Minjar, hugsjónamenn – Sagan sem glatast

Grein/Linkur:  Hugsjónamenn og sagan sem glatast

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:

.

.

Júlí 2006

Hugsjónamenn og sagan sem glatast

Þeir voru uppi á síðustu öld og létu svo sannarlega til sín taka í íslensku samfélagi. Þó skoðanir þeirra væru eins ólíkar og hugsast gat áttu þeir samt sömu hugsjón. Annar var merkisberi kapítalismans og forystumaður einkaframtaksins, hinn var sósíalisti eða líklega einn af fáum ekta kommúnistum sem þetta land hefur fóstrað. Báðir höfðu þeir brennandi áhuga á framförum og vildu lyfta frumstæðum atvinnuvegum á hærra plan, en að sjálfsögðu eftir gjörólíkum leiðum.

En hver var þá þessi sameiginlega hugsjón sem þessir merkismenn, þeir Thor Jensen og Einar Olgeirsson, áttu? Báðir gerðu sér grein fyrir því að ein af undirstöðum bættrar heilsu og þróttar íslenskrar þjóðar var bætt mataræði og báðir höfðu þeir trú á að þar væri mjólkin einn mikilvægasti hlekkurinn. Hvorugur hafði trú á því að hokurbúskapur til sveita gæti tryggt almenningi hollt viðurværi. Þessi sameiginlega hugsjón þeirra var stórbúskapur sem meira líktist fyrirtækjarekstri, báða dreymdi um að byggja mörg hundruð kúa fjós. Thor Jensen kom hugsjón sinni í framkvæmd, hann byggði Korpúlfsstaði í Mosfellssveit og rak þar stórbýli í mörg ár.

Einari Olgeirssyni tókst ekki að sjá hið mikla samyrkjubú í Flóanum verða að veruleika. Kýrnar áttu að vera ekki færri en tvö þúsund í því fjósi. Þegar hann lýsti þessari hugsjón sinni með sinni leiftrandi mælsku lá við að hver sem á hann hlýddi sæi þetta stórvirka samyrkjubú og bændurna sem komu frá bæjum sínum og stóðu vaktir, en áttu þess á milli dágóðar frístundir með fjölskyldum sínum.

En víkjum aftur að Korpúlfsstöðum. Þar skyldi hreinlæti og hollusta sitja í fyrirrúmi, þess vegna varð að vera hægt að þvo og nánast sótthreinsa öll áhöld og ílát. Thor Jensen flutti inn ágætan gufuketil frá Danmörku sem settur var upp á Korpúlfsstöðum og með gufunni frá honum var þvottur mjólkuríláta leikur einn. En árið 1934 voru Mjólkursölulögin sett og fór þá að fjara undan rekstri 300 kúa fjóssins á Korpúlfsstöðum. Reykjavíkurborg eignaðist síðan Korpúlfsstaði og rak þar nokkurn búskap fram til 1970.

En fyrir miðja öldina var hætt að nota gufuketilinn og hefði þá mátt ætla að hans biði ekki annað en að fara í brotajárn. En þá var enn einn hugsjónamaður, Arnljótur Guðmundsson lögfræðingur, að undirbúa stofnun fyrirtækis í Kópavogi og hóf hann þar byggingu húss við Fossvoginn 1951. Þess má geta að faðir Arnljótar skildi eftir sig djúp spor í íslensku samfélagi. Guðmundur Hannesson var virtur læknir en einnig forgöngumaður um skipulag byggðar á Íslandi og um skeið formaður Byggingarnefndar Reykjavíkurborgar og réði þar því sem hann vildi.

Í Kópavogi reis síðan fyrirtækið Kjöt & rengi sem flutti á markað hvalkjöt, sauð og súrsaði rengi. Þess má geta að þá var lambakjöt ávallt uppurið á útmánuðum og kjöthungur mikið þegar hvalvertíðin byrjaði á vorin. Var þá nánast slegist um fyrstu hvalkjötsbitana. En til að sjóða rengið þurfti mikla varmaorku og keypti því Arnljótur gufuketilinn á Korpúlfsstöðum og fluttu húskarlar hans ferlíkið með ærinni fyrirhöfn í Kópavog. Þar stóð þessi ágæti gufuketill vaktina í nokkur ár og frá honum streymdi gufa í geysistóran pott sem var fylltur af rengi og vatni. Og þar bullaði og sauð, rengið var síðan kælt og lagt í mjólkursýru og þar með varð til súrsað rengi. Því heiti hafa seinni tíma skemmdarverkamenn íslenskrar tungu útrýmt og nú heitir þetta ljúfmeti ónefninu „súr hvalur“. Verra er þó að ofstækismenn allra landa hafa sameinast og bannað nær alfarið að þetta hollmeti, hvalkjöt og súrsað rengi, standi landsmönnum til boða.

Enn stendur húsið sem Arnljótur byggði yfir fyrirtæki sitt Kjöt & rengi. Það fyrirtæki er að vísu ekki til lengur en þróaðist áfram sem mikilvirkt framleiðslufyrirtæki í matvælaiðnaði undir nafninu ORA.

Sem dæmi um ágæta framleiðslu þess fyrirtækis má nefna að Íslendingar um heim allan geta tæplega lagt sér hangikjöt til munns nema með fylgi ORA grænar baunir.

Fyrir nokkrum árum var grennslast fyrir hvort gufuketill þeirra Thors og Arnljótar stæði enn í gamla húsinu sem hýsti Kjöt & rengi á sínum tíma. En því miður var það um seinan, gufuketillinn sem átti svo merka sögu var horfinn í gin malarans sem malar járn ár og síð.

Fleira áhugavert: