og í Skaga­firði hins veg­ar. Þegar virkj­un­ar­hug­mynd­irnar voru hann­aðar og lagðar inn í ramma­á­ætlun hafi ekki verið gert ráð fyrir að áhrifin yrðu svo víð­tæk. Gera verði kröfu um að ákvarð­anir sem hafa slík áhrif séu byggðar á skýrum laga­á­kvæð­um.

Hrafnabjargafoss í Skjálfandafljóti. Mynd: Landvernd

Hrafnabjargafoss í Skjálfandafljóti. Mynd: Landvernd

Ráðu­neytið bendir á í svari sínu að sam­kvæmt lögum um vernd­ar- og orku­nýt­ing­ar­á­ætlun sé það hlut­verk verk­efn­is­stjórnar að vinna drög að til­lögum um flokkun virkj­un­ar­kosta og afmörkun virkj­un­ar- og vernd­ar­svæða í sam­ræmi við flokk­un­ina. Þá segi einnig í lög­unum að verk­efn­is­stjórn fjalli um virkj­un­ar­kosti og þau land­svæði sem við­kom­andi virkj­un­ar­kostir hafa áhrif á að hennar mati. „Það kemur því skýrt fram í lög­unum að það er verk­efn­is­stjórnar að meta hvaða land­svæði virkj­un­ar­kostur hefur áhrif á og gera til­lögur að afmörkun virkj­un­ar- og vernd­ar­svæða,“ segir í svari ráðu­neyt­is­ins sem vísar m.a. í grein­ar­gerð frum­varps­ins þar sem segir að virkj­un­ar­svæði í vatns­afli mið­ist almennt við allt vatna­svið fall­vatns­ins ofan þeirrar virkj­unar sem nýtir fallið neðan virkj­unar en að hins vegar kemur til álita að vernda heil vatna­svið.

„Verk­efn­is­stjórnin hefur því heim­ildir til að afmarka svæðin eins og hún telur nauð­syn­legt, þ.m.t. heil vatna­svið eða vatna­svið að hluta og leggja til að þau svæði verði sett í vernd­ar­flokk,“ segir í svari umhverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðu­neyt­is­ins. „Með vísan til ofan­greinds getur ráðu­neytið ekki tekið undir það mat Lands­virkj­unar að afmörkun land­svæð­anna sé ekki í sam­ræmi við lög um vernd­ar- og orku­nýt­ing­ar­á­ætl­un.“

Þeir virkj­ana­kostir sem Lands­virkjun áformar að virkja næst eru allir í nýt­ing­ar­flokki sam­kvæmt núgild­andi ramma­á­ætl­un. Þetta eru Hvamms­virkjun í Þjórsá (93 MW), virkj­anir á veitu­leið Blöndu (28 MW) og stækkun Þeista­reykja­virkj­un­ar.

Fleira áhugavert: