60 milljón tonn heitt vatni – Spara 240 þúsund tonn olíu

Grein/Linkur:  Fjármunir til rannsókna á hitaveitum

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:

.

.

Janúar 1998

Fjármunir til rannsókna á hitaveitum

Hitaveita Reykjavíkur sparar 240.000 tonn af olíu á ári.

Fyrirþó nokkru var svolítið nöldur hér í pistli, stærstu hitaveitur landsins voru gagnrýndar fyrir að verja of litlu fjármagni til rannsókna. Þar var ekki átt við þær nauðsynlegu rannsóknir sem sjálfsagðar eru þegar bora þarf nýjar holur eða nýta nú svæði. Það var átt við rannsóknir á veitukerfunum sjálfum, á vatni og útfellingum, á samblöndun vatns, á búnaði og lagnaefni svo nokkuð sé nefnt.

Þeir sem nöldra bera þá skyldu að nefna það sem vel er gert og þess vegna er það gleðilegt að Hitaveita Reykjavíkur hefur tekið upp samstarf við Háskóla Íslands á þann hátt að HR kostar stöðu eins prófessors við véla- og iðnaðarverkfræðiskor HÍ. Páll Valdimarsson tók við þeirri stöðu í ársbyrjun 1996 og í Fréttabréfi Samorku, sambands veitukerfa, er viðtal við Pál um mörg athyglisverð mál sem varða einmitt það sem að neytandanum snýr.

Þar sem þetta ágæta Fréttabréf kemur líklega lítt fyrir sjónir almennings er full ástæða til að koma athyglisverðu efni inn í útbreiddari miðil og vonandi er það ekki forystumönnum og ritstýrendum Fréttabréfsins á móti skapi.

Hitaveitur spara mikla fjármuni 

Undir þessari millifyrirsögn gefur Páll Valdimarsson athyglisverðar upplýsingar, sem vissulega eiga erindi til allra landsmanna, en þar segir:

„Hitaveitur spara landsmönnum mikla fjármuni. Hitaveita Reykjavíkur, sem dæmi, selur 60 milljón tonn af vatni árlega og sparar með því 240 þúsund tonn af olíu sem yrðu að 750 000 000 kg af koltvíildi.

Olíubílalestin næði norður á Blönduós og koltvíildið svaraði til þriggja álvera eins og í Straumsvík eftir stækkun. Olían sem þyrfti til hitunar í Reykjavík og nágrenni á ári kostar um 7 milljarða en tekjur hitaveitunnar eru 2,8 milljarðar. Olíusparnaðurinn á íbúa svarar einum einkabíl sem ekinn er 18.000 km á ári“.

Hér eru sannarlega athyglisverðar tölur og þær ættu að skýra, að talsverðu leyti, afstöðu fulltrúa okkar á umhverfisráðstefnunni í Kyoto fyrir skömmu.

Það er líka athyglisvert að huga að því að fyrir tæpum fjörutíu árum var mikill meirihluti húsa á höfuðborgarsvæðinu hitaður upp með olíu. Fyrir 1960 voru það nánast aðeins hús innar Hringbrautar og Snorrabrautar sem voru á hitaveitusvæði. Í öllum öðrum hverfum Reykjavíkur, í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði voru öll hús kynt með olíu eða kolum.

Slysahætta af hitaveituvatni 

Þessi hætta hefur verið mikið í umræðu undanfarna mánuði og ekki að ástæðulausu. Um þetta segir Páll:

„Frumvarp að Evrópustaðli EN809 gerir kröfur um að brunahætta sé ekki fyrir hendi af völdum kranavatns. Auk þess er gerð krafa um að ekki sé blöndun á kranavatni við annað vatn (hitaveituvatn er skilgreint í heilbrigðisreglugerð sem vatn til upphitunar og þvotta) í veitu- og húskerfi. Athugun var gerð á reglugerðum og stöðlum annara landa, og þá sérstaklega Þýskalands. Könnun leiddi í ljós að þar er krafa um 60 gr. C hámarkshita neysluvatns vegna orkusparnaðar. Staðallinn verður vart uppfylltur nema með því að setja neysluvatnsvarmaskipti í hvert hús og má áætla kostnaðinn í Reykjavík 4 milljarða, eða á við 4-5 Skeiðarárhlaup.

Staðall eins og EN809 er alltaf til frjálsrar eftirbreytni og verður aðeins skylda ef stjórnvöld krefjast þess. Staðallinn á að lýsa því sem er hæfilegt, eðlilegt, í takt við tímana og góður „praxís“. Það verður að teljast góður „praxís“ að ekki sé slysahætta af vatninu og að ekki sé blandað einhverjum óþverra í það. Hugsanlegt væri að leita eftir undanþágu varðandi blöndun hitaveituvatns við drykkjarvatn (t. d. í blöndunartækjum) því þó hitaveituvatnið bragðist ekki vel þá er það hættulaust í alla staði.

Mér virðist margir telja ranglega að ábyrgð Hitaveitunnar nái langt inn í húskerfin, og það sé til dæmis mál Hitaveitunnar að tryggja að kranavatn í hverju einstöku húsi fari ekki yfir ákveðið hámark. Hér gæti þurft að gera skýrari mörk og kynna þau“. Hér verður að ljúka tilvitnunum í viðtal Páls Valdimarssonar prófessors að sinni, en engu lofað að ekki verði frekar vitnað í það síðar og þá örlítið velt vöngum yfir því sem hann varpar fram.

Fleira áhugavert: