Hús hitun hér áður fyrr?

Heimild: 

.

Desember 1995

Í skammdeginu

Heita vatnið og rafmagnið eru orðin þægindi sem við munum ekki eftir og tökum ekki eftir. Þetta eru orðin svo sjálfsögð þægindi.

Þeir sem komnir eru yfir miðj an aldur muna tímana tvenna og efalaust hvarflar hugurinn hjá mörgum til bernskuáranna þegar jólahátíðin gengur í garð.

Flest þau þægindi sem umvefja okkur í dag voru óþekkt um síðustu aldamót og þó þetta harðbýla land væri þá sem nú forðabúr varmaorku var hún lítið nýtt. Einungis þar sem heita vatnið streymdi upp á yfirborðið, og var ekki of heitt, var það notað til þvotta en tæplega eða alls ekki til upphitunar.

Sú bylting sem orðið hefur í upphitun húsa hérlendis hefur nær öll gerst á síðustu fimmtíu árum og raunar var það ekki fyrr en á sjöunda áratugnum sem verulegur skriður komst á lagningu jarðvarmaveitna.

Hvað var til ráða áður fyrr?

Ekki er nokkur vafi á því að á fyrstu öldum byggðar í landinu hefur verið gengið freklega á skóga til að afla eldiviðar og sagan greinir víða frá hrístekju og kolagerð þar sem skórarnytjar voru. Snemma hafa átök og jafnvel mannavíg verið afleiðing árekstra og ósamkomulags um skóga.

En þó Ísland sé ungt jarðfræðilega séð geymdi mýrarjarðvegur í sér menjar gamalla skóga og kom það sér vel fyrir þá sem byggt hafa þetta land mann fram af manni í ellefu aldir eða meira.

Allt fram á þessa öld var mór notaður sem eldiviður og enn eru margir ofar moldu sem unnið hafa í mógröfum, þurrkað mó og brennt til matargerðar og hlýinda.

En einn besti og öruggasti eldiviður landsmanna var alla tíð skán eða sauðatað sem sumir nefna svo.

Sauðféð stóð við jötur og garða í fjárhúsum vetrarlangt og gerði öll sín stykki á gólfin og þegar voraði og sauðfé var sleppt í haga var hafist handa um að „að stinga skán“. Var til þess valinn þurr dagur í maí og gengu að því verki allir rólfærir. Þykkt skánarinnar var þá oft orðin skóflustunga, fullhraustir karlar stungu, liðléttingar báru út en konur klufu hvern köggul í á að giska 3-4 sm þykkar skánir og reistu þær hverja við aðra til þerris um velli við fjárhúsin.

Þegar skánirnar höfðu þornað var þeim staflað í hrauka og stundum þurfti að stafla og dreifa margsinnis því ekki tjóaði að láta rigna á þennan mikilvæga eldivið, hann varð að þorna vel til að brenna glatt.

Ekki er nokkur vafi á að sauðatað hefur verið hinn besti áburður en þarna varð að velja og hafna, það var brýn nauðsyn að eiga eitthvað til að kveikja upp í hlóðum eða eldavél á seinni tímum. Hins vegar var hrossatað og kúamykja notuð til áburðar að ógleymdum besta áburðinum en það var hlandforin, sjálfar afurðir mannfólksins í fljótandi og föstu formi.

Tímarnir breytast

Svo fóru kolin að flytjast til landsins og náðu þau mikilli útbreiðslu bæði til sjávar og sveita. Koks var nokkuð notað sem eldsneyti á heimilum, en koks er í raunninni kol sem hafa verið brennd að nokkru til að fá úr þeim gasið en það náði aldrei mikilli útbreiðslu. Gasstöð var reist í Reykjavík og féll þar til nokkuð af koksi. Hún stóð á horni Hverfisgötu og Rauðarárstígs þar sem nú er Lögreglustöðin. Gamla stílhreina húsið á horninu er einmitt síðustu leifar gasstöðvarinnar. Frá henni lágu dreifilagnir til húsa í nágrenninu og var gasstöðin ekki lögð niður fyrr en upp úr miðri tuttugustu öldinni.

Svo kom steinolían og síðar hráolían og var sú síðarnefnda langt komin með að útrýma kolum sem hitagjafa í hvers konar byggingum þegar Íslendingar loks tóku á sig rögg og fóru að virkja jarðvarmann sem mikill meirihluti þjóðarinnar býr við í dag. Þeir sem ekki eiga kost á jarðvarma hita flestir hús sín með rafmagni í einhverri mynd.

Þessu fylgdi aukin baðmenning bæði í heimahúsum og almennir sundstaðir eru nánast í hverri sveit og þá fóru vatnssalerni að leysa útikamra af hólmi.

Heita vatnið og rafmagnið eru orðin þægindi sem við munum ekki eftir og tökum ekki eftir, þetta er svo sjálfsögð þægindi. Við greiðum fyrir þessi gæði tiltölulega lágt verð víðast hvar og höfum því ekki af þessu neinar teljandi áhyggjur.

Það gefur okkur miklu rýmri tíma til að agnúast og rífast um aðra hluti sem okkur finnst miður fara, það er nú einu sinni árátta landans að hafa hugann við það neikvæða en muna ekki eftir bjartari og hlýrri hliðum tilverunnar.

Fleira áhugavert: