Fóðrun neysluvatnslagna – Reynslusaga, ferlið

Grein/Linkur: Neysluvatnslagnir lagaðar

Höfundur:  Hrefna og Finnur

Heimild:  

.

.

November 2011

Neysluvatnslagnir lagaðar

Hér kemur sagan af vikunni þar sem neysluvatnslagnirnar í húsinu okkar voru endurnýjaðar með sandblæstri og plastfóðrun.  🙂
[Here follows the story of the week where the corroded water pipes in our house got sandblasted (cleaned) and re-sealed.]

Eftir að við fluttum inn í húsið í sumar kom í ljós að neysluvatnslagnirnar í 16 ára gamla húsinu okkar voru illa ryðgaðar að innan.  Þetta lýsti sér helst með því að í byrjun hvers dags rann gul-brúnt vatn úr kalda vatnskrananum í eldhúsinu.  Suma morgna var ástandið verra en þá datt vatnsþrýstingur niður og dökkbrúnt vatn kom úr krananum í nokkra stund ásamt látum og frussi í lagnakerfinu. Einnig urðum við vör við þetta þegar við tengdum þvottavélina í fyrsta sinn eftir að hafa flutt inn en vatnið í fyrsta þvotti var brúnt.

Dæmi um dökkbrúnt kalt vatn sem kom einn morguninn úr eldhúskrananum.

Okkur kom þetta þó nokkuð á óvart, svo ekki sé meira sagt enda húsið ekki gamalt og svona neysluvatnslagnir eiga að endast í allt að 50 ár samkvæmt fagmönnum!  Frekari rannsóknir leiddu hins vegar í ljós að þetta er nokkuð útbreitt vandamál í húsum á Íslandi sem voru byggð 1980-2000 og orsökin sú að zink-húðin (sem ver pípurnar gegn ryði)  innan í rörunum farin að eyðast.  Súrefnisríka kalda vatnið hafði því átt greiða leið að pípunni sjálfri og því byrjað að tæra hana.

Það virðist ekki vera alveg á hreinu af hverju vandamálið er bundið við þetta tímabil þar sem sambærilegar pípur hafa verið í notkun mun lengur en frá 1980. Ein tilgátan er að með árunum hafi kalda vatnið orðið hreinna og þar með misst efni sem tóku þátt í að fóðra pípurnar í gamla daga (siliköt?).  Það virðist heldur enginn hafa farið og athugað hvort þetta sé bundið við ákveðinn framleiðanda og það er ennþá verið að meðhöndla þetta á ‘case-by-case basis’.

Við veltum því fyrir okkur hvað við ættum að gera í stöðunni og sáum við fram á tvo kosti: Ráða pípara í að leggja nýjar pípur eða fá fyrirtæki sem gæti hreinsað og fóðrað gömlu pípurnar.  Til hliðsjónar höfðum við foreldra Finns sem voru með pípara í fullri vinnu í 6 vikur að leggja nýjar pípur í þeirra húsi í sumar og vissum hvaða rask og vesen það væri.  Við ákváðum því að kanna hina leiðina.

Við komumst fljótlega að því að það virðist bara vera eitt fyrirtæki á Íslandi sem sérhæfir sig í að gera úttekt á og fóðra neysluvatnslagnir. Jú, einhverjir aðrir fóðra lagnir en það virðast bara vera frárennslislagnir, sem er ekki það sem okkur vantaði.  Við höfðum því samband fengum þá til að koma og taka myndir innan úr rörunum og skila okkur ástandskýrslu og tilboði í verkið.  Þeir skiluðu okkur meðal annars þessu myndskeiði.

Eftir að hafa hugsað málið, einkum með tillits til plastsins sem þeir nota (plastið þarf að vera “food grade” eins og það heitir á ensku), þá ákváðum við að taka tilboði um að fóðra bæði heitar og kaldar lagnir og þeir boðuðu komu sína í nóvember. 

Verkið fór fram á eftirfarandi máta:

  • Þriðjudagur 22. nóvember
    • Verktakinn mætir með stóra loftpressu og gám fullan af tækjum og tólum og leggur þeim fyrir utan húsið.  Dagurinn fer í að setja plast á gólf, loka fyrir vatn og tæma pípur af vatni, fjarlægja blöndunartæki, tengja slöngur við allar neysluvatnspípur hússins og koma fyrir hiturum og öðrum tækjum.  Einnig kom rafvirki til að tengja þriggja fasa rafmagn.
  • Miðvikudagur 23. nóvember
    • Byrjað á því að hita pípurnar með heitu lofti til að þurrka þær.  Í lok dags var byrjað að sandblása pípurnar.
  • Fimmtudagur 24. nóvember
    • Aftur voru pípurnar hitaðar.  Klárað að sandblása allar pípur.  Myndir teknar innan í rörum fyrir sandblástur.
  • Föstudagur 25. nóvember
    • Pípur hitaðar og plasti síðan ‘skotið’ inn og pípurnar fóðraðar.  Pípur myndaðar eftir sandblástur.  Tæki, tól og plast á gólfum fjarlægt úr húsi og byrjað að ganga frá eftir verkið.
  • Helgin 26. – 27. nóvember
    • Plastið harðnar í rörunum.  Plastið þarf 24 klst til að harðna við stofuhita en tvöfalt þann tíma við aukinn kulda, t.d. fyrir kranann úti í garði.
  • Mánudagur 28. nóvember
    • Loftpressa og gámur fjarlægð af plani.  Klárað að ganga frá krönum og vatn tengt aftur.  Við notuðum tækifærið og létum setja upp varmaskipti og síu við inntak.  Öll áhöld HGL fjarlægð og varla nokkur merki um að nýbúið væri að vinna í húsinu í lok dags fyrir utan hreint vatn. 🙂
Hér fylgja myndir frá verkinu, skipt niður á daga.
Þriðjudagur 22. nóvember 2011
Loftpressunni bakkað upp að húsinu. Þetta var fyrsti dagur í frosti það tók nokkrar tilraunir að bakka henni upp að húsinu enda svellhált þennan morgun.
Hitararnir sem menn nota þurfa ‘þriggja-fasa rafmagn’. Þennan morgun mætti því rafvirki sem breytti rafmagninu okkar úr eins-fasa í þriggja-fasa rafmagn. (Vinsamlegast ekki fá áfall yfir draslinu í bílskúrnum… þetta er bílskúr!) 🙂
Rafmagnstaflan eftir aðgerðina.
Gámurinn mættur líka. Þessi ferlíki áttu eftir að búa fyrir framan húsið okkar í viku, en það var allt í lagi því það er nóg af bílastæðum í götunni.
Fyrsta mál á dagskrá: Að setja plastdúka á gólfin.
Búið að kippa þvottavélinni niður af stallinum og aftengja kranana.
Sturtan fékk að sofa í baðinu þessa vikuna og við tókum morgunbaðið í Salalaug…
Þegar ég kom heim í lok dags þá var búið að koma hiturum fyrir (grái kassinn), og tengja þykkar slöngur við allar pípurnar.
Svona var eldhúsið fram á föstudag. Hitarinn var tengdur við ‘slöngu-fjöltengi’ og úr slöngu-fjöltenginu lágu svo slöngur, sem tengdust við millistykki sem voru skrúfuð inn í rörin í veggnum.
Svona var klósettið á neðri hæðinni fram á föstudag. Það fékk sinn eigin hitara og slöngu-fjöltengi.
Stiginn plastaður frá botni til topps. Sá stutti (fjögurra og hálfs) var afskaplega kátur með að hafa allt „teppalagt“, spígsporaði á morgnana berfættur á náttfötunum með hendur fyrir aftan bak og tilkynnti öllum sposkur… „Þetta er kósí! Pabbi, finnst þér þetta ekki kósí!? Þetta er svo kósí!“ 🙂
Á efri hæðinni voru líka tveir hitarar. Annar var fyrir þvottahúsið og hinn fyrir baðherbergið. Hitarinn fyrir baðherbergið var geymdur við hliðina á þvottahús-hitaranum á kvöldin, svo við myndum síður ganga á hann og það væri hægt að loka baðherbergishurðinni. 🙂
Slöngurnar voru tengdar við pípumillistykkin með vígalegum festingum.
Lagnir í klósettið voru líka teknar í gegn. Sá sem tengdi þetta sagði að það hefði þurft að nota skrúfjárn til að höggva í gegnum ryðstífluna í rörinu til að ná almennilegu flæði.
Baðherbergið á efri hæðinni, með sína eigin bláu ‘könguló’. 🙂
Slöngumillistykkið, slöngurnar og baðskápurinn, sem alla jafna geymir stafla af handklæðum. 🙂
Sturtan og slöngurnar.
En það var ekki allt, því í bílskúrnum bjó þessi græja fram á föstudag. Stóru gulu slöngurnar voru geymdar uppvafðar þar þegar menn voru ekki að vinna.
Græjan frá hinni hliðinni. Þarna sést líka í bláan kassa sem var notaður til að sandblása.
Mælagrindin. Það var löngu búið að taka vatnið af húsinu en svo við værum ekki algjörlega vatnslaus þá var sett upp plastslanga (sjá hvítu slönguna með krana efst) sem tengdist vatnsinntakinu. Þetta var því eini virki kraninn í húsinu í heila viku.
Þar með hófst vikan okkar án rennandi vatns. Við vorum með vatnskönnu til að bursta tennurnar, og vatnsfötu til að sturta niður úr klósettinu. Það tók hins vegar líklega fimm daga að venja sig af því að reyna að fá vatn úr krönunum… 🙂

Miðvikudagur 23. nóvember 2011

Menn mættu stundvísislega klukkan átta næsta morgun. Fyrsta verkefnið var að kveikja á hiturunum. Til þess réðu þeir lítinn vinnumann sem fékk 100 krónur að launum og var óendanlega glaður og stoltur að fá að hjálpa til. 🙂 Hann hlakkaði alla vikuna til að koma heim úr leikskólanum til að sjá hvort vinnumennirnir væru ennþá að, fór svo í „vinnumannastígélin“ sín (og suma dagana í Kraft „vinnumannagallann“ sinn) þegar heim var komið og gekk um og spjallaði við þá um daginn og veginn. 🙂
Þvottahúss-hitarinn stilltur…
… svo og baðherbergis-hitarinn. Eins og sjá má þá fengu handklæðin úr baðherberginu að búa upp á kommóðunni í nokkra daga. 🙂
Kátur lítill vinnukarl á leiðinni á leikskólann. 🙂
Gulu slöngurnar komnar á stjá. Hver slanga tengdist einum hitara.
Þar sem það var byrjað að snjóa úti þá voru menn afskaplega kátir að slöngurnar þeirra pössuðu í gegnum lítinn glugga inn í bílskúr svo að þeir gátu unnið inni í hlýjunni. Það kom mér á óvart hvað rauða slangan var svakalega sterkbyggð og grjóthörð þegar kveikt var á loftpressunni.
Það voru svo fleiri tæki úti!
Þegar við komum heim í lok dags þá var búið að þétta bílskúrs-gluggann aðeins. 🙂
Sandur í kassa fyrir sandblásturinn ásamt hávísindalegu mæliglasi. Sandblástur hafði, sem sagt, hafist fyrr um daginn. 🙂
Litli vinnumaðurinn kátur með verkfæri í lok dags. 🙂
Einn manna hafði byrjað að teikna upp lagnirnar í húsinu og skilið eftir á eldhúsborðinu. Mér sýnist allt vera komið þarna nema gestaklósettið.

Fimmtudagur 24. nóvember 2011

Nýr dagur og gulu slöngurnar mættar aftur eftir að hafa sofið í bílskúrnum yfir nótt.
Slöngur að liðast niður stigann. Snjór úti!
Allar slöngur liggja til bílskúrsins!
Einn manna skoðar rörin að innan með sérstakri myndavél. Rörin voru skoðuð bæði fyrir og eftir sandblástur.
Sandur settur í sandkassann. Úr kassanum var sandinum skotið með loftþrýstingi inn í rörin þar sem hann skrapaði ryðið innan af lögnunum. Það var svolítið sérstakt að heyra í sandinum þjóta eftir rörunum inni í veggjunum. 🙂
Stafsmaðurinn á myndinni var óvanur sandkassanum, og einmitt þegar ég var inni í bílskúrnum að taka myndir, þá gekk honum illa að loka sandkassanum almennilega. Við næsta púst slapp því eitthvað af sandi upp úr vélinni og mig grunar að við eigum eftir að finna gróf sandkorn í skúrnum þar til við flytjum! Hann fékk þá smá hjálp frá félögum sínum og þar með slapp ekki meiri sandur út.
Á meðan einn sá um sandvélina, þá voru tveir að passa slöngurnar inni í húsinu. Samskipti fóru að sjálfsögðu fram með litlum ‘walkie-talkie’-um. Fyrir sandblásturinn þá voru slöngurnar tengdar saman fram hjá bæði hitaranum og slöngu-millistykkinu.
Komnir í eldhúsið. Mér skildist að rörin í húsinu væru í ‘týpísku’-ástandi miðað við önnur hús sem þeir hefðu unnið í í hverfinu. Það þýddi víst að heitavatnslagnirnar fengu eina gusu af sandblástri, á meðan kaldavatnslagnirnar voru blásnar tvisvar (einu sinni frá hvorum enda).
Úti mátti svo finna ‘ryð-suguna’, það er græjuna sem tók á móti ryðinu og sandinum (hún var reyndar í tveimur pörtum). Það sést í hana hér beint fyrir framan bílskúrshurðina.
Tveir bílar. Gámabíllinn dvaldi á stæðinu alveg þar til þeir færðu gáminn.

Föstudagur 25. nóvember 2011

Nýr dagur, menn að mæta og meiri snjór!
Sandblæstri var nú lokið og komið að því að plasta lagnirnar að innan. Fyrst þurfi að hita rörin upp, og litli vinnumaðurinn var meira en til í að setja hitarana af stað. 🙂
Hitarinn í eldhúsinu stilltur undir miklu eftirliti. 🙂
Þegar ég kom aftur heim fljótlega eftir hádegi þá var plöstun lokið og búið að aftengja loftpressuna ógurlegu. Mér skildist að til að plasta þá settu þeir plastefnið fyrst inn í sérstaka slöngubúta. Bútarnir væru síðan tengdir beint við vegg-millistykkin og svo við slöngu alla leið í loftpressuna. Síðan væri plastinu ‘skotið’ inn í lagnirnar, teknar myndir og svo þyrfti það bara að harðna.
Betri mynd af aftengdri ‘ryð-sand-sugunni’. 🙂
Auglýsingin á hliðinni á gámnum. 🙂 Lýsir reyndar ástandinu nokkuð vel, fyrir og eftir aðgerð…
Byrjað að ganga frá. Fyrstu skrefin búin á gestaklósettinu.
Hitararnir, slöngumillistykkið og slöngurnar farnar og byrjað að taka upp plastdúkinn.
Búið að fjarlægja pípumillistykkin líka.
Hér sést í rauða plastið inni í rörinu.
Baðherbergisvaskurinn að bíða eftir tengingu.
Allt dótið innan úr húsinu komið inn í bílskúr, á leið út í gám fyrir helgina.
Í lok dags var ekkert sem minnti á veru verktaka í húsinu, fyrir utan að við vorum ennþá vatnslaus og þurfum alltaf að fara niður í bílskúr til að sækja vatn í fötu til að sturta niður. Það skal reyndar tekið fram að krakkarnir vissu ekki að hægt væri að sturta niður í klósettinu með því að hella vatni úr fötu í það (í stað þess að nota vatnskassann). Þau lærðu þá amk eitthvað af þessu öllu saman. 🙂 (Plastdúkurinn sem sést á þessari mynd var farinn í lok dags).

Helgin 26. – 27. nóvember 2011

Vatnsleysið þýddi að maður þurfti að gera hluti á ‘gamla mátann’, eins og t.d. hita vatn í katli til að vaska upp. Og já, vaska upp í höndunum. 🙂 (first world problems og allt það…)
Fyllt á vatnsflösku í bílskúrnum.
Þessir rauðu kassar, snúrur og slöngur voru það eina sem menn skildu eftir innan dyra. (Ssshhh… ekki horfa á draslið í bílskúrnum, það er búið að taka til núna!)
Og jú, nýi varmaskiptirinn fékk líka að hvíla sig innan dyra um helgina. 🙂

Mánudagur 28. nóvember 2011

Kominn mánudagur og plastið í rörunum harnað. Nú þurfti ‘bara’ að púsla mælagrindinni aftur saman, nú með inntakssíu og varmaskipti – og klára að tengja alla kranana og setja upp blöndunartæki. Á meðan voru loftpressan og gámurinn flutt í burtu til að byrja á næsta verkefni.
Varmaskiptirinn kominn upp á vegg.
Verið að ganga frá gestaklósett-vaskinum.
Eldhúsvaskurinn og uppþvottavélin tengd.
HÚRRA!! Rennandi vatn!! Úr krana!! 🙂
Jibbíkóla! Rennandi vatn í eldhúsinu!! Ég missti töluna á því hversu oft ég gekk að þessum vaski og reyndi að kveikja á vatninu í vikunni sem leið…
Vatnið var látið renna á fullu í dágóða stund. Sem betur fer þá var niðurfallið ekki stíflað. 🙂
Þegar þvottahúsið var búið þá var komið að baðherberginu. Ég hafði látið hreinsa sturtublöndunartækin, en baðtækið var gott sem ónýtt svo ég keypti nýtt. Við notuðum einnig tækifærið og skiptum um sturtuhaus. 🙂
Fínir stútar í sturtunni. Merkilegt nokk þá var frágangurinn á blöndunartækjunum í sturtunni (þegar við keyptum húsið) ekki alveg eins og venja er og stútarnir kolskakkir (blöndunartækið var ekki lárétt á veggnum og ‘rósetturnar’ laflausar!). Menn gengu frá þessu almennilega fyrir okkur í lok verks, náðu að rétta stútana af og settu upp almennilegar rósettur.
Nýju blöndunartækin sett upp. Mér fannst rosalega sniðugt að það er hægt að beygja stóra stútinn til hliðar svo krakkarnir fái hann ekki í bakið. Þar með ‘stækkar’ baðkarið. Tær snilld! 🙂
Hoppandi gleði!! RENNANDI HREINT VATN!! 🙂 🙂 🙂

Þegar þarna var komið sögu þá var klukkan orðin tæplega fimm og ég þurfti að fara að ná í krakkana og síðan vorum við boðin í mat til vinafólks okkar.  Ég skildi því HGL-menn eftir til að klára verkið.  Þegar við komum heim aftur þá voru þeir farnir og það var ekki að sjá að það hefðu verið heljarinnar röra-framkvæmdir í gangi í heila viku.

Fyrsta mál á dagskrá var að sjálfsögðu að setja krakkana í bað. Þau voru ekkert smá ánægð. 🙂
Hér koma nokkur dæmi um fráganginn. Hér er baðherbergisvaskurinn. Þeir mundu eftir að setja skúffuna aftur á sinn stað. 🙂
Nýhreinsuðu (að innan og utan) blöndunartækin í sturtunni.
Sturtubotninn í mun betra ástandi hvað óhreinindi varðar en ég átti von á.
Kraninn í þvottahúsinu. Við hefðum sjálf átt að fatta að vefja þvottavélasnúruna svona! Og já, þeir lyftu þvottavélinni aftur upp á stallinn og tengdu hana. 🙂
Mælagrindin með nýja varmaskiptinum og inntakssíunni (svarta ‘totan’ niðri í hægra horni).

Við erum mjög kát með afraksturinn. Verkið gekk vel og tiltölulega sársaukalaust fyrir sig (vatnsskorturinn var í raun það eina).  Menn unnu þetta fljótt og fagmannlega, mættu alltaf tímanlega og héldu sig við allar áætlanir, bæði í tíma og kostnaði. Öll verk dagsins voru vel útskýrð og gott einnig að leita til þeirra með spurningar um varmaskipti og síuna, sem við vorum að gæla við að setja upp í leiðinni. Einnig gættu þeir þess að lágmarka raskið fyrir okkur, til dæmis með því að rúlla alltaf slöngunum sem lágu út um allt hús til baka út í bílskúr í lok dags, svo við gætum lokað öllum hurðum og dyttum ekki um slöngurnar.

Við nutum þess svo að borða kvöldmat hjá fjölskyldu og vinum í heila viku og það var svolítið ‘ævintýralegt’ (amk ‘útilegulegt’) að vera svo gott sem vatnslaus í viku.

Fleira áhugavert: