Varmaskiptar – Skýrum það nánar..

Heimild:  

 

Júlí 1999

Hvað er varmaskiptir?

Varmaskiptar eru til af öllum mögulegum stærðum. Lítill varmaskiptir fyrir einbýlishús eða tröllauknir varmaskiptar svo sem í virkinjum eins og á Nesjavöllum.

Varmaskiptar hafa verið til umræðu, ekki síst þegar ræddar hafa verið leiðir til að lækka hita á kranavatni. En hvað er varmaskiptir, er ekki full þörf á því að skýra það nánar?

Varmaskiptar koma raunverulega fyrst fyrir hérlendis með tilkomu hitaveitna og hlutverk þeirra er að leiða varma frá einum vökva til annars, oftast að leiða varma frá vatni yfir í vatn án þess að blöndun verði. Þetta er gert með því að vatnið rennur eftir þröngum rásum í plötum, oftast úr ryðfríu stáli, á hinni hlið plötunnar eru einnig þröngar rásir og í gegnum plötuna streymir varminn, heita vatnið hérna megin kólnar, en kalda vatnið hinum megin hitnar.

Varmaskiptar voru á árum áður oftast kallaðir forhitarar, stundum nefndir millihitarar, svo ef einhver þekkir betur þau orð þá er verið að tala um sama hlutinn, svona almennt séð. Þeir sem komnir eru á eldri ár og þekktu kola- og olíukyndingu muna efalaust einnig eftir kútunum sem hituðu upp baðvatnið, það þóttu ekki lítil þægindi í þá daga að geta skrúfað frá krana og fengið rennandi heitt vatn í stað þess að þurfa að hita vatn í pottum á eldavélinni.

Þessir hitakútar voru ekkert annað en varmaskiptar síns tíma, ýmist galvaniseraðir sívalir kútar með tvöföldu byrði, í ytra byrðinu rann vatnið sem hitnaði í katlinum, en í því innra kranavatnið, sem rann kalt inn í kútinn en heitt út úr honum. Við þetta má bæta að síðar komu kútar úr venjulegu svörtu stáli sem upphitaða vatnið frá katlinum rann um en í gegnum það gekk spírall úr eirrörum og eftir því rann kranavatnið og hitnaði á leiðinni.

Hvers vegna að nota varmaskipta?

Það er oft nauðsynlegt og á fyrstu árum hitaveitu í Reykjavík voru settir upp varmaskiptar í mörgum húsum. Það var gert vegna þess að ýmis efni í vatninu stífluðu ventla og ofna, þá var alltaf haft sama vatn á miðstöðvarkerfinu sem hitaveituvatnið hitaði án þess að blandast því.

Varmaskiptar eru til af öllum mögulegum stærðum, lítill varmaskiptir fyrir einbýlishús eða tröllvaxnir varmaskiptar svo sem á Nesjavöllum, þar sem vatn úr Þingvallavatni er hitað upp með gufu og síðan dælt til höfuðborgarinnar. Sama er gert á Svartsengi, þótt ekki sé þar gufa sem kemur upp úr borholum, en vatnið er svo mengað, m.a. af salti, að ekki er hægt að dreifa því beint til notenda heldur verður að hita upp annað vatn í varmaskiptum. Þá varð að losna við „súpuna“, heita vatnið sem nú var búið að skila varma sínum í nothæft vatn, og þá varð umhverfisslysið sem í daglegu tali nefnist „Bláa lónið“ og dregur túrista til landsins úr öllum heimshornum. Niðurstaðan er sú að varmaskiptar eru oft nauðsynleg tæki og til margra hluta nytsamlegir, en sá mikli áróður fyrir notkun þeirra sem verið hefur í gangi af seljendum (þeir reyna auðvitað að selja sína vöru), en einnig af hönnuðum og byggingarfulltrúum, er varasamur.

Einkum við þrenns konar aðstæður

Eftir að snjóbræðsluöldin hófst hérlendis upp úr 1970 komust hönnuðir í feitt og hófu að hanna snjóbræðslukerfi og reyndu þá sumir að finna upp hjólið rétt einu sinni. Sumir tóku þá afstöðu að fyrirskipa varmaskipta á öll snjóbræðslukerfi til þess eins að hægt væri að hafa frostlög á snjóbræðslukerfunum. Vissulega voru rök fyrir því við vissar aðstæður en engin í flestum tilfellum.

Nú er einkum rekinn áróður fyrir notkun varmaskipta til að lækka hita á kranavatni en þar er ekki öll sagan sögð. Ef millihitari er settur á kranavatn í eldhúsum, og þar með verður heita kranavatnið upphitað kalt vatn, má oft búast við að leiðslurnar þoli það ekki. Til að bægja frá slysahættu af heitu kranavatni eru til jafn öruggar en miklu ódýrari leiðir, en það er notkun á sjálfvirkum blöndunartækjum við sturtur og baðker. Og þá eru það plaströrin, margir hönnuðir og byggingarfulltrúar hafa það fyrir kæk að fyrirskipa varmaskipta á kranavatn og hitakerfi einungis af því að leiðslurnar eru úr plasti, ef valin eru rétt plaströr er það öldungis óþarfi.

Sumir mæla gegn notkun sjálfvirkra blöndunartækja til lækkunar hita á kranavatni með þeim rökum að í þeim verði „útfellingar“, ýmis efni í vatninu skilja sig frá því og setjist á ýmsa fleti tækjanna eins og gerist í ofnkrönum, þess vegna sé öruggara að nota varmaskipta.

Sjálfvirku blöndunartækin þarf og á að hreinsa, en það sama á við um varmaskipta, þeir „sljóvgast“ með árunum vegna útfellinga, efni úr hitaveituvatninu falla út og festast í þröngum rásunum á milli platnanna og þá ætti að hreinsa með fárra ára millibili. Það verður ekki gert nema taka millihitarann frá og fara með hann og láta hreinsa með sterkum sýrum. Ef hins vegar það er ekki gert geta rásir hreinlega stíflast og þá verður engu bjargað, þeir varmaskiptar sem notaðir eru í dag eru lóðaðir saman í heilu lagi, þá er ekki hægt að taka í sundur. Ef þú færð fyrirskipun um að nota millihitara áttu kröfu á rökstuðningi og í sumum tilfellum kann hann að vera borðleggjandi.

Hins vegar er rétt að muna það að með notkun varmaskipta er verið að leggja segjum 100.000 króna aukakostnað á húsbyggjanda eða húseiganda einbýlishúss og það er ábyrgðarlaust að fyrirskipa það ef ástæðan er eins og hjá krökkunum „að þí bara“.

Hér sést algengur plötuvarmaskiptir, heillóðaður. Gefum okkur að hitaveituvatn renni inn um stútinn t.v. að ofan og komi út kælt um neðri stútinn t.v. Þá rennur kalt vatn inn í neðri stútinn t.h. og kemur út sem heitt vatn úr efri stútnum t.h., svo einfalt er þetta eða hvað?

Fleira áhugavert: