Hvað er Náttúruleg loftræsing?

Grein/Linkur:  Náttúruleg loftræsing, hvað er það?

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:

.

.

Júlí 2006

Náttúruleg loftræsing, hvað er það?

Við höfum látið okkur litlu varða fram til þessa hvernig við loftræsum íbúðir og minni byggingar. Einhvers staðar í flestum gluggum eru opnanleg fög, stundum efst á glugga en því miður stundum neðst, sem er mjög slæmt ef opnanlega fagið á að nota til loftræsingar eða loftskipta ef við viljum heldur nota það orð. Þetta tæki, opnanlega fagið, er notað þegar okkur finnst loftið vera þungt innanhúss en stundum er „þungt “ loft fyrst og fremst of heitt loft. Það rýrir samt engan veginn gildi þess að skipta að hluta um loft innanhúss, að loftræsa.Hins vegar er þessi útbúnaður, opnanlega fagið sem þó bjargar svo miklu, langt frá því að vera heppilegt eða hnitmiðað tæki til þessara nota. Afleiðingin verður oft sú að það eru opnir gluggar daglangt þó enginn sé heima, þarna er stöðugt verið að kasta út varma sem búið er að kaupa. Það þykir sjálfsagt að á hverju hitakerfi íbúðar sé búnaður, oftast sjálfvirkir hitastýrðir lokar á ofnum, sem sjá fyrir hæfilegum hita í íbúðinni. Að tala um hæfilegan hita í íbúð er kannski nokkuð vafasamt því það er staðreynd að hérlendis búa flestir við of háan hita sem er ekki það heilnæmasta fyrir mannslíkamann. En þá má spyrja á móti hvort sá hiti sem hver og einn velur sér sé ekki einmitt hæfilegur hiti?

En í dag eru flestir, sem telja sig sérfróða að einhverju leyti um það sem við köllum „innivist“, að gera sér æ betri grein fyrir því að það þarf að hyggja að fleiru en að hitastigið sé rétt. Það þarf að vera tryggt að hæfilega mikið hreint loft komi inn eða að hæfileg loftskipti verði, að rakastigið sé hæfilegt og að loftið sé hreint en þar vantar oft æði mikið upp á. Á þessum sólríku dögum getur hver og einn séð það með eigin augum, þegar sólargeisli brýst inn í stofuna, hversu mikið er af margskonar ögnum í loftinu og þá má ekki gleyma því að minnstu agnirnar sjáum við ekki.

En að opna og loka glugga til loftræsingar er að sjálfsögðu frumstæð náttúruleg loftræsing en þetta orð „náttúruleg loftræsing “ á við nákvæmari búnað sem stýrist sjálfvirkt að mestu.

Danska fyrirtækið WindowMaster hefur sérhæft sig í að þróa og framleiða búnað fyrir náttúrulega loftræsingu fyrir minni byggingar sem annars hefði kannski ekki verið hugsað út í að þyrftu slíkan búnað, látið gömlu opnanlegu fögin sjá um þetta á sinn frumstæða hátt. Í stærri byggingum mun enn verða notuð vélræn loftræsing sem jafnframt sér byggingunni oft fyrir hluta af þeim varma sem hún þarfnast. Þá þarf mikla stokka til að flytja loftið og blásara sem knúðir eru rafmagnsmótorum. Slíkum búnaði verður ekki komið fyrir í venjulegu íbúðarhúsnæði og ýmsum minni og lægri byggingum, þar má nefna leikskóla og reyndar marga aðra skóla.

Í stuttu máli er um að ræða kerfi opnalegra glugga sem opnast vélrænt og eru á stöðum sem hentugir eru til að tryggja sem best loftskipti innanhúss. Á þaki byggingarinnar er veðurstöð sem nemur stöðugt vind og hitastig og stýrir opnun eftir því. Hún tekur einnig mið af hitastigi innanhúss, því fleiri persónur innanhúss því meir hækkar hitinn og því meiri þörf fyrir hreint súrefnisríkt loft. Stöðin nemur ekki aðeins hitastig innanhúss heldur einnig magn koltvísýrings, CO2, í loftinu. Þrátt fyrir að ekki sé tóbaksreykur í lofti er þessi gastegund óhjákvæmilegur fylgifiskur okkar sem þarf að halda í skefjum. Vissulega eru aðstæður á Íslandi að mörgu leyti erfiðari fyrir náttúrulega loftræsingu en í nágrannalöndum. Þar kemur til hversu vindasamt er hérlendis og umhleypingasamt.

En stjórnbúnaðurinn tekur mið af slíku og þær aðstæður geta komið hérlendis að sjálfvirk stjórnun kerfisins sé hreinlega tekin úr sambandi því stundum eru veður þannig að allir gluggar verða að vera lokaðir.

Þessi búnaður frá WindowMaster er ekki með öllu óþekktur á Íslandi. Við endur- og viðbyggingu Víðistaðaskóla í Hafnarfirði valdi lagnahönnuðurinn, Sveinn Áki Sverrisson tæknifræðingur hjá VSB Verkfræðistofu, að nota þennan búnað. Þar er komin reynsla sem byggjandi er á og ættu lagnamenn hérlendis að fylgjast grannt með þessu framtaki og nýta sér þá reynslu sem þar fæst.

Fleira áhugavert: