Rússland, Evrópa – Orkustríð
Grein/Linkur: Orkustríð Rússlands við önnur Evrópulönd
Höfundur: Bjarni Jónsson
.
.
September 2022
Orkustríð Rússlands við önnur Evrópulönd
Hegðun rússneska sambandsríkisins um þessar mundir gagnvart öðrum Evrópulöndum, sér í lagi með hernaði gegn óbreyttum borgurum Úkraínu og sprengjuárásum í grennd við stærsta kjarnorkuver Evrópu, og gegn gasnotendum í Evrópuríkjunum, er fyrir neðan allar hellur, og fyrir þessa fáheyrðu framgöngu verðskulda þeir útskúfun hins frjálsa heims.
Rússar sýna nú sitt rétta andlit og fyrirgera öllu trausti í sinn garð. Þeir eru stimplaðir ofbeldisgjarnir ómerkingar, sem eru ekki í húsum hæfir. Þegar þetta er ritað, eru þeir búnir að stöðva alla gasflutninga um Nord Stream 1, lögn á botni Eystrasalts, sem tengir Þýzkaland við gaslindir Síberíu án viðkomu í öðrum löndum og bera við bilun, sem þeir geti ekki gert við vegna viðskiptabanns á sig. Ef það væri rétt afsökun, væri rússneskur iðnaður óttalega aftarlega á merinni.
Undrun hefur vakið, hversu vel Þjóðverjum hefur tekizt að fylla á gasforðabúr sín fyrir veturinn, en í lok ágúst 2022 mun staðan að meðaltali hafa numið tæplega 70 % af hámarki, sem er meira en búizt var við. Norðmenn hafa aukið gasvinnslu í Norðursjónum og meðfram strandlengjunni eftir mætti, en það er allt önnur og skuggalegri skýring á þessu. Það liggur fremur afkastalítil gaslögn frá Síberíu til Kína, en að auki flytja nú Rússar gas á vökvaformi (LNG) til Kína.
Nú er þungt undir fæti í efnahagslífi Kínverja vegna sprunginnar húsnæðisbólu og strangra, misráðinna opinberra sóttvarnarráðstafana, sem engu hafa skilað öðru en gríðarlegu efnahagstjóni og töfum á útbreiðslu C-19 faraldursins. Heildarfjöldi dauðsfalla yfir s.s. 3 ára tímabil eykst yfirleitt af völdum opinberra sóttvarnarráðstafana vegna slæmra áhrifa á geðkvilla og aðra sjúkdóma, svo að ekki sé nú minnzt á ósköpin úr Kófinu, þegar óreyndum efnum var sprautað í flesta með mjög litlum varnaráhrifum, en alvarlegum aukaáhrifum í sumum tilvikum. Þessari vitleysu er haldið áfram fyrir 60+.
Opinberar sóttvarnarráðstafanir með verulegum frelsisskerðingum, sem upprunnar eru í einræðisríkinu Kína, gera aðeins illt verra, þegar um skæða flensu er að ræða. Bezta ráðið er að styrkja ónæmiskerfi líkamans, en sú ráðlegging hefur ekki verið áberandi hjá landlæknisembættinu hér. Þetta á við alla aldurshópa.
Kínverjar hafa vegna kreppu hjá sér verið aflögufærir um jarðgas. Þeir eru kaupahéðnar að eðlisfari og hafa selt Evrópumönnum afgangsgas og makað krókinn. Hvaðan hafa þeir fengið þetta gas ? M.a. frá Rússlandi. LNG eldsneytið, sem flýtt hefur forðasöfnun í Evrópu, er ættað frá Rússlandi, en á uppsprengdu verði m.v. gas um Nord Stream 1. Þetta er ófagurt afspurnar.
Gasverð fer enn hækkandi og hækkaði t.d. í síðustu heilu viku ágúst 2022 um 30 % m.v. vikuna áður. Sumarið 2021 gerðu Frakkar og Þjóðverjar framvirka samninga um eldsneytisgas á verði, sem jafngilti 100 EUR/MWh rafmagns, en um mánaðamótin ágúst-september 2022 náði það 1000 EUR/MWh og hjaðnaði svo nokkuð. Jaðarkostnaður rafmagns samkvæmt orkumarkaðskerfi Evrópusambandsins ræðst af kostnaði gasorkuveranna. Algert ófremdarástand ríkir nú í orkumálum Evrópu vegna kolrangs mats á eðli rússneska ríkisins, eins og margir gerðu sig seka um á sínum tíma varðandi Þriðja ríkið. Undantekning var Winston Churchill.
Sum ríki Suður-Evrópu hafa nú þegar varið sem nemur 5 % af vergri landsframleiðslu sinni í að verja neytendur gegn ofurverði á jarðgasi. Það eru um mrdISK 150 á íslenzkan mælikvarða, og munu þessi ríki nú lenda á framfæri digurs Kófsjóðs Evrópusambandsins, sem ekki var búið að ráðstafa öllu fé úr.
Frændur vorir, Norðmenn, sem búa sunnan Dofrafjalla, sitja algerlega í súpunni, þótt nánast öll raforka þeirra komi úr vatnsaflsvirkjunum vítt og breitt um landið. Vandræði þeirra á orkusviðinu er himinhátt raforkuverð sunnan Dofrafjalla. Heildsöluverðið, þ.e. verð frá virkjun án flutnings- og dreifingarkostnaðar og skatta, var 30.ágúst 2022 jafnhátt á Vestur-, Austur- og Suðurlandinu, þ.e. á áhrifasvæði millilandatenginganna, og á Jótlandi, Sjálandi og Fjóni, Þýzkalandi, Lúxemborg og Litháen samkvæmt Nord-Pool og Gunnlaugi Snæ Ólafssyni í fréttaskýringu í Morgunblaðinu 31. ágúst 2022. Í tveimur löndum Evrópu, Frakklandi og Austurríki var verðið enn hærra. Þetta verð sunnan Dofrafjalla jafngilti 94 ISK/kWh. Það er tæplega 19 sinnum hærra en íslenzkt heildsöluverð og rúmlega 24 sinnum hærra en í Mið-Noregi (Þrændalögum) og rúmlega 59 sinnum hærra en í Norður-Noregi.
Ef engar millilandatengingar væru virkar í Noregi, mundi heildsöluverð raforku að mestu vera ákvarðað út frá vatnsforða miðlunarlóna, árstíma, og lestun landshlutatenginga. Á þessum árstíma mætti þá núna búast við raforkuverði sunnan Dofrafjalla um 5,6 ISK/kWh, en það er tæplega 17 sinnum hærra, og verður að skrifa það alfarið á millilandatengingarnar. Norðmenn fóru út í þær til að græða og til að draga úr fjárfestingum í varaafli og varaorku, en þess ber að gæta, að norsk heimili kaupa 5-falt meiri raforku en íslenzk heimili, enda eru langflestar byggingar rafhitaðar í Noregi. Gróðinn átti að felast í því að selja afl og orku utan á daginn á hærra verði en var á norskum innanlandsmarkaði og kaupa orku inn á nóttunni og um helgar á mun lægra verði. Þetta gekk eftir, á meðan millilandatengingarnar voru ekki eins öflugar og nú og á meðan Norðmenn stjórnuðu þessum flutningum sjálfir, en ríkisfyrirtækið Statnett, þeirra Landsnet, á allar millilandatengingarnar. Eftir lögleiðingu Orkupakka 3 stjórnar ACER-Orkustofa ESB þessum flutningum, og ríkisstjórnin má ekki grípa inn í þessi viðskipti. Markaðurinn ræður. Fyrirsögnin í téðri fréttaskýringu Gunnlaugs Snæs Ólafssonar vísar einmitt til þessa:
„Harma raforkuverð, en geta ekkert gert“.
„Norska ríkið hefur ekki tök á því að sporna gegn verðhækkunum, þar sem salan fer fram á rafmagnsmarkaði, sem innleiddur er í gegnum hina svo kölluðu „orkupakka“ ESB. Þeir ná til alls EES og stýra því, hvernig sölu á raforku til Evrópu frá Noregi [og til baka – innsk. BJo] um sæstrengi er háttað.“
Ákvæði um millilandatengingar og millilandaviðskipti með rafmagn og jarðgas komu fyrst inn í orkulöggjöf ESB með Orkupakka 3. Þess vegna urðu deilurnar um OP3 í Noregi og á Íslandi svo hatrammar sem raun bar vitni um. Nú kemur OP3 almenningi og atvinnulífinu í Noregi í koll, nema orkufyrirtækjunum, sem græða á tá og fingri. Skrýtið, að jafnaðarmenn í ríkisstjórn og á Stórþinginu skuli teka þetta í mál. Ríkisstjórnin er undir forsæti Verkamannaflokksins, sem er hallur undir ESB-aðild Noregs. Hinn stjórnarflokkurinn, Miðflokkurinn, barðist gegn innleiðingu OP3 og spáði einmitt hækkandi raforkuverði í kjölfar öflugra sæstrengja til Bretlands og Þýzkalands, sem þá var verið að leggja og nú hafa verið teknir í rekstur. Flokkurinn fær hins vegar ekkert að gert núna, enda stendur ekki reiðfærið á ESB til að veita Noregi undanþágur frá orkuafhendingu. Kostnaðurinn af millilandatengingum Noregs lendir nú á ríkissjóði, eins og Gunnlaugur Snær rakti í téðri fréttaskýringu:
„Í millitíðinni hefur myndazt eining um, að norska ríkið greiði 90 % af orkukostnaði heimila umfram 70 Naur/kWh [9,9 ISK/kWh] frá 1. september [2022] upp að 5,0 MWh. Verð nú er um 644 Naur/kWh.“
Það vekur athygli, að niðurgreitt orkumagn nemur aðeins fjórðungi ársnotkunar meðalíbúðar í Noregi með rafhitun. Það eru þó fáir að spá verulegri orkuverðslækkun í Evrópu innan 3 mánaða. Verðið mun sennilega ekki lækka fyrr en með vorinu 2023.
Í lokin stóð þetta í fréttaskýringunni:
„Ákallið um, að eitthvað verði gert til að tempra raforkuverðið hefur þó ekki fjarað út í Noregi, og hafa flokkar m.a. lagt til, að útflutningur verði takmarkaður og að hámarksverð verði sett á rafmagn. Breytingar verða þó ekki gerðar á löggjöf ESB, nema áhugi sé fyrir því innan sambandsins. Það er því óljóst, nákvæmlega hvað norska Stórþingið hyggst ræða á fundi sínum í september [2022].“
Rökin fyrir markaðsvæðingu raforkunnar á sínum tíma í Noregi voru neytendavernd, þ.e. samkeppnin átti að tryggja raforkunotendum hagstæðustu kjör. Nú hefur þessi neytendavernd snúizt upp í neytendaáþján. Þá er spurningin, hvort stuðningur er við afnám lagasetningar um OP3 í Noregi. Á sínum tíma var því haldið fram, að lögleiðing OP3 hefði mikla þjóðhagslega þýðingu í Noregi. Þá var ekki sízt horft til aðgangs Noregs að evrópskum gasmarkaði. Nú er aðalleikarinn, Rússland, að mestu dottinn út af evrópskum gasmarkaði um ófyrirsjáanlega framtíð, og þar með eru norskar gaslagnir til Bretlands og meginlandsins orðnar enn mikilvægari. Með þessa sterku markaðsstöðu þurfa Norðmenn í raun ekkert á OP3 að halda, en það er hins vegar spurning, hvort þeir vilja berjast fyrir uppsögn hans innan EFTA og í Sameiginlegu EES-nefndinni. Það er annað mál og af pólitískum toga. Tæpast getur ríkisstjórnin sameinazt um slíka stefnu, nema Alþýðusamband Noregs álykti í þá veru. Það mundi breyta afstöðu Verkamannaflokksins.