Vind-, sólarorka – Hvar er í veröldinni er mest uppsett afl?

Grein/Linkur:  Hvar á jörðinni er vind- og sólarorka mest nýtt?

Höfundur:  Þröstur Þorsteinsson

Heimild: 

.

Mesta uppsetta afl vindorku í heiminum er í Kína. Á myndinni sjást vindmyllur í Xinjiang í Kína

.

Október 2013

Hvar á jörðinni er vind- og sólarorka mest nýtt?

Vind- og sólarorka er aðeins lítið brot af heildar-frumorkuframleiðslu á heimsvísu, innan við 0,5%, á meðan yfir 80% eru jarðefnaeldsneyti (tölur fyrir árið 2010).

Mesta uppsetta afl vindorku er í Kína (64 GW), en þar á eftir koma Bandaríkin (47 GW), Þýskaland (29 GW) og Spánn (22 GW), miðað við tölur árið 2011. Mikil uppbygging á sér stað meðal stóru framleiðandanna, mest í Kína, 89% aukning (5 ára meðaltal 2006-2011), en einnig í Bandaríkjunum og Frakklandi (um 33% aukning). Enn hraðari uppbygging á sér stað í löndum sem enn eru smáir framleiðendur vindorku, eins og í Rúmeníu (245%) og Tyrklandi (94%). Ljóst er að þessar tölur eiga eftir að breytast hratt á næstu árum.

Mörg vindasömustu svæði jarðar eru óaðgengileg, til dæmis Grænlandsjökull og fjalllendi, en kostnaður, fyrir utan erfiðleika í uppsetningu og rekstri á slíkum stöðum, kemur í veg fyrir að þau nýtist.

Það eru Evrópusambandsríkin, sér í lagi Þýskaland og Ítalía, sem nýta sólarorku mest, eða um 75% af uppsettu afli á heimsvísu árið 2010. Hins vegar breytast þessar tölur hratt, til dæmis jókst uppsett afl raforkuframleiðslu með sólarsellum (PV) í heiminum öllum um næstum helming milli áranna 2009 og 2010.

Mest er af sólarorku kringum miðbaug jarðar, en mun minna eftir því sem norðar og sunnar dregur. Kostnaður við framleiðslu á rafmagni með sólarorku hefur lækkað mikið á undanförnum árum, en er engu að síður tvöfalt hærri en fyrir vindorku (árið 2012).

Mynd:

Fleira áhugavert: