Hér kemur sagan af vikunni þar sem neysluvatnslagnirnar í húsinu okkar voru endurnýjaðar með sandblæstri og plastfóðrun. 🙂
[Here follows the story of the week where the corroded water pipes in our house got sandblasted (cleaned) and re-sealed.]
Eftir að við fluttum inn í húsið í sumar kom í ljós að neysluvatnslagnirnar í 16 ára gamla húsinu okkar voru illa ryðgaðar að innan. Þetta lýsti sér helst með því að í byrjun hvers dags rann gul-brúnt vatn úr kalda vatnskrananum í eldhúsinu. Suma morgna var ástandið verra en þá datt vatnsþrýstingur niður og dökkbrúnt vatn kom úr krananum í nokkra stund ásamt látum og frussi í lagnakerfinu. Einnig urðum við vör við þetta þegar við tengdum þvottavélina í fyrsta sinn eftir að hafa flutt inn en vatnið í fyrsta þvotti var brúnt.
Okkur kom þetta þó nokkuð á óvart, svo ekki sé meira sagt enda húsið ekki gamalt og svona neysluvatnslagnir eiga að endast í allt að 50 ár samkvæmt fagmönnum! Frekari rannsóknir leiddu hins vegar í ljós að þetta er nokkuð útbreitt vandamál í húsum á Íslandi sem voru byggð 1980-2000 og orsökin sú að zink-húðin (sem ver pípurnar gegn ryði) innan í rörunum farin að eyðast. Súrefnisríka kalda vatnið hafði því átt greiða leið að pípunni sjálfri og því byrjað að tæra hana.
Það virðist ekki vera alveg á hreinu af hverju vandamálið er bundið við þetta tímabil þar sem sambærilegar pípur hafa verið í notkun mun lengur en frá 1980. Ein tilgátan er að með árunum hafi kalda vatnið orðið hreinna og þar með misst efni sem tóku þátt í að fóðra pípurnar í gamla daga (siliköt?). Það virðist heldur enginn hafa farið og athugað hvort þetta sé bundið við ákveðinn framleiðanda og það er ennþá verið að meðhöndla þetta á ‘case-by-case basis’.
Við veltum því fyrir okkur hvað við ættum að gera í stöðunni og sáum við fram á tvo kosti: Ráða pípara í að leggja nýjar pípur eða fá fyrirtæki sem gæti hreinsað og fóðrað gömlu pípurnar. Til hliðsjónar höfðum við foreldra Finns sem voru með pípara í fullri vinnu í 6 vikur að leggja nýjar pípur í þeirra húsi í sumar og vissum hvaða rask og vesen það væri. Við ákváðum því að kanna hina leiðina.
Við komumst fljótlega að því að það virðist bara vera eitt fyrirtæki á Íslandi sem sérhæfir sig í að gera úttekt á og fóðra neysluvatnslagnir. Jú, einhverjir aðrir fóðra lagnir en það virðast bara vera frárennslislagnir, sem er ekki það sem okkur vantaði. Við höfðum því samband fengum þá til að koma og taka myndir innan úr rörunum og skila okkur ástandskýrslu og tilboði í verkið. Þeir skiluðu okkur meðal annars þessu myndskeiði.
Eftir að hafa hugsað málið, einkum með tillits til plastsins sem þeir nota (plastið þarf að vera “food grade” eins og það heitir á ensku), þá ákváðum við að taka tilboði um að fóðra bæði heitar og kaldar lagnir og þeir boðuðu komu sína í nóvember.
Verkið fór fram á eftirfarandi máta:
Þriðjudagur 22. nóvember
Verktakinn mætir með stóra loftpressu og gám fullan af tækjum og tólum og leggur þeim fyrir utan húsið. Dagurinn fer í að setja plast á gólf, loka fyrir vatn og tæma pípur af vatni, fjarlægja blöndunartæki, tengja slöngur við allar neysluvatnspípur hússins og koma fyrir hiturum og öðrum tækjum. Einnig kom rafvirki til að tengja þriggja fasa rafmagn.
Miðvikudagur 23. nóvember
Byrjað á því að hita pípurnar með heitu lofti til að þurrka þær. Í lok dags var byrjað að sandblása pípurnar.
Fimmtudagur 24. nóvember
Aftur voru pípurnar hitaðar. Klárað að sandblása allar pípur. Myndir teknar innan í rörum fyrir sandblástur.
Föstudagur 25. nóvember
Pípur hitaðar og plasti síðan ‘skotið’ inn og pípurnar fóðraðar. Pípur myndaðar eftir sandblástur. Tæki, tól og plast á gólfum fjarlægt úr húsi og byrjað að ganga frá eftir verkið.
Helgin 26. – 27. nóvember
Plastið harðnar í rörunum. Plastið þarf 24 klst til að harðna við stofuhita en tvöfalt þann tíma við aukinn kulda, t.d. fyrir kranann úti í garði.
Mánudagur 28. nóvember
Loftpressa og gámur fjarlægð af plani. Klárað að ganga frá krönum og vatn tengt aftur. Við notuðum tækifærið og létum setja upp varmaskipti og síu við inntak. Öll áhöld HGL fjarlægð og varla nokkur merki um að nýbúið væri að vinna í húsinu í lok dags fyrir utan hreint vatn. 🙂
Hér fylgja myndir frá verkinu, skipt niður á daga.
Þriðjudagur 22. nóvember 2011
Miðvikudagur 23. nóvember 2011
Fimmtudagur 24. nóvember 2011
Föstudagur 25. nóvember 2011
Helgin 26. – 27. nóvember 2011
Mánudagur 28. nóvember 2011
Þegar þarna var komið sögu þá var klukkan orðin tæplega fimm og ég þurfti að fara að ná í krakkana og síðan vorum við boðin í mat til vinafólks okkar. Ég skildi því HGL-menn eftir til að klára verkið. Þegar við komum heim aftur þá voru þeir farnir og það var ekki að sjá að það hefðu verið heljarinnar röra-framkvæmdir í gangi í heila viku.
Við erum mjög kát með afraksturinn. Verkið gekk vel og tiltölulega sársaukalaust fyrir sig (vatnsskorturinn var í raun það eina). Menn unnu þetta fljótt og fagmannlega, mættu alltaf tímanlega og héldu sig við allar áætlanir, bæði í tíma og kostnaði. Öll verk dagsins voru vel útskýrð og gott einnig að leita til þeirra með spurningar um varmaskipti og síuna, sem við vorum að gæla við að setja upp í leiðinni. Einnig gættu þeir þess að lágmarka raskið fyrir okkur, til dæmis með því að rúlla alltaf slöngunum sem lágu út um allt hús til baka út í bílskúr í lok dags, svo við gætum lokað öllum hurðum og dyttum ekki um slöngurnar.
Við nutum þess svo að borða kvöldmat hjá fjölskyldu og vinum í heila viku og það var svolítið ‘ævintýralegt’ (amk ‘útilegulegt’) að vera svo gott sem vatnslaus í viku.