Orka, sagan 2009 – Eftirspurn, spár
Grein/Linkur: Töfrakanínan NGL
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Febrúar 2009
Töfrakanínan NGL
Kannski er Orkubloggið þrjóskan uppmáluð – að vera sannfært um að enn sé tæknilega unnt að auka olíuframleiðslu í heiminum verulega. Við verðum vissulega að vera raunsæ. Og kannski varast of mikla bjartsýni í þessum efnum.
Alþjóða orkustofnunin (International Energy Agency; IEA) spáir því að árið 2030 muni mannkynið framleiða 106 milljón tunnur af olíu á dag. Á öðrum stað í nýjustu ársskýrslu þeirra, er reyndar talað um 104 milljón tunnur. Þannig að eitthvað eru þeir reikulir blessaðir. En þetta yrði u.þ.b. 20-25% framleiðsluaukning á þessum rétt rúmu 20 árum.
Innan IEA er líka eitthvað rugl í gangi með það hversu mikil olía var framleidd í heiminum á síðasta ári. Í skýrslu sinni tala þau ýmist um að framleiðslan á liðnu ári hafi verið 85 milljónir eða 86 milljónir tunna á dag. Reyndar má kannski segja að báðar tölurnar séu réttar. Af því líklega var framleiðsla ársins u.þ.b. 85,5 milljón tunnur pr. dag. Orkublogginu leiðist of mikil smámunasemi – og finnst sjálfsagt að rúnna tölur að vild. En það fer samt ofurlítið i taugarnar á blogginu að sjá hann Faith Birol og ljúflingana hans hjá spáteymi IEA svona ósamstæða í tölfræðinni sinni.
Hvað um það Olíuframleiðslan 2008 var sem sagt u.þ.b. 85-86 milljón tunnur á dag. Þá er átt við alla olíuframleiðslu. Og samkvæmt spá IEA mun olíuframleiðslan aukast í 104-106 milljón tunnur pr. dag, áður en árið 2030 rennur upp. Sem jafngildir því, að framleiðslan aukist að meðaltali innan við 1% á ári og samtals um 20-25% á tímabilinu.
Aukin olíuframleiðsla er auðvitað ekki bara í gamni gerð. Heldur kemur hún einfaldlega til vegna aukinnar eftirspurnar eftir olíu. Gert er ráð fyrir að þessi aukna eftirspurn komi að langmestu leyti frá löndum Asíu. Og þar eiga Kína og Indland bróðurpartinn. Þjóðirnar í Mið-Austurlöndum eru einnig ungar og stækka hratt og þess vegna mun olíunotkunin þar líka vaxa mikið. Sbr. myndin hér að neðan.
Aftur á móti gerir IEA ráð fyri því að olíueftirspurnin á Vestrulöndum hafi þegar náð hámarki. Og fari á næstu áratugum minnkandi – bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Já – líka í Bandaríkjunum! Það er óneitanlega athyglisverð spá.
Danir og fáeinar aðrar þjóðar hafa vissulega sýnt fram á það, að eftirspurn eftir olíu í vestrænu ríki getur minnkað – jafnvel þrátt fyrir góðan vöxt í efnahagslífinu. En til að það geti gerst varanlega í Bandaríkjunum, þarf að verða töluverð breyting þar í landi. Í Bandaríkjunum hefur samdráttur í olíunotkun ætíð verið samtvinnaður við efnahagssamdrátt. Það væru talsverð tíðindi ef Bandaríkjunum tækist til framtíðar að hægja á olíunotkun sinni, þrátt fyrir jákvæðan hagvöxt í efnahagslífinu.
Það blasir m.ö.o. ekki alveg við, að slík spá geti ræst. En þetta er samt ekki útí hött. Í reynd hélst olíueftirspurnin þarna vestan hafs nokkuð stöðug í síðustu uppsveiflu; 2002-07. Þessu hefur verið furðanlega lítill gaumur gefinn. Og til eru þeir sem hreinlega neita að trúa því að það geti verið rétt; tölurnar hljóti að vera vitlausar eða að stórfellt smygl hafi verið stundað á olíu inn í Bandaríkin. Það sé hreinlega útilokað að eftirspurn eftir olíu í Bandaríkjunum hafi minnkað, á sama tíma og bandaríska þjóðin upplifði prýðilegan hagvöxt. Aldrei skortur á efasemdarmönnum. Hugsum ekki meira um það í bili.
Olíuframleiðslu er oftast skipt í fjóra mismunandi flokka: Í fyrsta lagi er hefðbundin hráolía, í öðru lagi óhefðbundin olía (eins og t.d. olía úr tjörusandi eða olíugrýti), í þriðja lagi olía unnin úr kolum, lífmassa eða úr gasi og loks í fjórða lagi NGL. Djúpvinnslan er líka stundum flokkuð sér og er þá fimmti flokkurinn.
Þegar tölur birtast um heildarframleiðslu á olíu, er sem sagt átt við þetta allt, en þar af er langstærstur hlutinn hefðbundin hráolía. En það er einmitt sú framleiðsla sem líkleg er til að standa í stað eða jafnvel minnka umtalsvert á næstu árum.
Þetta er olían, sem hefur verið ódýrt að sækja. Það er orðið æ erfiðara og dýrara að finna nýjar olíulindir og vinna olíuna þar. Þess vegna tala nú margir mætir menn í bransanum um það, að höfum náð the end of cheap oil.
Það þarf enga peak-oil svartsýnimenn til að spá því. Miklu fremur bara raunsæismenn. Verst að raunsæismennirnir hafa sumir misst sigurglottið, nú eftir að olíuverðið snarféll á ný. Bölmóðarnir voru a.m.k. aðeins sperrtari í fyrrasumar, þegar verðið æddi langt yfir 100 dollara tunnan.
En hversu raunsæ er spá IEA? Í fljótu bragði mætti ætla að lítið vandamál verði að auka olíuframleiðslu um 20-25% á þessu tímabili fram til 2030. Sem fyrr segir er þetta einungis aukning upp á minna en 1% ár ári. Með því að ráðast á ný svæði, ætti þetta að verða tiltölulega auðsótt mál.
En sett í annað samhengi, þá er þetta talsvert mikil aukning. Viðbót upp á 20 milljón tunnur pr. dag samsvarar ca. tvöfaldri framleiðslugetu Sádanna. Framleiðsla þeirra Ali Al-Naimi og félaga í dag er um 7,7 milljón tunnur, en framleiðslugeta þeirra er mun meiri; líklega um 10-11 milljón tunnur.
Það þarf sem sagt að bæta tveimur Saudi Arabíum við til að ná að auka framleiðsluna um 20 milljón tunnur. Og þótt það takist skal minnt á að olíuframleiðsla Sádanna er einhver sú ódýrasta í heimi. Er mest öll í því lagi olíupýramídans, sem gefur mestu orku m.v. kostnað. Nýja framleiðslan mun aftur á móti langmest verða í neðsta laginu – þar sem kostnaðurinn er mestur. Þetta er einmitt aðalástæða þess að olíuverð mun fara hækkandi – til lengri tíma litið.
Og það þarf ekki bara að bæta við þessum „skitnu“ 20 milljón tunnum. Margar stærstu olíulindir heims fara hnignandi. T.d. í Alaska, Rússlandi, Norðursjó og víða í Mið-Austurlöndum. Árið 2030 gerir IEA ráð fyrir því að núverandi lindir muni ekki skila 85-86 milljónum tunna af olíu, heldur einungis u.þ.b. helmingnum af því. Ca. 44-45 milljón tunnum. Þess vegna þarf að finna nýja framleiðslu upp á um 64 milljón tunnur daglega, til þess að geta aukið framleiðsluna í 106 milljón tunnur. Það þarf sem sagt að bæta heilum sex nýjum Saudi Arabíum við! Það er ekkert smáræði.
Eins og lesendur Orkubloggsins vita mætavel, þá eru nýjar Saudi-Arabíur ekki alveg á hverju strái. Þetta vita þeir ljúflingarnir hjá IEA líka. Og þess vegna spá þeir því, að hefðbundin olíuframleiðsla geti engan veginn staðið undir þessari aukningu á olíuframleiðslu. Hefðbundna framleiðslan sé nú u.þ.b. í hámarki og verði ekki aukin – ekki einu sinni þó að margar nýjar olíulindir eigi eftir að finnast. Það verði annars konar olíuvinnsla, sem muni standa undir framleiðsluaukningunni.
En hverjar eru þessar „nýju“ tegundir af olíuvinnslu? Spáin góða gerir ráð fyrir að djúpvinnslan muni skila einhverri aukningu. Einnig er þess vænst að ný tækni geti bætt nýtinguna í eldri olíulindum umtalsvert (s.k. EOR, sem stendur fyrir Enhanced Oil Recovery). En það þarf meira að koma til, svo unnt verði að mæta eftirspurninni. Töfra upp nýja kanínu úr olíuhattinum. Og það enga smákanínu, heldur digran og mikinn Eyrnalang.
Það sem mestu vonirnar eru bundnar við, til að heimurinn lendi ekki í olíunauð, er stóraukin framleiðsla á NGL. Það er grundvallaratriðið í spádómi IEA í World Energy Outlook 2008.
Á myndinni hér ofar i færslunni, sem sýnir spádóm IEA í WEO 2008, er NGL'ið gula gumsið. Bláa og ljósbláa stöffið er aftur á móti hefðbundin olíuvinnsla – og líka það sem litað er rautt, nema hvað sú olía er ennþá allsendis ófundin. Reyndar skýrir myndin sig sjálf og óþarfi að Orkubloggið sé að tyggja upp skýringar á henni.
NGL stendur fyrir Natural Gas Liquids. Er sem sagt fljótandi gas. En þó ekki sama og LNG (Ligufied Natural Gas). Hið síðarnefnda (LNG), er það þegar loftkenndu gasi – sem aðallega er metan – er með mikilli kælingu umbreytt í fljótandi gas. Til að minnka rúmmál gassins, svo unnt sé að flytja það með hagkvæmum hætti með sérhönnuðum skipum eða flutningalestum. Skipið hér til hliðar er einmitt hefðbundið LNG-flutningaskip.
NGL er aftur á móti öðru vísi og mun þyngri samsetning af kolvetni. Þetta sérstaka kolvetni er eins konar aukaafurð sem kemur upp í olíu- og gasvinnslu. Og það er flokkað með olíu eins og hvert annað fljótandi kolvetni.
Samkvæmt spá IEA mun framleiðsla á NGL aukast um helming fram til 2030. 100%! Úr 10 milljón tunnum á dag og í 20 milljónir tunna. Á þessu sama tímabili er gert ráð fyrir að heildarframleiðsla á olíu fari úr núverandi 85-86 milljón tunnum á dag í um 106 milljón tunnur. Heildaraukningin á allri olíuframleiðslu er sem sagt áætluð u.þ.b. 20 milljónir tunna og þar af eru 10 milljón tunnur af NGL.
En af hverju í ósköpunum ætti framleiðsla á NGL að aukast svo mikið á komandi árum og áratugum? Aukast um 100% á meðan heildarolíumagnið eykst einungis 20-25%. Það skýrist af því að spáð er mikilli aukningu í framleiðslu á gasi. Um 50% aukningu. Þeir hjá IEA álíta að aukin gasvinnsla muni leiða til þess að aðgangur að fljótandi náttúrulegu gasi (NGL) muni aukast ennþá meira.
En er þetta raunhæft? Orkubloggið finnur ekkert að því, að menn spái mikilli aukningu í gasframleiðslu. Olíuframleiðslan mun á næstu árum nær örugglega aukast hægar en heildareftirspurn eftir orku. Þess vegna mun eftirspurn eftir gasi vaxa – og það er ennþá nóg af gasi í jörðu. Og um leið og gasvinnslan eykst, eykst einnig framleiðsla á NGL. Spurningin er bara hversu mikið?
Til eru þeir, sem telja þessa spá um 100% framleiðsluaukningu á NGL, vera a.m.k. 30-50% ofáætlað. Þetta sé bara bjartsýnisrugl eða jafnvel hreint svindl hjá ljúflingunum þarna á skrifstofum IEA við Rue de la Fédération í París. Gert til þess eins að réttlæta spár um að heildarolíuframleiðsla geti ennþá aukist umtalsvert. Þetta sé jafnvel næstum jafn mikið svindl eins og fullyrðingar íslensku bankastjóranna í sumar sem leið, um öfluga eiginfjárstöðu og styrk bankanna! M.ö.o. þá hafi IEA ákveðið að redda málunum með því að spá ofboðslegri framleiðsluaukningu á NGL.
Orkubloggið ætlar að segja pass á það rifrildi. Rétt eins og Dabbi þagði um stórkostlegan vanda bankanna. Í reynd er auðvitað óvissan um olíuframleiðslu framtíðarinnar alger. Þetta eru meira og minna tómar getgátur. Getgátur manna, sem flestir virðast hafa tilhneigingu til að trúa því að heimurinn sé fullkomlega stöðugur en ekki óreiða.
Og skoði maður eldri spár IEA kemur í ljós að spáin um stórfellda aukningu NGL er hrein nýlunda. Og erfitt að átta sig á því hvað skyndilega réttlætir svo mikla hækkun á spádómum um þessa framleiðslu.
Öllu verra er kannski sú staðreynd, að langmest af þessari NGL-aukningu mun koma frá OPEC-ríkjunum. Áætlað er að a.m.k. 8 af þessari 10 milljón tunna aukningu á NGL-framleiðslunni komi frá OPEC. Það kann að vissulega að vera að NGL bjargi málunum í olíuframleiðslu framtíðarinnar. En þetta eru samt lítil gleðitíðindi fyrir Vesturlönd – og verður ekki til að redda málunum þar á bæ.
Niðurstaðan er, að sama hvort spáin um NGL-ævintýrið rætist eður ei, þá verða Vesturlönd ennþá háðari bæði olíu og gasi frá Mið-Austurlöndum og félögum þeirra í OPEC. Það eitt setur ennþá meiri þrýsting á að Vestrið finni nýjar leiðir í orkumálum. Einfalt mál.
Loks er vert að hafa í huga, að þeir Faith Barol og félagar hans hjá IEA virðast nota fremur lágan hnignunarstuðul yfir núverandi olíulindir. Virðast miða við u.þ.b. 4% meðaltalshnignun.
Það er mjög vandasamt að ákveða þennan stuðul. En hann skiptir miklu máli. Öllu máli. Án þess að rökstyðja það frekar, vill Orkubloggið segja að líklega væri nær að nota stuðul upp á a.m.k. 5% hnignun eða jafnvel hærri. Litlu olíulindirnar, sem hafa verið helsta undirstaða framleiðsluaukningar síðustu ár, eru fljótar að ná toppi og hnigna svo hratt. Það eru fáar klassískar og nánast eilífar fegurðardísir í bransanum. Eins og Ghawar! Eða Lena Olin.
Og ef hnignunarstuðullinn er hækkaður – þó ekki sé nema pínu pons – þá myndi framtíðarsýnin breytast nokkuð hressilega. Til hins verra.
Eins og sjá má hér á myndinni til hliðar – þar er miðað við 6,7% hnignun (fróðlegt að bera hana saman við myndina ofar í færslunni, þar sem líklega er notaður 4% hnignunarstuðull). Heildarframleiðslan á olíu næði þá ekki einu sinni að slefa í 100 milljón tunnur – þrátt fyrir alla aukninguna í óhefðbundinni olíuvinnslu! Þess vegna verður spáin hjá IEA væntanlega að teljast nokkuð bjartsýn, fremur en hitt.
En það voðalegasta af öllu er auðvitað hnignunarstuðull Orkubloggarans sjálfs. Einhver sem veit hvernig sigra má tímann? Það er líklega sá hinn sami og getur spáð rétt fyrir um þróun olíuverðs eða olíuframleiðslu.