Fá birtu og yl – En á móti öllu

Grein/Linkur: Á móti öllu í birtu og yl

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

Desember 1998

Á móti öllu í birtu og yl

Það hefur orðið ótrúleg bylting á þessari öld. Afleiðingar hennar eru m.a. skjannabirta í hverjum krók og kima og ylur streymandi inn eftir rörum í nær hvert einasta hús á landinu.

Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur og rúmlega það vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið, sumir segja ef til vill að það skipti ekki máli, þeir séu hvort sem er á förum, það sé ný kynslóð hinna ungu sem sé að erfa ríkið.

Það eru ótrúlegar umbreytingar sem hafa orðið hérlendis á þessari öld. Fjölmargir af eldri kynslóðinni, sem þó eru enn í fullu fjöri, ólust upp við olíulampa sem ljósgjafa á köldum vetrarkvöldum og átu með bestu lyst saltað hrossakjötið, sem eldað var við loga sem brunnu í skán svokallaðri, sem var ekkert annað en það sem stungið var út úr fjárhúsunum á vorin, orðin til úr ótal kindaspörðum yfir veturinn.

Fussum svei segja kannski þeir yngri, hvað er verið að rifja upp slíkar fornsögur? En þetta eru ekki neinar fornsögur, það þarf ekki að fara nema fáa áratugi aftur í tímann til að finna þessar aðstæður eða aðrar slíkar, hvarvetna á landinu til sjávar og sveita.

Já, það er ótrúleg bylting sem hefur orðið á þessu landi og til hennar þurfti engin venjuleg vopn, hvorki sveðjur eða fallstykki.

Þessi bylting hefur verið hljóðlát og afleiðingar hennar eru, meðal annars, þau sjálfsögðu þægindi að okkur finnst, skjannabirta í hverjum krók og kima og ylur streymandi inn eftir rörum í nær hvert einasta hús á landinu. Þeir sem hafa með hugviti og höndum lagt hart að sér við að virkja fallvötn og bora eftir heitu vatni hafa lengstum haldið að þeir væru að vinna þjóðþrifaverk, einnig þeir sem hafa lagt rafkerfi og hitalagnir í hús.

Kynslóðabil eða hvað?

En nú kveður við annan tón, virkjun fallvatna er helgispjöll og hernaður gegn landinu, hálendið er eins og það leggur sig orðinn helgur staður þar sem ekki má stinga skóflu í svörð eða stífla lækjarsprænu, það gæti myndast lón eða vatn, sem þykir nú einhver hrikalegasta röskun á þessu stórkostlegasta ósnortna víðerni heimsins.

Það hefur aldrei verið nokkur vafi á því að það eru til náttúruperlur hérlendis sem ekki kemur til greina að fórna til virkjana án tillits til þess hve hagkvæm sú orka yrði sem þar fengist.

En nú er að kom fram á sjónarsviðið kynslóð sem fyllir stærsta kvikmyndahús landsins með baráttufundi og þar í hópi eru fjölmargir listamenn sem standa á Austurvelli og lesa ljóð sjálfum sér og öðrum til ánægju, allt til að berjast gegn því að nokkru verði raskað á slóðum Eyvindar og Höllu eða þar sem Skúli þeysti á Sörla.

Allt á að vera ósnortið ­ eða er ekki svo?

Nei ekki alveg, um þessi víðerni skulu eigra túristar allra landa til að skoða sandinn og auðnina. Þá þurfa Austfirðingar ekki að eltast við rolluskjátur, en það liggur við að það sé ástæða til að rifja upp fræga setningu Arneusar úr Íslandsklukkunni um feita þjóninn og barða þrælinn.

Það er að myndast gil milli kynslóða vegna afstöðu til nýtingar hálendis Íslands.

Það er ekki gil á milli yngri og eldri í þessu máli, gilið liggur miklu frekar annars staðar.

Gilið liggur í rauninni milli þeirra sem á landsbyggðinni búa ásamt þeim á suð-vesturhorninu sem enn eru í tengslum við lífið í landinu.

Hinum megin við gilið eru þeir sem geta látið sig hafa það að mótmæla flestu því sem veitir þeim þægindi, hvort sem það er birta og ylur eða einhver önnur sjálfsögð þægindi, sem eru svo sjálfsögð að enginn tekur eftir þeim. Það er hægt að taka ofan fyrir ungu stúlkunum tveimur sem ætla að mótmæla öllum breytingum á hálendi Íslands með því að leggjast í mótmælasvelti eins og Gandhi forðum austur í Indlandi.

Það er þó aðeins hægt að taka ofan fyrir þeim ef þær verða sjálfum sér samkvæmar. Þessar ungu meyjar eru að mótmæla öllum virkjunaráætlunum á hálendi Íslands og það hlýtur að þýða bæði virkjanir fallvatna til raforkuframleiðslu og ekki síður virkjun jarðhitans, þar uppífrá á að sjálfsögðu ekki að virkja neitt í líkingu við Nesjavelli eða Svartsengi.

Það þarf tæplega að spyrja að því að þá hljóta þessar valkyrjur að slökkva öll rafljós sem koma frá stórvirkjunum inn á hálendinu og ekki síður að loka fyrir hitann þar sem þær liggja næringarlausar í byrgi sínu, hann kemur mjög líklega frá Nesjavöllum.

Og þá er um að gera að dúða sig vel í kulda og myrkri og tóra af mótmælasveltið, en tæpast með íslenskum ullarflíkum. Er ekki ullin komin af þessum skelfilegu hermdarverkaskepnum, sem sjálft Nóbelsskáldið sagði að hefðu gengið vasklegast fram í því að að leggja þetta land nánast í auðn?

Fleira áhugavert: