Veitulagnir, sagan – Endurskoðun reglugerða
Grein/Linkur: Reglugerðir endur skoðaðar en hvernig?
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
Júní 1996
Reglugerðir endur skoðaðar en hvernig?
Sum ákvæði í reglugerðum veitukerfa borgarinnar eru ekki aðeins úr takti við tímann, segir Sigurður Grétar Guðmundsson , heldur svo úr sér gengin, að þau eru í meira lagi brosleg.
Í VATNSPÓSTI, fréttabréfi Félags pípulagningameistara, eru tveir pistlar frá byggingafulltrúanum í Reykjavík, annars vegar um tæringu í kaldavatnsleiðslum og hins vegar um að á vegum Reykjavíkurborgar sé hafin endurskoðun á reglugerðum veitukerfa borgarinnar og er víst að allir þeir sem þurfa að nota þessar reglugerðir eða eru undir þær seldir á einhvern hátt, fagna því eindregið.
Hér er um að ræða reglugerðir Hitaveitu Reykjavíkur, Vatnsveitu Reykjavíkur og Reglugerð um holræsi í Reykjavík.
Það er meira en tímabært að endurskoða þessar reglugerðir, sum ákvæði þeirra eru ekki aðeins úr takt við tímann heldur svo úr sér gengin að þau eru í meira lagi brosleg.
En þá kemur stóra spurningin; hvað á að koma út úr þessari endurskoðun, hvaða stefna hefur verið mörkuð, hvernig eiga þær reglugerðir að verða sem í smíðum eru?
Reglugerðalandið
Íslendingar eru ákaflega reglugerðaglöð þjóð, þó er tæplega hægt að gera þjóðina ábyrga fyrir öllu því sem sett hefur verið á pappír, það hafa þingmenn gert en ekki síður embættismenn.
Það eru tæplega sett svo lög á hinu háa Alþingi að ekki fylgi því ákvæði að ráðherra, einhverjir embættismenn eða opinberar nefndir skuli setja um lögin og framkvæmd þeirra sérstaka reglugerð til að skýra lögin nánar, eða setja staðbundin nánari ákvæði og fyrrnefndar reglugerðir eru einmitt af þeirri gerðinni, það er ekki eingöngu til reglugerðir veitukerfa í Reykjavík, þær eru nánast í hverju sveitarfélagi.
Sem dæmi má nefna að reglugerðir hitaveitna eru yfir þrjátíu og allar eiga þær það sammerkt að vera úreltar enda er lítið eftir þeim hægt að fara og það sem verra er; embættismenn hafa ekki vílað fyrir sér að setja sjálfir ýmsar kvaðir sem þó eru hvergi skráðar en krafist að farið sé eftir.
Það er því ekki vanþörf á að grisja þennan reglugerðaskóg og það er ekki nóg að Reykjavíkurborg ein taki á sig rögg; þetta þarf að gera um land allt.
Að hverju er stefnt?
Í fréttinni frá byggingafulltrúanum í Reykjavík kemur fram að tveimur valinkunnum verkfræðingum hafi verið falin endurskoðunin en starfsmenn Hitaveitu, Vatnsveitu, gatnamálastjóra og byggingafulltrúa muni vinna að verkinu en þessir sömu aðilar mynda verkefnisstjórn ásamt yfirverkfræðingi borgarverkfræðings.
Þetta er ekki lítil upptalning en þótt hún sé löng vekur samt athygli hverjir eru ekki taldir upp.
Af hverju ekki fulltrúar pípulagningameistara sem starfa á veitusvæðinu, af hverju ekki fulltrúar fasteignaeigenda eða viðskiptavina, þeirra sem kaupa heitt og kalt vatn og nota holræsakerfið? Hafa verið lagðar línur fyrir þá sem eiga að endurskoða reglugerðirnar, hefur stefnan verið mörkuð?
Á að endursemja reglugerðirnar með það fyrir augum að þær séu forsjárhyggja allra sem hanna og leggja lagnakerfi, segi þeim í smáatriðum hvað þeir eiga að gera og hvað ekki, hvaða efni þeir eigi að nota og hvaða efni ekki, á enn einu sinni að semja forsjárhyggjureglugerðir eða hefur eitthvað verið talað um að þær verði stuttar og stefnumarkandi?
Eiga allir að skipa fyrir?
Lög og reglur eru nauðsyn, um það verður ekki deilt. En hvað þurfa að vera mörg lög og margar reglugerðir um sömu hlutina?
Í fyrsta lagi höfum við staðla sem leiðbeina um efnisval og aðferðir almennt í lögnum.
Í öðru lagi höfum við byggingareglugerð, sem vissulega þarf að endurskoða, en hún setur reglur um byggingar og þar með talið lagnir í byggingum.
Í þriðja lagi höfum við allar fyrrnefndar reglugerðir veitukerfa.
Sú spurning hlýtur að vakna hvort ekki sé hægt að einfalda þetta ferli allt saman. Umhverfisráðherra er æðsti valdsmaður byggingamála á Íslandi samkvæmt lögum, í hverju sveitarfélagi eru starfandi bygginganefndir og byggingafulltrúar sem æðsta valdastofnun hvers sveitarfélags í byggingamálum og þar með taldar lagnir í byggingar.
Þurfum við virkilega, í viðbót við byggingalög, byggingareglugerð og staðla að fá forsjárhyggjureglugerðir frá hveri veitu á landinu til að fylgjast með okkur og segja okkur hvað má og hvað má ekki?
Sú reglugerð veitukerfa sem minnst hefur farið fyrir fram að þessu er holræsareglugerðin sem er þó tvímælalaust sú mikilvægasta. Það kemur hverju sveitarfélagi við hvað almenningur sturtar inn í holræsakerfin, en kemur hitaveitum og vatnsveitum það nokkuð við hvaða efni við notum í lagnir í okkar húsum, er það ekki nóg að hafa einn eftirlitsaðila, byggingafulltrúann í hverju sveitarfélagi. Eiga veitstofnanir nokkuð að vera að ráðskast með það hvað gerist inn á heimilum manna ef menn borga sína reikninga fyrir heitt og kalt vatn skilvíslega?
Er þörf á margföldu fyrirmælakerfi, á „stóri bróðir“ að vera í hverri gætt?