Neysluvatn, galv/stál – Aðvörun/stöðvað 1997
Grein/Linkur: Þetta verður að stöðva
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Október 1997
Þetta verður að stöðva
Það er ábyrgðarhluti að banna ekki með öllu notkun á galvaniseruðum stálrörum til neysluvatnslagna á höfuðborgarsvæðinu. Bent er á þetta vegna þeirra breytinga sem í vændum séu.
Mikil umræða hefur verið um galvaniseraðar kaldavatn slagnir á höfuðborgarsvæðinu og eru þeir ófáir sem álíta að þar sé vá fyrir dyrum. Vatnsveita Reykjavíkur lét kanna það hjá pípulagningameisturum hvers þeir hefðu orðið áskynja í störfum sínum, en það eru orðin nokkur ár síðan könnunin var gerð og því er hún tæplega lengur marktæk. Hinsvegar hefur sú skoðun heyrst frá VR að ástandið sé engan veginn eins slæmt og margir vilja halda fram og rökstyður þessa skoðun með því sem fram kom í fyrrnefndri könnun.
En könnunin er úrelt og margir pípulagningamenn, sem vinna við viðgerðir, breytingar og endurlagnir, eru ekki í vafa um að ástand galvaniseraðra kaldavatnslagna á höfuðborgarsvæðinu er mjög slæmt. Sumir þeirra fullyrða að í öllum þeim lögnum sem þeir hafa tekið í sundur séu lagnirnar það ryðhrúðraðar að öll verndarhúð, eða galvanisering, sé horfin með öllu. Því verður vart á móti mælt að þar tala þeir sem gerst þekkja ástandið og það er vafasamt að embættismenn geti fullyrt annað.
Þetta mál er í raun svo grafalvarlegt að það ætti að vera búið að stöðva með öllu neysluvatnslagnir úr galvaniseruðu stáli, allavega á veitusvæði Vatnsveitu Reykjavíkur.
Á meðan ný lagnaefni og nýjar lagnaleiðir í húsum mæta mótspyrnu í kerfinu er ekkert gert til að koma í veg fyrir það að sárasaklausir húsbyggjendur noti lagnefni, sem öruggt er að á eftir að verða þeim dýrkeypt.
Hverjar eru staðreyndirnar?
Þær eru einfaldlega þær að það er ábyrgðarhluti að banna ekki með öllu notkun á galvaniseruðum stálrörum til neysluvatnslagna á öllu höfuðborgarsvæðinu.
Þetta er ekki fullyrt eingöngu vegna þess sem vitað er og sannað hvernig ástand neysluvatnslagna á höfuðborgarsvæðinu er, heldur miklu frekar út frá þeim breytingum sem í vændum eru.
Þetta tengist umræðunni um hættuna af of heitu kranvatni og ekki síður því hvað í vændum er í setningu reglugerða um hámarkshita kranavatns og hvernig kranavatn verður leyfilegt að nota í framtíðinni.
Á einu ári hafa í þessu blaði verið birtir þrír pistlar um hættuna af of heitu kranavatni og bent á leiðir til að lækka hámarkshita. Þar hefur verið bent á notkun millihitara, sem er tæki sem nýtir hitaveituvatn til að hita kalt vatn upp í þann hámarkshita sem hver og einn óskar sér. Það hefur einnig verið bent á notkum sjálfvirkra ventla, sem blanda saman heitu og köldu vatni í t. d. 60 gráðu heitt vatn.
Þetta er hvorutveggja tæknilega gerlegt en á þessum ráðum er mikill meinbugur.
Hver er hann?
Hann er leiðslurnar í húsunum, galvaniseruðu stálpípurnar sem eru í flestum húsum hérlendis, ekki aðeins á hinu margumtalaða höfuðborgarsvæði heldur hvarvetna um landið.
Það sem gerist ef við lækkum hitann á kranavatninu með annarri hvorri aðferðinni, með millihitara eða með sjálfvirkum ventli, er að þá rennur upphitað ferskvatn, yfirfullt af súrefni, inn á lagnakerfið, að öllu leyti með millihitara, en með sjálfvirka ventlinum ferskt vatn að hluta.
Þá kemur einfaldlega í ljós að þessi ágætu ráð, um millihitara og sjálfvirkan ventil, eru ákaflega haldlítil. Við höfum náð því markmiði að lækka hitann á kranavatninu, en við höfum fengið sama vandamálið í lögnina fyrir heita kranavatnið og við höfum í kaldavatnsleiðsunum; heitavatnsleiðslurnar byrja að ryðga að innanverðu og eftir tiltölulega stuttan tíma er heita vetnið orðið „telitað“ á morgnana eins og kalda vatnið.
Þess vegna er það fullyrt að það sé ábyrgðarhluti að leyfa notkun á galvaniseruðum stálrörum til neysluvatnslagna í ný hús. Í eldri húsum er vandamálið til, þegar lagnir voru settar í þau hús vissu menn ekki betur. En í dag liggja staðreyndirnar fyrir og það er hörmulegt til þess að vita að byggingayfirvöld, veitustofnanir, hönnuðir, pípulagningamenn og húsbyggjendur fljóti sofandi að feigðarósi.
Það er hægt að velja önnur lagnaefni til neysluvatnslagna en galvaniserað stál, úr plasti, ryðfríu stáli og sumstaðar úti á landi eru eirrör góður kostur, en ekki á veitusvæði Hitaveitu Reykjavíkur.