Risaolíulindin Ghawar – Khurais opnað

Heimild: 

.

Mars 2010

Nýjasta eyðimerkurævintýrið

Khurais! Bara tilhugsunin ein um hátæknivædda „snákana“ undir eyðimörkinni fær Orkubloggarann til að titra af spenningi. Já -Khurais kallar bæði fram gæsahúð og skrítna tilfinningu í brjóstkassanum. Tilfinningu sem maður veit ekki hvort er skyldari hrolli eða sælu.

ghawar_dying_959312.jpg

Smella á myndir til að stækka

Þó svo Ghawar skili Sádunum ennþá stöðugum megamörgum 5 milljón tunnum af olíu á dag, vita þeir eyðimerkurljúflingarnir að risalindirnar í Ghawar munu ekki endast til eilífðar. Þeir vilja heldur ekki ofbjóða Ghawar og segjast – af sinni einstöku smekkvísi – umgangast lindina eins og unga, viðkvæma stúlku. Sætt af þeim

Einmitt þess vegna ákváðu Sádarnir fyrir fáeinum árum að leggjast í einhverju mestu olíufjárfestingu allra tíma. Til að geta viðhaldið framleiðslugetu sinni og jafnvel aukið hana umtalsvert töldu Sádarnir árið 2002 að tímabært væri að nálgast svarta gullið í Khurais. Og héldu þar með ennþá lengra inní óravíðáttur eyðumerkurinnar – inn í hina geggjuðu sandauðn sem einkennir þetta feikistóra land kameldýrsins. Til þess m.a. að geta viðhaldið æskublóma Ghawar sem lengst.

khurais_map_959313.jpg

khurais_map

Þetta er ekki neitt smáverkefni. Khurais er  hvorki meira né minna en stærsta olíufjárfesting í sögu ríkisolíufélagsins Saudi Aramaco – sem er vel að merkja langstærsta olíufélag heims. Á fáeinum árum hafa framkvæmdirnar í Khurais gleypt litla 10 milljarða dollara og slá þar með flest annað út sem gert hefur verið í olíuiðnaðinum til þessa. Og nú er komið að því að olían í Khurais, sem fram til þessa hefur legið sofandi undir sandsteinslögunum á rúmlega 1.5 km dýpi, streymi upp á yfirborðið.

Að vísu hefur nokkur olíuvinnsla átt sér stað í Khurais allt frá áttunda áratug liðinnar aldar, enda er meira en hálf öld liðin frá því menn áttuðu sig á að þarna leyndist mikil olía. En það var ekki fyrr en eftir aldamótin að Sádarnir ákváðu að tími væri kominn á að hefja stórfelldar framkvæmdir í Khurais og opna flóðgáttirnar; gera Khurais að einni særstu olíuuppsprettu heims með framleiðslu upp á 1-2 milljónir tunna á degi hverjum. Khurais ein á sem sagt að skila jafnmikilli framleiðslu eins og allar olíulindir Katar til samans gera í dag – eða Nígeríu svo annað dæmi sé tekið. Eru þessi tvö ríki þó meðal allra mestu olíuútflytjenda veraldar. En blikna í samanburði við risalindirnar í Saudi Arabíu.

oil_giants_top_18_uppsala.jpg

oil_giants_top_18_uppsala

Já – það er af nógu að taka í Kurais. Að sögn Sádanna geymir svæðið heila 27 milljarða tunna af olíu. Sem þýðir að þetta er einhver allra mesta olíulind sem heimurinn hefur nokkru sinni heyrt af. Þessi eina olíulind er t.a.m. stærri en öll sú olía sem enn er í bandarískri lögsögu; sannreyndar olíulindir í Bandaríkjunum eru samtals um 21 milljarðar tunna. Svona til að hafa eitthvað að miða við.

Fram til þessa dags hafa einungis fundist innan við 20-25 olíulindir svo stórar að þær geymi 10 milljarða tunna af olíu eða meira. Þar er auðvitað risinn Ghawar austan við Khurais langstærstur, með a.m.k. 70 milljarða tunna að sögn Sádanna og enn ekki hálfunnin. Næst kemur væntanlega hin makalausa Burganlind í Kuwait, með 45 milljarða tunna af olíu (plús/mínus einhverja glás!). Að sögn Sádanna er Khurais í hópi með þessum risalindum – með 27 milljarða tunna af olíu – og mun því hafa afgerandi áhrif á olíuframboðið í veröldinni til langrar framtíðar.

camels_electricity-lines.jpg

camels_electricity-lines

Dómsdagsspámaðurinn Matt Simmons og ýmsir fleiri vefengja reyndar mat Sádanna á Khurais og segja þá ofmeta framleiðslugetuna þar. Vandamálið er bara að enginn utan Saudi Aramco hefur undir höndum almennileg gögn um svæðið. Þess vegna eru skoðanir vesælla Vesturlandabúa um Khurais tómar getgátur. Sádarnir hafa a.m.k. séð ástæðu til að setja tugmilljarð dollara í að byggja upp olíuvinnslu þarna í sandhafi Khurais – og hafa varla gert það bara að gamni sínu.

khurais_northwestwells_northern-bottleneck.jpg

khurais_northwestwells_northern-bottleneck

Það var í júní sem leið (2009) sem fyrsta olían streymdi frá nýju pípunum í Khurais. Þá voru ekki liðin nema rétt rúmlega fjögur ár frá því hafist var handa við framkvæmdirnar. Og til að sannfæra vestrið um unaðssemdir Khurais var nokkrum vestrænum fjölmiðlamönnum boðið að líta herlegheitin augum.

Umrætt svæði – sem er ennþá dýpra inní eyðimörkinni en Ghawar – er alla jafna harðlega lokað villutrúarfólki úr Vestrinu. Þess vegna höfum við sáralítið af áþreifanlegum gögnum um Khurais. Í reynd verðum við að láta okkur nægja að styðjast við gervihnattarmyndir og fáeinar ljósmyndir sem smyglað hefur verið hingað vestur úr þessu sólsteikta víti, til að reyna að átta okkur á hver raunveruleikinn þarna er. Og það getur samt aldrei orðið neitt nema getgátur.

Sjálfir segja þeir Ali al-Naimi, olíumálaráðherra Sádanna,og félagar hans að olían í Saudi Arabíu sé dásamleg gjöf frá Guði. Svæðið sem geymir hið guðlega svartagull og kennt er við Khurais er í reynd þrjár olíulindir; KhuraisAbu Jifan og Mazalij. Þar af er sjálft Khurais-svæðið stærst, en samtals ná þessar olíulindir yfir um 5 þúsund ferkm þarna í steikjandi sandauðninni.

khurais_sandstorm_2.jpg

khurais_sandstorm

Svæðið er um 250 km suðvestur af Rauðahafsströnd olíuborgarinnar Dharan og 300 km suðaustur af höfuðborginni Riyadh og er ekki beint aðgengilegt. Það er ekki bara hitinn, fjarlægðin og gljúpur sandurinn sem gerir Khurais óaðgengilegt. Þarna geysa oft geggjaðir sandstormar, sem gera mannlegt líf nánast óbærilegt.

En með hækkandi olíuverði og ótrúlegum framförum í tölvustýrði vinnslutækni er olían í Khurais loksins orðin raunveruleg. Ætli menn að skoða lindirnar í Khurais er nærtækast að fljúga til höfuðborgarinnar Riyadh og taka svo rellu þaðan að litlum flugvelli sem kallast Pump Station 3. Þaðan ökum við svo um 50 km leið, fram hjá nokkrum einmana olíuborum í sandinum, en athygli okkar beinist jafnvel enn frekar að kamelhjörðunum sem þarna má víða sjá reika um gulleitt sandhafið.

khurais_constructions.jpg

khurais_constructions

Svo birtast herlegheitin; risa sem hillingar upp úr sandinum. Sannkallaðir járnkastalar nútímans umluktir girðingum og öryggishliðum, enda eru olíumannvirki Sádanna ætíð í sigti Al Kaída og fleiri hryðjuverkamanna, sem álíta yfirvöld í Saudi Arabíu meðreiðarsveina bæði þess Svarta í Neðra og Bandaríkjanna (sem í þeirra huga er víst eitt og hið sama).

Loks erum við komin í gegnum öll öryggishliðin og erum innan um þúsundir verkamanna, stálbita og risastórra steypumannvirkja, sem erfitt er að gera sér grein fyrir hvaða tilgangi þjóna. Svo umfangsmiklar eru þessar framkvæmdir að þær hafa t.d. síðustu árin haft umtalsverð áhrif á stálverð í heiminum, vegna eftirspurnarinnar frá Khurais.

saudi-arabia-gas-flare_empty_quarter.jpg

saudi-arabia-gas-flare_empty_quarter

Jafnvel ennþá flottari eru gríðarstór rörin, sem flytja á hverjum sólarhring milljónir lítra sjó 250 km austan frá Dhahran við strönd Persaflóans. Á hverjum sólarhring er allt að 2 milljónum tunna af sjó (meira en 200 milljónum lítra eða meira en 200.000 rúmmetrum af sjó) dælt niður í borholurnar til að þvinga olíuna upp á yfirborðið. Sjálf olían er á um 1,5 km dýpi og er þar undir mjög litlum þrýstingi. Þess vegna er nánast útilokað að ná henni upp nema með aðstoð sjávar, sem er eðlisþyngri og þrýstir olíunni því upp.

En við erum á leið til Khurais  í ljósbrúnum Hummer-jeppa og erum komin í gegnum síðasta öryggishliðið. Hingað og þangað standa hvínandi gaslogar upp úr strompum og borturnum. Eftir stíft ferðalagið er gott að stiga út úr jeppanum, jafnvel þótt 50 stiga hitinn skelli þá á hörundi manns. Reyndar fer hitinn þarna næstum niður í frostmark yfir nóttina, þannig að dægursveiflan er lauflétt.

khuraisi-olfeild-11.jpg

khuraisi-olfeild

Já – við erum komin í eina mestu Paradís olíuiðnaðarins og segja má að sum mannvirkin minni okkur meira á geimskip úr vísindaskáldsögum en jarðleg fyrirbæri. Við erum komin að hjartanu í Khurais, þar sem m.a. tveggja km langur vinnsluskáli geymir tækin sem skilja gas, salt og vatn frá olíunni.

Þaðan fer olían beinustu leið vestur til Rauðahafsins, eftir í leiðslunni sem liggur í þveröfuga átt við þá sem flytur Persaflóa-sjóinn í borholurnar í Khurais. Þar er svo gumsinu jafnóðum dælt um borð í risaolíuskip, sem sigla með herlegheitin um sjóræningjaslóðirnar á Aden-flóa. Fylgst er með hverju einasta skipi og hverjum einasta olíusnák á risastórum tölvuskjám í aðalstöðvum Saudi Aramco, úr hundruða km fjarlægð austur í Dahran. Og ef Guð lofar nær olían loks alla leið til Rotterdam, Osaka eða Ameríku. Um leið streyma dollaramilljarðarnir stanslaust inn á bankareikninga Sádanna út um veröld víða. Heimur arabísku olíunnar er svo sannarlega æsilegri en nokkur reyfari.

khurais_worker_3.jpg

khurais_worker

Þarna á svæðinu kennt við Khurais hafa samtals um 30 þúsund kófsveittir austurlenskir verkamenn unnið á 10 tíma vöktum í fjögur ár, við að reisa einhverja alfullkomnustu olíuvinnslu í heimi. Við sjáum reyndar aðeins mannvirkin ofanjarðar, en vitum að ofaní sandinum hlykkjast borarnir eins og snákar í gegnum jarðlögin og sandsteininn. Þessu er öllu fjarstýrt frá áðurnefndri tölvumiðstöð Saudi Aramco við Persaflóann. Allt er þetta meira í ætt við vísindaskáldsögu en raunveruleikann.

Eftir að hafa teygt úr okkur og svipast aðeins um er okkur boðið í einn veitingaskálann, þar sem okkar bíður rjúkandi lambakjöt og ýmsar aðrar arabískar kræsingar. Meðan við mötumst er okkur sagt frá þessu nýjasta ævintýri í eyðimörkinni; m.a að alls séu þarna sautján olíuborar, sem hafi nú þegar borað helminginn af þeim u.þ.b. 400 brunnum sem koma til með að verða á svæðinu. Þar af eru um 100 holur sem þjóna þeim tilgangi einum að vera rásir fyrir gígantiskt magn af sjó, sem þar er dælt stanslaust niður allan sólarhringinn árið um kring.

khurais_construction.jpg

khurais_construction

Já – Khurais er risadæmi. Og Sádarnir geta verið ánægðir með það. En þetta er samt allt önnur veröld en sú sem þeir hafa lifað við fram til þessa. Olían sem þarna er þrýst  upp á yfirborð eyðimerkurinnar undan sandauðninni í Khuras er sko ekkert 2ja dollara stöff, eins og gömlu risalindir Sádanna í Ghawar og víðar. Þessi vinnsla er margfalt dýrari. En hún er engu að síður sennilega talsvert langt frá því að kosta jafn ógesslega mikið eins og t.d. olíusandsullið vestur í Alberta í Kanada – sökum þess hversu magnið þarna er gríðarlegt. Þetta ætti m.ö.o. að vera alveg bullandi góður bisness, meðan olíutunnan er yfir 70 dollara.

saudi-aramco-technology.jpg

saudi-aramco-technology

Sjálfir segja Sádarnir að Khurais sanni að allt peak-oil-talið sé bara kjaftæði; nóg sé af olíu handa heiminum öllum um óraframtíð. En þó svo Ali al-Naimi og vinir hans virðist alltaf sigurvegararnir í heimi olíufíknar okkar s.k. vitiborinna manna á Vesturlöndum, er Khurais samt ennþá meira tákn um það að ódýra olían er að renna sitt skeið á enda. Hvorki Sádarnir né aðrir geta lengur stungið niður röri á nýjum stað í sandinn og horft á olíuna spýtast sjálfkrafa upp – fyrir minni kostnað en 2 dollara pr. tunnu.

Í staðinn er runnin upp tími hinnar rándýru olíuvinnslu, þar sem ekkert er til sparað til að kreista hvern einasta dropa upp úr iðrum jarðar. Ýmist með því að hreinlega bræða olíuna úr kanadíska olíusandinum vestur í Alberta eða beita hátæknivæddum, fjarstýrðum borsnákum til að þefa uppi olíupollana 1500 metra undir glóandi sandyfirborði eyðimerkurinnar í Saudi Arabíu. Það er ennþá enginn skortur á olíu – en það er að verða æ dýrara að sækja hana. Kannski best að drífa sig á bensínstöð og fylla Land Roverinn… meðan þar er enn tekið við íslenskum krónum.

Fleira áhugavert: