Heitir pottar – Að nýta jarðvatnið
Grein/Linkur: Látið ekki glepjast við kaup á heitum potti
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Ágúst 2003
Látið ekki glepjast við kaup á heitum potti
Segja má að fyrsti nafngreindi pottverjinn á Íslandi hafi verið Snorri Sturluson sem sat í Reykholti, skrifaði bækur, tók þátt í pólitík sinnar aldar og galt fyrir með lífinu.
En Snorri skrapp ekki niður í KB byggingavörur í Borgarnesi til aðdrátta, hans pottur var byggður úr heimafengnu byggingarefni, torfi og grjóti.
Hvarvetna í Íslendingasögum er frá því sagt að „menn gengu til lauga“. Þess vegna er fullvíst að heitar laugar hafi bæði verið til af náttúrunnar hendi, eða byggðar eins og í Reykholti.
En það er aðeins setlaug Snorra sem enn stendur og þess vegna skulum við veita honum fyrrnefnda heiðursnafnbót, fyrsti pottverjinn.
Í dag eru heitir pottar við hvers manns dyr, eða næstum því. Íslendingar hafa aftur lært að nota sér heita jarðvatnið til böðunar og sunds, nokkuð sem landsnámsmenn kunnu svo vel að meta.
Ekki fer þó neinum sögum af því að þeir hafi byggt sér sundlaugar, í mesta lagi stíflað rennsli frá volgrum.
En sund virðist hafa verið stundað hvar sem því varð við komið fyrstu aldir Íslands byggðar.
Svo komu hallærisaldir, sundkunnáttan hvarf, hreinlætið virðist einnig hafa horfið að mestu. Sundið var ekki endurreist á Íslandi fyrr en í lok nítjándu aldar og það verður ekki almenningseign fyrr en um miðja tuttugustu öldina, en þá var sundnám sett í lög um barnafræðslu.
Hvers vegna ekki að nýta jarðvatnið?
Það hefur myndast hefð fyrir því hvernig heitir pottar eiga að vera uppsettir og tengdir og er reyndar í lögum og reglugerðum.
Það er tvennt sem þar verður að hafa í huga, fyrst og fremst. Annars vegar þægindin og síðan hitt sem er ekki síður mikilvægt, öryggið.
Í örfáum orðum má segja helstu öryggisreglur séu þær að heitur pottur skal var settur í upphækkaða grind, þannig að stíga þurfi upp í hann, potturinn sé með öruggu loki þegar hann er ekki í notkun og öruggt að aldrei geti fullheitt hitaveituvatn, 70°C eða meira, runnið í pottinn.
Algengastar eru „skeljarnar“ pottur búinn til úr trefjaplasti, sem gefur styrkinn, með akrýlhúð sem gerir hann sléttan og þægilegan að sitja í.
Hérlendis eru framleiddir ágætir pottar eða skeljar.
Síðan er hægt að bæta við margvíslegum búnaði með dælum og sprautubúnaði. Slíkir pottar eru einnig fáanlegir með slíkum búnaði af mismunandi fjölbreytileika.
Og auðvitað er það okkar ágæti jarðvarmi sem gerir okkur kleift að njóta þessa munaðar á einfaldan hátt með lágmarkskostnaði.
En það eru ekki allir svo heppnir að hús þeirra sé á jarðvarmasvæði, einkum á þetta við um sumarhús.
Þar hafa menn sett upp rafhitaða potta ef þeir á annað borð eru svo heppnir að hafa rafmagn.
Búnaður slíkra potta er talsvert flóknari og einnig viðkvæmari. Það verður einnig að vera hreinsibúnaður í pottinum vegna þess að í þeim er sama vatnið langtímum saman. Slíka potta er ekki hægt að tæma þegar farið er frá og láta síðan í þá renna ylvolgt hitaveituvatnið við komu.
Vatninu verður alltaf að halda volgu svo það frjósi ekki, það kostar sitt og það þarf einnig að hreinsa búnaðinn sem hreinsar vatnið, það er óhjákvæmilegt.
Hvað leggja menn ekki á sig til að komast í heitan pott þó ekkert sé hitaveituvatnið?
En nú bregður svo einkennilega við að tunguliprir sölumenn eru farnir að selja auðtrúa sálum slíka potta, rafhitaða, til að setja upp í þéttbýli með vellandi jarðvarma eða við sumarhús þar sem einnig er hitaveita.
Með því eru menn að kalla yfir sig kostnað af stöðugri rafhitun vatnsins nær árið um kring og einnig að sitja alltaf í sama vatninu þó svo eigi að heita að vatnið sé hreinsað.
Hver sá sem ætlar að kaupa sér slíkan pott, þar sem hans er ekki þörf, ætti að hugsa sig um tvisvar.
Það er þægilegast að sitja í heita vatninu sem endurnýjast stöðugt, alltaf nýtt vatn um kroppinn.