Næsta búrhveli, sagan – Lýsi, olía, kol, kjarnasamruni

Grein/Linkur: 150 ára afmæli olíuvinnslu – og leitin að „næsta búrhveli“

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Ágúst 2009

150 ára afmæli olíuvinnslu – og leitin að „næsta búrhveli“

Ekki er ofsagt að olían hafi bjargað einu stærsta dýri jarðar frá útrýmingu. Búhvalnum.

Á 19. öld jókst eftirspurn eftir hvalalýsi hratt. Lýsið var bæði notað sem smurefni á vélar og í lýsislampa (þ.á m. stóra lampa í vitum). Þó svo bæði tólg og svínafita væri einnig nýtt í þessum tilgangi, þótti lýsið af búrhvalnum hvað best. Þess vegna voru búrhvalir eltir um öll heimsins höf og stundum af mikilli grimmd að sumum fannst. Sbr. sagan sígilda um Moby Dick.

Líklega hefði búrhvölum verið gjörsamlega útrýmt ef menn hefðu ekki allt í einu áttað sig á því að nýta mátti steinolíu í stað hvalalýsis. Þar kom til gamla góða lögmálið um framboð og eftirspurn.

george-bissell

george-bissell

Um 1850 var verðið í Bandaríkjunum fyrir eitt gallon af hvalalýsi orðið ansið hátt eða sem nam fjórðungi af mánaðarlaunum góðs verkamanns. Þá kom til sögunnar bandarískur iðjuhöldur að nafni George Bissell  (1821-1884). Bissell hafði séð olíusullið, sem víða lak upp úr jörðinni í norðausturríkjum Bandaríkjanna og vissi að þetta var eldfimt efni. Hann velti þess vegna fyrir sér hvort etv. mætti nýta þetta dökkleita sull sem eldsneyti í stað hvalalýsis. Bissell bar málið undir efnafræðinga hjá Yale-háskóla, sem leist vel á hugmyndina og töldu vel mögulegt að koma þessu í framkvæmd. Svo fór að Bissell stofnaði félag í þeim tilgangi að vinna olíu og kallaðist félagið Pennsylvania Rock Oil Company (síðar breytt í Seneca Oil). Þetta var í raun fyrsta olíufélag heimsins og árið var 1854.

Helsta vandamálið var hvernig ná ætti olíunni upp í nægjanlega miklu magni til að þetta gæti borgað sig. Bissel og félagar vissu að menn boruðu víða niður í jörðina eftir salti, sem þar mátti finna í jarðlögum og töldu rétt að reyna að nota sömu bortæknina til að ná upp olíu. Að öðrum kosti yrði þetta aldrei arðbær bissness.

Drake_Oil_Tower_Titusville

Drake_Oil_Tower_Titusville

Flestum öðrum þótti hugmyndin einfaldlega fáránleg – eins og stundum vill vera með góðar hugmyndir. En Bissell var sama hvað öðrum fannst. Hann útvegaði sér mann til verksins, Edwin nokkurn Drake  og síðla árs 1858 byrjaði Drake að bora við bæinn Titusville í Pennsylvaníu.

Skemmst er frá að segja að í águst 1859 – fyrir nákvæmlega 150 árum síðan – gerðist það að Drake og Smith aðstoðarmaður hans hittu á olíulind. Eins og áður  hefur verið sagt frá hér á Orkublogginu. Olían sprautaðist af miklum krafti upp eftir rörinu og markaði upphaf bandaríska olíuævintýrisins. Sem ennþá er í fullum gangi.

Bissell lagði strax meiri pening í boranirnar í Titusville og varð fljótt vellauðugur af olíunni. Menn hlógu ekki lengur að Bissell og ekki leið á löngu þar til menn þyrptust til Titusville til að bora eftir svarta gullinu. Þessi bortækni varð grundvöllur að nýjum iðnaði óg fyrir vikið hefur Bissell oft verið kallaður faðir bandaríska olíuiðnaðarins.

Titusville_Oil_boom

Titusville_Oil

Það var þó annar maður sem náði að verða ennþá auðugri af þeim ljúfa bransa. Til að olían kæmi að gagni þurfti að meðhöndla hana og svo fór að þar reyndust hvað mestu tækifærin liggja. Það var John D. Rockefeller sem þar sá sér leik á borði og náði hann brátt einokunaraðstöðu í olíuhreinsuninni.  En það er allt önnur saga.

Þeir sem höfðu mesta ástæðu til gleðjast þegar fyrsta olían spýttist upp rörin í Titusville voru samt ekki afkomendur Rockefeller's – heldur auðvitað búrhvalirnir. Smám saman leysti steinolían hvalalýsið af hólmi. Þannig tekur eitt við af öðru í veröld eldsneytisins og þar ræður hagkvæmnin alltaf lang mestu.

Elizabeth_I_Tudor

Elizabeth_I

Til gamans má nefna annað dæmi um það hvernig jarðefnaeldsneytið hefur ítrekað bjargað lífríki á jörðinni. Á dögum Elísabetar I í lok 16. aldar voru skógar Englands helsta eldsneyti þjóðarinnar og höfðu verið um aldir. Nú var kominn upp talsverður iðnaður í ríki hennar hátignar og víða spruttu upp verksmiðjur sem unnu ýmist járn eða gler. Þessi þróun olli stóraukinni ágengni í trjávið í verksmiðjueldinn.

Fyrir vikið var nú svo illa komið fyrir mörgum skógum Englands að árið 1581 samþykkti þingið í London lög um stórfellda skógfriðun. Þetta var einn fyrsti „hvatinn“ til stórfelldra breytinga í orkugeiranum. Iðnaðurinn leitaði nýrra lausna og skömmu eftir aldamótin 1600 fundu menn í gleriðnaðinum upp á því að nota kol í stað viðareldsneytis. Sem hendi væri veifað hófst nú stórfelldur kolanámarekstur í Englandi. Það reyndist snjöll hugmynd; tæknin var tiltölulega einföld og kolin reyndust ódýr lausn. Þar með hófst gullöld kolanna og næstu 350 árin voru þau helsti orkugjafi bresku þjóðarinnar.

coal_plant_modern

coal_plant_modern

Nú standa menn á torgum og segja bæði olíuna á þrotum og vilja banna kolabruna vegna gróðurhúsaáhrifa. Ennþá eru kol og olía lang mikilvægustu orkugjafar mannkyns. Til að við getum lagt þessa orkugjafa til hliðar þarf að finna „nýtt búrhveli„. Og það engan smá hval heldur risastórt kvikyndi sem helst getur veitt okkur öllum og kynslóðum framtíðarinnar orku um ókominn tíma.

Á tímabili voru margir sem trúðu því að kjarnorkan væri stóra lausnin. Það gæti reyndar verið rétt; kjarnorkan er líklega eini raunhæfi orkugjafinn til að leysa olíu, gas og kol af hólmi að verulegu leyti. Þ.e.a.s. tímabundið – því kjarnakleyf efni eru einungis til í takmörkuðu magni.

Nuclear_Fusion_Sun

Nuclear_Fusion_Sun

Kannski felst framtíðarlausnin í kjarnasamruna. Eins og menn eru að dunda við að þróa hjá kanadíska fyrirtækinu General Fusion. Eða að fundin verði ný, einföld og hagkvæm leið til að virkja sólarorkuna. Enn er lausnin ekki fundin, enda ennþá nóg af olíu, gasi og ekki síst kolum.

Kannski verður lausnin einfaldlega sú að hætta gróðurhúsatalinu og nota þau kol sem til eru. Unnt er að búa til olíu úr kolum og kolabirgðir jarðar gætu jafnvel nýst okkur og afkomendunum í einhverjar aldir enn. Með ömurlegum afleiðingum fyrir lífríki og umhverfi kolavinnslusvæðanna, en til bjargar orkuþyrstu mannkyni.

Þetta er auðvitað ekki sú græna leið sem við flest vonandi viljum. En kannski er þetta samt framtíðin næstu öldina eða svo. Það er vissulega nokkuð svört framtíðarsýn – en kannski raunsæ?

Fleira áhugavert: