Gasstöðavarhúsið – Meðhöndlum gasið af varúð

Heimild: 

 

Mars 1998

Stóraukinni notkun á gasi fylgja hættur

Gas er einhver besti kostur við eldun og steikingu góðra máltíða. En við verðum að meðhöndla gasið af varúð og ábyrgð.

Gasstöðin starfaði frá 1910 til 1956 – stuttu eftir það var hún rifin og um 1970 reis þarna Lögreglustöðin

Á horni Hverfisgötu og Rauðar árstígs í Reykjavík er stíl hreint lítið hús fyrir framan lögreglustöðina. Þetta hús eru síðustu menjar gasstöðvarinnar sem þarna var reist 1910 undir stjórn Þjóðverjans Carl Francke. Hann sá einnig um lögn gasveitu í götur bæjarins og í meira en hálfa öld veitti hún mörgum bæjarbúum ljós og yl. Þetta var það mikið fyrirtæki að hér varð til stétt gaslagningamanna sem síðar stofnuðu stéttarfélag með öðrum rörlagningamönnum. Líklega hafa flestir talið að gasnotkun til eldunar væri endanlega lokið hérlendis þegar gasstöðin var rifin. En er það svo? Nei, öðru nær, gasnotkun hefur aukast til muna á undanförnum árum, en sú þróun hefur farið hljóðlega, kennski of hljóðlega.

Síðustu menjar gasstöðvarinnar við Hlemm

Að elda með gasi

Það virðist vera einróma álit matreiðslumeistara, bæði lærðra og leikra, að gas sé einhver besti kostur við eldun og steikingu góðra máltíða. Þar mun m.a. koma til hvað gasið svarar fljótt kalli ef svo má segja. Hér er um beina eldun að ræða, gasloginn leikur um botninn á pottinum eða pönnunni og hann er viðbragðsfljótur. Á augabragði má auka hann eða draga úr honum, þetta er ekki svo lítið atriði þegar galdra skal fram gómsætar steikur. Gamla hellan á Rafha eldavélinni var lengi að hitna og lengi að kólna og þótt eldavélarhellur hafi þróast síðan ná þær tæpast viðbragðsflýti gaslogans. Gasið var ekki einungis notað til eldunar í Reykjavík meðan gasstöðin var og hét, það var einnig notað til ljósa eins og enn er gert víða um lönd. Eitt vinsælsta leikrit um miðja öldina hérlendis var einmitt sakamálaleikritið Gasljós og kannski var það fyrsti „krimminn“ sem hér var sýndur á sviði. Í því leikriti verður hin ofsótta eiginkona vör við að einhver var í húsinu, þegar enginn átti þar að vera, þegar gasljósið dofnaði.

Það var víst ekki óalgengt þar sem lýst var með gasi, að ljósin dofnuðu þegar kveikt var á fleirum, þrýstingurinn á gasleiðslunni féll við meiri notkun. Hætta á ferðum Nú er farið að nota gas í eldhúsum veitingastaða og auðvitað nota allir gas í útilegum, bæði í tjöldum og og húsvögnum. Gasið hefur einnig haldið innreið sína á einkaheimilin; þó nokkrir byggjendur einbýlishúsa gera ráð fyrir gaseldun þegar teiknað er og byggt. Hvað verður næst? Heldur gasið einnig innreið sína í fjölbýlishúsin og hvað getur þá gerst? Það sem er að gerast er það að gasnotkun eykst stórum skrefum en fylgir því sú þekking sem nauðsynleg er á þessum stórkostlega og hreina orkugjafa, gerir ekki hver og einn nánast það sem honum sýnist? Það er nú einu sinni svo að brennanlegir orkugjafar eru ekki hættulausir, en þeir eru mismunandi hættulegir.

Gasið ekki aðeins brennur, neisti í gas við ákveðnar forsendur getur valdið ógurlegum spengingum, þetta er eins gott að muna. Það er því kominn tími til að taka þetta mál föstum tökum áður en „bomban mikla“ lætur í sér heyra. Það er ekki verið að spá neinum ragnarökum, ei veldur sá er varar. Þeir sem eru og eiga að vera ábyrgir fyrir lögn gaslagna eru pípulagningamenn og almennt er þeim vonandi ljós sú mikla ábyrgð. Eitt er víst að þeir eru að undirbúa átak til að uppfræða sjálfa sig en það þarf ekki síður að uppfræða allan almenning, ekki aðeins um að þau miklu þægindi sem gasið veitir heldur einnig um hætturnar. Það getur orðið dýru verði keypt ef við meðhöndlum ekki gasið og tækin og tólin sem því tengjast af varúð og ábyrgð.

Fleira áhugavert: