Mælagrindur – Misjafnt handverk, virðing

Heimild: 

.

Nóvember 1995

Snyrtileg lögn eða flækjufótur

Handverkið er æði misjafnt þegar mælagrindur eru annars vegar. Nauðsynlegt er að menn beri virðingu fyrir hlutverki mælagrindanna og kaffæri þær ekki í drasli. Þær verði þá að vera sæmilega smekklega úr garði gerðar.

Hitaveitugrind í skáp, hér fyrir sumarhús

Það getur hver litið í eigin barm, farðu fram eða niður í hitaklefa eða bílskúr og skoðaðu hitagrindina þar sem mælirinn er, sem telur hvað þú notar marga lítra af heitu vatni; þetta á að sjálfsögðu eingöngu við þá sem búa á hitaveitu- og fjarvarmasvæðum. Ef þú ert á höfuðborgarsvæðinu, á veitusvæði Hitaveitu Reykjavíkur, mætir þér þessi gamla og þreytta útfærsla á hitaveitugrind, hún hefur nánast verið óbreytt frá upphafi, þokkalega samanskrúfuð, en málningu er ekki eytt á gripinn. En hins vegar er eins víst að þú hafir ekki séð þetta þýðingarmikla tæki, margir hitaklefar eru notaðir sem ruslageymslur, eða safn gamalla fótanuddtækja og annarra tískuverkfæra síns tíma. Mælagrindin getur verið úti í bílskúr og hefur þar breyst í hengi fyrir regnfatnað fjölskyldunnar, geymslustað fyrir málningarrúllur og pensla, skóflur og hrífur. Já, hugmyndaflugi eru engin takmörk sett þegar kaffæra skal hitaveitugrind.

Engin virðing

Það er nú einu sinni svo og raunar mjög mannlegt, að við sýnum hlutum, vélum, tækjum og tólum þá virðingu, sem hver hlutur krefst, hver sýnir ekki nýrri Tojótu meiri virðingu en gamalli Lödu? Oft hefur vaknað spurningin; hvers vegna hanna og framleiða veitukerfin ekki tengigrindur þar sem fagurfræðileg sjónarmið fá að ráða? Hvers vegna ekki að leyfa litum að njóta sín, hvers vegna ekki að smíða fallega umgjörð, smekklegan skáp e.t.v. með plexigleri í hurðinni svo hægt sé að sjá alla ventla og mæla sem þó eru inni í sinni hlíf? Það er margsannað að umhverfið ræður oft umgengni okkar, við göngum ekki á sama hátt inn á parketgólf og bert steingólf. Ný endurhönnuð hitaveitugrind í smekklegum kassa eða skáp er ekki eitthvað sem kallar á stóraukin útgjöld; þetta er eitthvað sem kallar á ný sjónarmið, nýja afstöðu. Það skyldi þó ekki verða til þess að álestrarmenn veitunnar kæmust að flestum mælum án þess að þurfa að selflytja reiðinnar ósköp af alls konar drasli?

Fyrirmynd frá Eyjum

Það kemur því gleðilega á óvart að sjá framtak Marinós Sigursteinssonar, pípulagningameistara í Vestmannaeyjum, sem hefur hannað og sett saman nýja mælagrind, sem hann notar í hús á sínum heimaslóðum, þótt Eyjamenn hafi ekki jarðvarma eiga þeir fjarvarmaveitu. Þessi fyrirmyndar mælagrind er þannig að öll tæki, ventlar, mælar þrýstijafnarar og annað, sem nauðsynlegt er á slíkri grind, er aðgengilegt og vel sýnilegt, en tekur þó lítið rými. Allar leiðslur eru málaðar og síðan er settur lakkbrenndur kassi úr blikki yfir. Þegar þannig er hægt að vinna á hinum minni stöðum, hvað þá um þá stærri? Þetta hlýtur að vera áskorun fyrir stærstu varmaveitu landsins, Hitaveitu Reykjavíkur, að hysja upp um sig brækurnar.

Því ekki að efna til samkeppni meðal pípulagningamanna um nýja hitaveitugrind, það hefur þegar sannast að minnsta kosti einn fagmaður er finnanlegur sem ræður við það verkefni. En í leiðinni ætti að taka alla arkitekta og þá sem hanna hús á hörkulegt námskeið; það er kominn tími til að þeir skilji að inntök fyrir heitt vatn, kalt vatn, rafmagn, síma og fjarskipti er ekki eitthvað sem alltaf er hægt að troða í eitthvert afgangspláss undir stiga eða í kjallaragrottu. Þar sem þessar lagnir koma inn í hús á að vera gott rými, fullfrágengið, málað í hólf og gólf. Þetta er krafa, sem þessir háu herrar eiga héðan í frá að taka fullt tillit til, það á ekki að láta þá komast lengur upp með þá fyrirlitningu, sem þeir hafa sýnt mönnum í húsbyggingum að þessu leyti.

Fleira áhugavert: