Hitakerfi húsa – Að hverju þarf að huga?
Grein/Linkur: Nú reynir á hitakerfin
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Desember 2006
Nú reynir á hitakerfin
Það er ekki oft sem kuldagráðan nær tveggja stafa tölu í byggð hérlendis, í það minnsta ekki á sunnanverðu landinu. Norðlendingar, ekki síst þeir sem búa fremst í dölum, þekkja slíkan kulda betur og svo er að sjálfsögðu kaldara á slóðum Fjalla-Eyvindar og Höllu, ótrúlegt afrek að geta lifað vetrarlangt uppi á reginöræfum á þeim tíma.
En snúum okkur aftur að hitakerfum húsa, því það er einmitt í kuldatíð sem ýmsir vankantar koma í ljós, ónógur hiti eða ójafn. Það er ekki einkennilegt þó erfitt sé að koma húseigendum í skilning um eitt mikilvægt atriði, sem er jafnvægisstilling hitakerfa, þegar jafnvel sumum fagmönnum gengur erfiðlega að tileinka sér þetta hugtak.
En hvað er þá jafnvægisstilling? Rifjum upp gamla sögu um eitt merkilegasta verkfræðilega afrek Íslandssögunnar, sem reyndar var rifjuð upp í þessum pistlum á þessu ári, en það er Flóaáveitan. Fyrir einni öld heyjuðu bændur að sjálfsögðu á túnum sem þá voru takmörkuð við flesta bæi og oft á tíðum kargaþýfð svo ekki var hægt að nota annað en orf og ljá við slátt. Hins vegar báru menn áburð, sem var bæði afurð manna og dýra, á tún sín og þess vegna var heyfengur oft góður af litlum túnum og að sjálfsögðu var taðan besta fóðrið fyrir skepnurnar. En menn heyjuðu einnig á útengi, þar spratt störin oft sæmilega en þó hvergi betur en þar sem engjar lágu undir vatni á vetrum. Þess vegna var ráðist í stórvirkið Flóaáveituna, miklir skurðir grafnir um allan Flóa og vatni úr Hvítá veitt yfir allar engjar á haustin en hleypt af á vorin.
Og þá spratt störin margfalt á við það sem áður hafði verið.
En við þessa miklu framkvæmd varð til fyrsta lagnakerfið á Íslandi þar sem beitt var jafnvægisstillingu, nokkuð sem framsæknir menn eins og arabar í Mesópótamíu og márar á Spáni beittu fyrir mörgum öldum þegar þeir veittu takmörkuðu vatni á akra og aldingarða. Dönsku verkfræðingarnir, sem hönnuðu Flóaáveituna, þekktu galdur jafnvægisstillingar og notuðu sína þekkingu, annars hefði Flóaáveitan ekki orðið það tækniundur sem hún var. Þeir settu upp lokukerfi víðsvegar um Flóann sem tryggði að hver engjablettur fékk það vatn sem hann þurfti en ekkert umfram það. Þannig gjörnýttu þeir það takmarkaða vatn sem inntaksskurðurinn frá Hvítá veitti. En vatnsmagnið var útreiknað, skurðirnir grafnir mismunandi stórir eftir því vatnsmagni sem þeir áttu að flytja.
Þetta er nákvæmlega sama tækni og notuð er í öllum hitakerfum í dag. Það streymir ákveðið vatnsmagn inn í hitakerfið, en því þarf að miðla þannig að það renni hæfilegt vatnsmagn í hvern ofn, lítið inn í þann litla en meira inn í þann stóra.
En á þessu er því miður mikill misbrestur, það er of algengt að fagmenn fari frá nýlögnum án þess að setja punktinn yfir i-ið, án þess að jafnvægisstilla kerfið.
Hér er rétt að staldra við og skjóta inn svolitlu fróðleikskorni fyrir hinn almenna húseiganda og hans fólk. Jafnvægisstilling hefur ekkert að gera með stillinguna á haus ofnkranans þegar hækka skal hita eða lækka. Þær stillingar á húseigandinn að geta gert án þess að spilla á nokkurn hátt því að allir ofnar hitni. Jafnvægisstillingu á fagmaður að gera, það er föst stilling í ventlinum sem gerð er af mikilli nákvæmni í eitt skipti fyrir öll. Til jafnvægisstillingar þarf sérstakan búnað. Á flestum tegundum sjálfvirkra ofnloka, en ekki á Danfoss hitastýrðum ofnlokum, er búnaðurinn áfastur. Þrátt fyrir það verður sá sem stillir að vita nákvæmlega hvað hann er að gera, einhver handahófsstilling skilar sjaldnast þeim árangri sem skiptir sköpum.
Vonandi hefur hér tekist að skýra á nægilega einfaldan hátt hvað jafnvægisstilling hitakerfa er en ekki síður hve mikilvæg hún er til að kerfið virkri vel, til að keypt vatn sé nýtt eins og best verður á kosið og síðast en ekki síst; að góður og hæfilegur hiti sé hvarvetna í húsinu, að öllum líði vel og geti valið sér hitastig eftir eigin ósk hvort sem er í stofu, svefnherbergi eða á baði.
Við skulum ekki gleyma því að það er meira virði að búa við hitaþægindi en að seilast endalaust eftir því að spara vatn.
En eins og alltaf þarf að gera málið svolítið flóknara með frekari útskýringum. Það er mjög líklegt að í húsum, sem eru eldri en tuttugu ára og enn með upphaflegum búnaði, séu ekki ofnventlar á ofnum sem hægt er að jafnvægisstilla kerfin með þó þetta séu hitastýrðir ofnlokar. Ef þeir eru neðan á ofninum þá er það gamli góði retúrkraninn sem tekur mið af hita vatnsins sem út af ofninum rennur. Þessi gamli jálkur tryggir oftast að það sé hiti í öllum vistarverum en tekur nær ekkert tillit til hitasveiflna. Ef lokinn er að ofan við ofninn og tuttugu ára eða eldri er hann vísast ekki með búnaði til jafnvægisstillingar. Hér kemur einfalt en árangursríkt próf sem hver húseigandi getur gert heima hjá sér. Þetta á við hús sem eru með hitastýrðum ofnloka á innrennsli ofnsins.
Hækkið stillingu við alla ofna á haus ofnlokans, setjið á efstu stillingu og látið hana vera óbreytta í hálfa klukkustund hið minnsta. Gangið þá að öllum ofnum og takið á útrennslisröri frá hverjum ofni.
Hvað kemur í ljós? Ef öll útrennslisrörin eru álíka heit er það vísbending um að kerfið sé jafnvægisstillt. En ef það er mikill munur á hita útrennslisröranna þá þarf að grípa til aðgerða. Takið sérstaklega eftir því hvort útrennsli af litlu ofnunum er heitara en af þeim stóru.